Hraunin ofan Hafnarfjarðar

Reykjanesskagi

Þegar skoðað er jarðfræðikort ÍSOR, unnið af margfróðu fólki á löngum tíma, af Reykjanesskaga er áhugavert að skoða helstu hraunin ofan Hafnarfjarðar, sérstaklega í hinu sögulega samhengi þeirra. Hraununum eru gefin nafngiftirnar kap, gel, búr, se, óbr, skú, tv og stó. Þetta eru skammstafnir yfir „Kapelluhraun, „Geldingahraun“, Búrfellshraun“, Selhraun“, Óbrinnishólahraun“, „Skúlatúnshraun“, „Tvíbollahraun“, „Stórabollahraun“ og ekki síst meginhraunið „Hrútagjárdyngjuhraun. Hellnahraunin, eldra og yngra virðast vera samheiti yfir Stórabolla- og Tvíbollahraunin, sem runnu með u.þ.b. 1000 ára millibili.

Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ÍSOR.

Kapelluhraun (syðsti hluti þess var jafnan nefnt Nýibruni en sá nyrsti Bruninn) er hraun á norðurhluta Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar hjá Straumsvík og er hluti af hraunum sem runnu árið 1151 í Krýsuvíkureldum. Kapelluhraun er úfið apalhraun og rann úr gossprungu sem var alls um 25 km löng. Sunnan á skaganum rann þá einnig Ögmundarhraun í sjó fram. Kapelluhraun rann aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna.

Kappella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kapelluhraun er nefnt svo eftir lítilli tóft þar sem var kapella. Um miðja 20. öldina fannst þar lítið líkneski af heilagri Barböru en hún var sögð góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Kapellan stóð í miðjum vegarslóða sem menn höfðu rutt gegnum hraunið en hann hefur nú verið eyðilagður með öllu að undanskildum tuttugu metra kafla við rústir kapellunnar. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.

Geldingahraun

Jarðfræðikort

Geldingahraun – jarðfræðikort.

Um Hvassahraun segir í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „Þar upp af er stór hraunhóll sem heitir Haugrúst eða Hugarúst?? Þetta er stór hæð og hrjúft allt í kring og í hólnum er gjögur (jarðfall). Þar ofar tekur svo við Geldingahraun og þar vestan við horn þess hrauns er djúp gjá nefnd Svartagil. Samhliða Geldingahrauni, ofar og vestur og langt í austur, er svæði það sem nefnt er Mosar og í þeim miðjum nærri Afstapabruna er Bögguklettur, þetta eru einkennilegir hólar.
Geldingahraun sést sannanlega austan yngra Afstapahraunsins á nokkrum stöðum.

Afstapahraun

Jarðfræðikort

Afstapahraun – jarðfræðikort ÍSOR.

Afstapahraun (kallast einnig Hvassahraun) er apalhraun á Reykjanesskaga. Hraunið hefur runnið frá eldgígum sem eru vestan undir Trölladyngju og þaðan til norðurs alveg í sjó fram í Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd. Við suðurenda hraunsins eru Höskuldarvellir, sem eru grasi gróið flatlendi, eitt hið stærsta á Reykjanesskaganum. Við norðurendann hefur verið brotið af hrauninu vegna lagningar Reykjanesbrautar, sem liggur þar á milli hrauns og sjávar. Heildarlengd hraunsins er um 10 kílómetrar. Samkvæmt rannsóknum er hraunið um 2000 ára gamalt, sem byggir á C-14 aldursgreiningum og gjóskutímatali.

Selhraun

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Selhraun.

Hraunafurð Geldingahrauns, sem er að mestu eldra hraun undir Sfstapahrauni, rann sem mjór taumur alla leið niður í Straumsvík. Selhraunið er augljóst vestan Kapelluhrauns, en er grafinn að hluta undir yngri hraunum (Kapelluhrauns) utan smáskækils sem stendur upp úr og nefnist nú Selhraun. Hluta Selhraunsins má enn sjá ofan Leynis austan Kapelluhrauns

Búrfellshraun
Búrfellshraun er samnefni yfir hraunasvæði sem teygir sig yfir stórt svæði í nálægð Hafnarfjarðar. Hraunin runnu fyrir um 8000 árum en þá varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell sem rís fyrir sunnan Hafnarfjörð. Hraunin nefnast ólíkum nöfnum eftir staðsetningu þeirra eða útliti, t.d. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Urriðakotshraun, Lækjarbotnahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun og Balahraun.

