Reykjanesskagi – Útivistarparadís; Unnur Úlfarsdóttir
Í Vikunni árið 1987 fjallar Unnur Úlfarsdóttir um „Útivistarparadísina Reykjanesskagann„:
„Nú er sól farin að hækka á lofti og daginn tekið að lengja.
Í fögru vetrarveðri, eins og alltaf kemur af og til, nota margir tækifærið til útivistar. Oft hættir mönnum til að leita langt yfir skammt. Því er eflaust svo farið með marga íbúa höfuðborgarsvæðisins að þeir átta sig ekki á að við bæjardyrnar hafa þeir Reykjanesfólkvang, eitthvert skemmtilegasta útivistarsvæði landsins að margra mati. Reykjanesfólkvangur býður upp á ótal útivistarmöguleika. Þar er skíðaland Reykvíkinga í Bláfjöllum, gróðurvinin Heiðmörk, Kleifarvatn, Krýsuvíkin og jarðhitasvæðin, Kapelluhraunið og svo mætti lengi telja.
Jarðfræðilega séð er Reykjanesskaginn yngsti hluti landsins, eldbrunninn og gróðurvana. Eldfjöll eru þar mörg og mismunandi, flest lág. Hér á síðunni birtum við myndir sem Helgi ljósmyndari tók á fögrum vetrardegi í Kapelluhrauni.
Í hrauninu rétt hjá álverinu i Straumsvík var mjög sérstakt eldvarp sem varð eyðileggingunni að bráð þegar álverið var byggt.“
Hraunin ofan Hafnarfjarðar eru djásn, sem því miður hefur verið spillt á margvíslegan hátt á síðustu árum.
Þrátt fyrir hina jarðfræðulegu „útivistarparadís“ Kapelluhrauns og nágrennis sem og þá mikilvægu ásýnd sem hún hefði getað skapað bæði núlifendum og komandi kynslóðum, að ekki sé talað um gestum þeirra, óröskuð, hefur þeim hluta Reykjanesskagans verið stórlega spillt með gegndarlausri efnistöku, að því virðist nánast umhugsunarlaust.
Heimild:
-Vikan, 4. tbl. 22.01.1987, Reykjanesfólkvangur, Útivistarparadís, Unnur Úlfarsdóttir, bls. 62.













