Strandarheiði – Selvogsheiði

Gapi

Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.

Vindássel

Vindássel í Strandarheiði.

Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Girdingarrett-1

FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.