Óbrennishólahraun

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Óbrinnishólahraun.

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig frá öðrum, reyndar með ólíkum hætti því hið fyrrnefna er að miklum hluta úfið kargahraun en hið síðarnefnda slétt helluhraun næst upptökunum, bæði þó með samfelldri Stakurráðandi mosaþembu.
Óbrinnishólabruni á (skv. fyrri rannsóknum) að hafa runnið 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) árið 1151 e.Kr. Um 1340 ára aldursmunur mun því vera á hraununum, en þess virðist þó fljótt á litið ekki sjást glögg merki, hvorki gróðurlega né jarðfræðilega. Mun líklegra er að Óbrinnishólahraunið hafi runnið í sömu goshrinu og Bruninn og þá einungis skömmu áður á jarðfræðilegan mælikvarða (á innan við 300 ára tímabili).

Skúlatúnshraun

Litluborgir

Litluborgir í Skílatúnshrauni – gervigígur.

Skúlatún er óbrennishólmi í Skúlatúnshrauni (Stórabollahrauni) sem rann fyrir um 2000 árum. Sumir vilja ætla að þar megi sjá til fornra minja, en slíkt verður að telja mjög hæpið.
Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.
Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en þegar þeir myndast þeytast upp hraun og setlög.

Hellnahraun

Mannvirki í Eldra-Hellnahrauni.

Er þetta ástæðan fyrir því að í gervigígunum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.

Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, hefur komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar.

Tvíbollar

Tvíbollar.

Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts.

Stórabollahraun

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort – Stórabollahraun.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar.

Tvíbollahraun
Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu úr Bollunum í Grindarskörðum um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og margflóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.
Í hraununum eru allmargir hellar. Nú var ætlunin að skoða Elginn undir Miðbolla, Balahelli undir Markraka og kíkja niður í gat, sem FERLIR fann fyrir þremur árum, en þá vannst ekki tími til að kanna það nánar.
Eins og áður er getið varð eldgosið um það leyti er fyrstu landnámsmennirnir vour að setjast að hér á landi.

Tvíbollahraun

Hellisop Leiðarenda í Tvíbollahrauni, Helgafell fjær.

„Meginhraunflóðið var til norðurs, hraunelfan klofnaði um hæðina austan við Dauðadali. Mjó álma úr því rann milli hennar og Lönguhlíðar og breiddist nokkuð út þar vestur af, en meginhraunflóðið féll norður af Helgafelli og norður með því að suðvestan. Tvíbollahraun er allt að 18 ferkílómetrar að flatarmáli.“ Þó gæti hraunið verið eitthvað minna því rannsóknir hafa sýnt að hluti hraunsins er þakið landnámsöskulaginu svo það gæti verið svolítið eldra.
Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.
Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.

Hrútagjárdyngjuhraun

Jarðfræðkort

Hrútagjárdyngjuhraun – jarðfræðikort ISOR.

Hrútagjárdyngja er um 4.500 ára hraundyngja sem þekur um 80-100 km² lands. Alls rúmir 3 rúmkílómetrar af hrauni. Dyngjan er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota. Hrútagjárdyngja er einn af stærstu hraunskjöldum á Reykjanesi. Í hrauninu er hægt að finna allmarga hraunhella, þ.á.m Steinbogahelli, Maístjörnuna og Híðið.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móháls[a]dal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Ljóst er þó, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. Verksummerki eftir miðkaflan sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnanlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni og myndað ábreiðu næst dyngjunni.
Gamli gígurinn í Hrútagjárdyngju, sem gaf af sér hina miklu kviku, sést enn, en hefur nánast fyllst af nýrra hrauni.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kapelluhraun
-https://nafnid.is/ornefni/650529
-https://is.wikipedia.org/wiki/Afstapahraun
-https://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%BArfellshraun_vi%C3%B0_Hafnarfj%
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=61463
-https://ferlir.is/obrinnisholabruni/
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/25-daudadalir/
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/26-skulatun-skulatunshraun/
-https://ferlir.is/tvibollahraun-elgurinn-balahellir-daudadalahellar/
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/14-gjasel-hrutagjardyngjuhraun/

Kapelluhraun

Ferðast um hraunin ofan Hafnarfjarðar – teikning frá 19. öld.