Fornleifafræðingar líta á sig sem vísindamenn, sem og þeir eru. Þeir eru, líkt og aðrir vísindamenn, jafnan uppteknir af því að takmarka umræðuefni fræðigreinarinnar og spyrja eigin spurninga, s.s. um hvað er hægt að tala og hvað ekki? Þeir halda sig og við þær vísindalegu kröfur, sem til þeirra eru gerðar vegna þess að þeir telja sig bera ábyrgð á viðfangsefni fagsins. Hér er að hluta til um misskilning að ræða og það af nokkuð þröngsýnum ástæðum. Það er reyndar ekkert að því að takmarka viðfangsefnin og beina athyglinni að ákveðnum atriðum, en þó má aldrei gleyma að sýna skilning á skoðunum annarra fræðimanna (sagnfræðinga og þjóðfræðinga) sem og jafnvel leikmanna? Og hvað er að því að opna fyrir aðrar túlkanir á ákvörðuðu viðfangsefni líðandi stundar? Ef þessir ólíku aðilar tækju sig nú saman, samhæfðu möguleika fræðigreinarinnar og reyndu að nýta allt það sem hún hefur upp á að bjóða henni til framdráttar væru líkur á góðum, og jafnvel ágætum, árangri miklu mun meiri en hingað til hefur þekkst.
Fornleifafræðingar hafa undanfarna áratugi reynt að marka sér nýja “bása” og um leið aukna möguleika. Þessi “básauppblátsur” hefur hins vegar kallað á gagnrýni á það sem fyrir er og þar með sundurlyndi. Fagið hefur því ekki borið gæfu til að nýta sér það besta til enn betri nota.
Eitt helsta vandamál fornleifafræðinnar er þó almennt sambandsleysi fræðimanna og leikmanna. Hinir fyrrnefndu eru hafnir yfir það að ræða við þá síðarnefndu og þeir síðarnefndu reyna ekki einu sinni að nálgast þá fyrrnefndu af hógværum ástæðum. Hér vantar eðlilegan samráðsvettvang fyrir þessa mikilvægu vitundaaðila um fornleifafræðileg efni. Líklegt má telja að sameiginleg nálgun þeirra geti skilað miklu mun meiru inn í þjóðararfinn en hingað til hefur hefur verið.
Hér er ágætt dæmi: Leikmaður finnur merkilega fornleif. Hann reynir að koma vitneskjunni á framfæri, en vegna þess að viðkomandi er á fundi, á ráðstefnu, veikur eða í sumarfríi, er ekki hægt að koma upplýsingunum á framfæri. Leikmaðurinn gefst upp, en segir loks fréttamanni frá uppgötvuninni. Áhugi vaknar hjá fréttamanninum og hann kemur fréttinni á framfæri, enda telur hann sig vera að þjóna hagsmunum almennings. Einhver kerfiskarl, eða -kona, verður afbrýðissamur/-söm og ákveður að senda leikmanninum áminningu með vísan til 13. gr. þjóðminjalaga (tilkynna ber o.s.frv.). Leikmaðurinn verður sár og ákveður að tilkynna aldrei slíka fundi aftur, hvorki til viðkomandi stjórnvalds né fréttamanns. Og hver var ávinningurinn? Verri en enginn. Ef stjórnvaldið hefði hins vegar sent leikmanninum kveðju og þakkir fyrir árangurinn hefðu viðbrögð hans í framhaldinu, a.m.k. gagnvart því, orðið allt önnur og líklega árangursríkari. Viðbrögð opinberrar sjórnsýslu, þótt hún sé einungis marklítil orð í lögum eða reglugerð, getur því skipt máli um árangur.
Reynslan sýnir að þegar fornleifafræðilegir vísindamenn fá tækifæri til að nálgast eðlilega og hversdagslega hluti á mannlegum forsendum þá hefur vitund þeirra breyst og skilningur aukist, bæði á viðfangsefninu og faginu í heild. Dæmi um þetta eru útgefnar staðbundar fornleifaskráningar, sem hingað til (skv. skilyrðum laga) hafa einungis verið unnar undir handleiðslu fornleifafræðinga. Sumum þeirra hefur verið ábótavant. Leikmenn hefðu möguleg getað bætt þar um betur.
Það eitt segir til um mikilvægi “eðlilegra samskipta”. Háskólasamfélagið eða afurð þess á í sjálfu sér enga möguleika að lifa sjálfstæðu lífi án “fóðurs”. Fóðrið mun og hefur alltaf komið frá áhugasömu fólki um ríkjandi viðfangsefni á hverjum tíma, hvort sem það hefur verið í formi texta á skinni eða “álestur” landsins. Útfærslan og meðhöndlunin hefur hins vegar verið viðfangsefni vísindamannanna. Fóður fornleifafræðinnar verður einungis sótt til fortíðarinnar – hvort sem “nýjar” uppgötvanir hennar eða ábendingar koma frá leikmanni eða einstaka fornleifafræðingi.