Bessastaðir – Bessastaðanes – Skansinn

Bessastaðir

Gengið var um Bessastaðanes með viðkomu í kjallara Bessastaða og á Breiðabólstað vestan Bessastaðatjarnar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – minjar og örnefni: ÓSÁ

Þegar farin er heimreiðin að Bessastöðum liggur leiðin framhjá Lambhúsum. Bærinn er horfinn en nálægt veginum og þar var m.a. stjörnuskoðunarstöð seint á 18. öld.
Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þá í eigu Snorra Sturlusonar. Að honum látnum urðu Bessastaðir fyrsta jörðin á Íslandi í konungseign. Þar varð brátt höfuðsetur æðstu valdamanna konungs hér á landi og var svo til loka 18. aldar. Sigurður Jónsson (1896-1965), forstjóri í Reykjavík,
gaf íslenzka ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra vorið 1941. Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.

Sem fyrr segir komust Bessastaðir í eigu íslenska ríkisins 1941 þegar maður að nafni Sigurður gaf ríkinu staðinn til bústaðar fyrir ríkisstjóra. Og frá því að Ísland varð lýðveldi 1944 hefur þetta verið bústaður forseta landsins. Árið 1805 var æðsta menntastofnun sem þá var í landinu “Lærði skólinn” fluttur hingað og starfaði hér í 40 ár. Forsetabústaðurinn er með elstu húsum á Íslandi reistur á árunum 1761-1766. Síðan hefur húsinu verið breytt og byggt við það, en er nú einungis notað sem móttökustaður. Forsetinn býr í nýju hús skammt norðar.

Reykjavík

Bessastaðir – gamla kirkjan.

Kirkjan er byggð utan um eldri kirkju sem þar var. Í kirkjunni eru steindir gluggar sem settir voru í hana 1956, og sýna þeir atriði guðspjallasögunni og kristnisögu Íslands.
Sögu byggðar á Álftanesi má rekja allt aftur til fyrstu Íslandsbyggðar og tilheyrði nesið landnámi Ingólfs Arnarsonar. Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, nam land á því svæði sem hét Álftaneshreppur.

Bessastaðir

Bessastaðir – nýja kirkjan.

Álftaneshreppur varð snemma til því byggð óx hratt á fyrstu öldunum eftir landnám. Sennilega hafa mörk Álftaneshrepps verið hin sömu frá upphafi hans fram til 1878 þegar hreppnum var skipt eftir kirkjusóknum í tvö sveitarfélög: Bessastaðahrepp og Garðahrepp.
FERLIR er þekktur fyrir áhuga á sögu og minjum svæðisins svo sjálfsagt þótti að verða við þeirri ósk hans að fá að líta í kjallara Bessastaðastofu. Þar eru minjar frá uppgrefti á svæðinu er stofan gekk í endurnýjun lífdaga á síðasta áratug 20. aldar. Mikið mun hafa gengið á, bæði við og í kringum uppgröft þann. Afurðirnar má t.a.m. sjá í kjallaranum, s.s. minjahluta eldri bæjarstæða, einstaka hluti, muni og sögulegar skýringar.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gengið var áleiðis norður að Bessastaðanesi. Á móts við útihúsin á Bessastöðum er tangi út í Bessastaðatjörn sem heitir Prentsmiðjutangi. Þar var prentsmiðja Skúla Thoroddsens alþingismanns og ritstjóra Þjóðviljans. Hann bjó á Bessastöðum frá 1901-1908. Skammt norðar er gamall brunnur frá Bessastöðum.
Dr. Kristján Eldjárn gerði fornleifakönnun á Bessastaðanesi og gaf hana út (Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981). Í henni eru tíundaðar helstu minjar, sem þar er að finna, s.s. brot af hlöðnum garði ofan við Músarvík, skotbyrgi, tóft, sennilega varðskýli á Rananum yst á Nesinu gegnt Eskinesi (norðan við hana er brunnstæði), tvær fjárborgir eða sauðabyrgi ofan Sauðatanga nyrst og síðan Skansinn norðvestan á því. Ferðin var notuð til að rissa upp minjarnar á svæðinu (sjá meðfylgjandi uppdrátt).

Skansinn

Skansinn við Bessastaði.

„Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir en eru nú ávalir og grasi grónir.“
Í júní 1627 rændu Tyrkir Grindavík. Tíðindin spurðust fljótt til Bessastaða og lét höfuðsmaðurinn Holger Rosenkranz hlaða virki úr torfi og grjóti fyrir ofan Seyluna, en svo kallast víkin sem skerst inn í nesið Skerjafjarðarmegin.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Á næstu áratugum var farið að hugsa til þess að hafa að staðaldri virki á Bessastöðum. 1667 var innheimtur af landsmönnum skattur til að byggja upp Bessastaðaskans næsta ár og voru Suðurnesjamenn fengnir til þess. Ekki var skansinum haldið við eftir þetta og greri yfir hann að mestu.
Þegar komið er að stíflunni eru rústir á hægri hönd, þær eru af Skansinum, virkinu og bænum þar sem Óli skans bjó. Konan hans hét reyndar Fía en ekki Vala. Þau bjuggu þar í smábýli, sem fór í eyði um aldamótin 1900. Á hægri hönd (þegar gengið er eftir stíflunni) er Seilan, víkin þar sem skip alsírskra sjóræningja strandaði fullt af herteknum Íslendingum árið 1627. Einstreymisloki á stíflunni milli Bessastaðatjarnar og sjávar, sem gerð var 1953. Lokinn heldur vatninu í tjörninni stöðugt í svipaðri hæð.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Breiðabólsstaðir eru byggðir úr höggnu grjóti undir lok 19. aldar. Sumir segja að það hafi verið afgangsgrjót úr Alþingishúsinu, líkt og einn veggur fjárhússins á Minna-Knarrarnesi. Lítil tjörn, Breiðabólsstaðatjörn er rétt við Breiðabólsstaði. Nálægt Jörva er gamall varðturn frá stríðsárunum, uppistandandi menjar um stóran herskálakamp, Brighton-kamp, sem teygði loftnet sín um flest tún þar í kring.

Heimildir:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990
-Kristján Eldjárn. Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1981.

Upplýsingar um Bessastaði eru m.a. af http://alftanes.is

Á Álftanesi

Í Besstaðanesfjöru.