Stakkavíkursel – Nátthagi

Stakkavíkursel

Gengið var um Hellisvörðustíg vestan við Víðisand sunnan Hlíðarvatns.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Stígurinn, sem er mjög gamall, er víða greyptur djúpt í klappirnar þar sem hann liggur ofan við ströndina. Hann skiptist í tvennt á einum stað og liggur eldri hluti hans uppi á klöppunum skammt ofan við ströndina. Þar er hann einn greyptur djúpt í klöppina svo til alla leið að hraunkantinum í vestri. Hraunið rann um 1350 og fór þá yfir stíginn. Nýrri stígur, sá sem farinn var á síðari öldum, liggur ofar í gegnum hraunið og upp fyrir það á milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Þá var gengið að Stakkavíkurborginni, fallega hlaðinni, vestan við Álfakirkju. Frá henni var haldið á Selsstíginn, upp á brún Stakkavíkurfjalls. Gangan upp tók um 15 mínútur. Frá brúninni sést Stakkavíkurselsstígurinn liggja til norðurs inn á hraunið, en efst á holti í fjarska sést í vörðu. Skammt vestan við hana, upp í holtinu, eru tóttir Stakkavíkursels. Þangað var haldið. Stígurinn var genginn upp í Brekkur (Dýjabrekkur og Grænubrekkur). Þar var beygt til austurs eftir 15 mínútna göngu. Sást þá í fallegan gamlan stekk utan í brekkunum neðan við selið. Í því eru tvær tóttir norðan í og suðaustan við hraunhól. Hóllinn er holur innan og inni í honum er ágætasta vistarvera. Hlaðinn stekkur er gegnt opinu, sem vísar í austur. Vestan selsins er hlaðin kví og nýlegra skotbyrgi refaskyttu. Ofan við selið er stekkur. Enn ofar er hraunhóll, holur að innan. Í honum og við hann eru hleðslur.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Á leiðinni niður brekkurnar sást gr torfhlaðinn stekkur, nokkuð stór (sjá mynd). Neðar fundust tóttir enn eldra sels, í skjóli fyrir austanáttinni, svo til fast við Stakkavíkurstíginn þar sem hann liggur áfram í átt að Vesturásum og Hvalhnúk. Tóttir þessar eru greinilega mjög gamlar. Verður það eftirleiðis nefnt Stakkavíkurselið eldra.
Frá selinu var gengið til suðvesturs yfir Selvogshraunið. Það er ekki auðgengið vegna þess hve grámosinn er þar þykkur og hraunið bugðótt.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Þegar komið var út úr því var gengið að neðra opi Náttahaga og það varðað. Síðan var gengið að efra opi hans og það einnig varðað. Haldið var niður um jarðfallið og upp eftir hellinum, sem er mjög víður, en talsvert hrun er fremst í efri hluta hans. Neðri hlutinn er svipaður. Eftir um 100 metra leið skiptist hellirinn. Önnur hraunrás kom ofan frá þvert á fyrri hraunrásina og lá áfram þvert niður með henni hinum megin. Þeirri rás var fylgt drjúgan spotta. Í fyrstu lækkaði hellirinn aðeins, en það kom ekki að sök því botn hans var þar heill. Síðan víttkaði og hækkaði hellirinn aftur svo um munaði og sást þá hvar hann lá að því er virtist út í hið óendanlega. Var þá ákveðið að snúa við.
Í leiðinni niður að Nátthagaskarði var “Annar í aðventu” skoðaður sem og Halli (Stakkavíkurhellir) ofan við skarðið.
Veðrið var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.