Straumur – Þýskabúð – Jónsbúð – Óttarstaðir II

Óttarsstaðir

Lagt var upp frá Straumi, en hann tilheyrir bæjunum í Hraunum. Þeir eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1964 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum.

Straumur

Straumur 2024.

Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot að norðanverðu, en Gerði og Péturskot að sunnanvörðu.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi. Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straumsselsstígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið út á Útnes og áfram upp í Straumssel. Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Gengið var að Norðurgarði. Garðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis búðina.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi. Þaðan er stutt yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; köttur, kindur, kú, kona og krakkar. Norðan við Jónsbúðartjörn er Markhóll, þríklofinn klettur. Í fjörunni mátti sjá mink við veiðar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Þar við eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir-vestari.

Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa. Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur. Undir bakka efst á einum veggnum stóð einmana rjúpa og fylgdist með.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Nokkuð austan Kúaréttar, sunnan Sigurðarhæðar, eru tvo hlaðinn byrgi, annað mjög heillegt. Upphaflega gætu þetta hafa verið þurrkbyrgi, en síðar byrgi refaskyttu, sem þaðan hefur ágætt útsýni til vesturs yfir lægðirnar í hrauninu norðan Brunntjarnar. Austan tjarnarinnar er hlaðin Straumsréttin.
Veður var frábært, lygnt, hlýtt og sólbjart. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.
Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.