Reykjanesskaginn hefur eitthvað að bjóða fyrir alla
Í Morgunblaðinu 2006 er umfjöllun Svavars Knúts Kristinssonar um Reykjanesskaga undir fyrirsögninni „Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla„. Þar segir að „Gönguhópurinn FERLIR hefur safnað gríðarlegu magni upplýsinga um minjar á Reykjanesi.

FERLIRsfélagar á göngu um Húshólmasvæðið. Fremstur fer Dagbjartur Einarsson, Grindvíkingur nr. 1 (þann daginn).
Gönguhópurinn FERLIR, sem upphaflega stóð fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, hefur nú síðan 1999 staðið fyrir fjölbreyttum og áhugaverðum ferðum um Reykjanesskagann. Hófst starfsemi félagsins á því að lögreglufólk áhugasamt um útivist og hreyfingu tók sig saman og ákvað að kynnast sínu nærtækasta umhverfi með heilbrigðri hreyfingu. Varð Reykjanesskaginn fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og lítils áhuga og vitundar fólks almennt um það svæði. Síðan starfsemi FERLIR hófst hefur mikil þekking á gönguleiðum og kennileitum skapast og má hana nú finna á síðu félagsins, www.ferlir.is.
Viðbót við þekkingu
Ómar Smári Ármannsson, einn af stofnendum FERLIR, segir upplýsingarnar í raun góða viðbót við þá vitneskju sem áhugasamir einstaklingar um efnið höfðu lagt til. „Allt sem lýtur að minjum, hvort sem um er að ræða forn- eða náttúruminjar, hefur verið okkur hugleikið, hvort sem þeirra hefur verið getið í gögnum, gamalt fólk bent á, eða grafið hefur verið upp á annan hátt,“ segir Ómar.
„Þessar minjar eru allar til og einhver hefur vitað af þeim, en þegar fólk deyr falla þær í gleymsku. Síðan rifjast þetta upp þegar þær eru skoðaðar.“
Ómar segir ekki alltaf nákvæmlega vitað hvað fundið er þegar hópurinn gengur fram á eitthvað sem bent hefur verið á. Því sé alltaf reynt að koma öllum upplýsingum á framfæri gegnum vefsíðuna. „Hún er orðin ágætt yfirlit yfir hvað er að finna á þessu svæði auk þess sem hægt er að vinna úr efninu,“ segir Ómar.
„Það er hægt að nýta það sem er til og áþreifanlegt til að átta sig betur á búsetusögunni, atvinnusögunni, þróuninni og þeim aðstæðum sem fólk hefur búið við, að varpa betra ljósi á söguna. Fólk skrifaði ekki um það sem var sjálfsagt á þeim tíma, en nú þykir fólki það sem þótti sjálfsagt þá sérstakt.“
Gönguferðir um Reykjanesskagann segir Ómar bjóða upp á gríðarlega fjölbreytta upplifun, sérstaklega hvað varðar tengsl sögu, menningar og náttúrulegra aðstæðna. „Þegar þú gengur um þetta svæði geturðu tengt minjarnar og nýtingu á landinu við þær aðstæður sem fólk þurfti að takast á við á mismunandi tímum. Reykjanesskaginn er, ef vel er að gáð, nokkuð ljóslifandi fyrir augum manna, ef þeir hafa þau opin,“ segir Ómar og tekur undir þá spurningu blaðamanns hvort göngurnar gagnist ekki rannsóknarlögreglumönnum afar vel.
„Þetta skerpir óneitanlega athyglisgáfuna og hjálpar mönnum að setja hlutina í samhengi við aðrar aðstæður en menn eiga við dags daglega. Það getur gagnast öllum, óháð starfi þeirra.“
Sækja þekkingu í eldri borgara
„Við höfum haft þann hátt á hjá okkur að við erum með fastar ferðir,“ segir Ómar. Hverjum sem er er leyft að koma með og taka þátt og hefur hópurinn leitað til fólks með þekkingu á ákveðnum svæðum, sem hefur leiðsagt honum.
„Gamla fólkið veit ýmislegt og oft hefur enginn spurt um þessa hluti í háa herrans tíð. Fyrst þegar við komum er það dálítið á varðbergi og veit ekki alveg hvað það á að segja, en síðan fer það að opnast og það rifjast upp fyrir því ýmislegt frá fyrri tíð og það deilir miklu með okkur.“
Þó ferðir FERLIR hafi orðið þekktari og hróður hópsins breiðst út hefur engu að síður verið reynt að halda fjöldanum í lágmarki, en Ómar segir ekki mega vera nema ákveðinn fjölda því annars verði tafir. „Hins vegar höfum við farið inn í aðra hópa og tekið að okkur leiðsögn og farið með hópana af sérstökum tilefnum án endurgjalds,“ segir Ómar. „Þetta er líka spurning um að gefa sér tíma til að pæla og þá er gott að hópurinn sé þannig samsettur að hann hafi áhuga á því tiltekna viðfangsefni sem verið er að skoða þá stundina. Sumir hafa áhuga á þjóðlegu hlutunum, aðrir á hellum, enn aðrir hafa áhuga á ströndinni og sjávarbúskapnum. Þá hafa sumir áhuga á seljunum eða jafnvel jarðfræðinni og jarðlögunum.

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem þykir mjög sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkum sem hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur og öðrum FERLIRsfélögum við refagildruna ofan Hrauns-Leynis.
„Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla þá er hafa áhuga á hreyfingu og útivist, hvort sem er að ræða náttúru eða minjar“, sagði Ómar að lokum.
Heimild:
-Morgunblaðið, 206. tbl. 03.08.2005, Reykjanesið hefur eitthvað að bjóða fyrir alla, bls. 16.














