Fornusel – Sýrholt

Rjúpa

Dagurinn var jafnframt „Göngudagur fjölskyldunnar„.

Sýrholt

Sýrholt – tóftir.

FERLIR fóra að leita Fornuselja undir Sýrholti, jafnframt því sem ferðin var nýtt til berja.
Sýrholt er á milli Auðnasels og Flekkuvíkursels, svo til í beina stefnu. Mikill uppblástur og jarðvegseyðing er á svæðinu svo einungis gróðurtorfur eru þar á stangli.

Ferðin var ágætt dæmi um leit á svæði þar sem svo til engin vísbending er um mögulegar minjar og ef þær væru þarna einhvers staðar, þá hugsanlega hvar.
Hver hæðin tók við af annarri og auðvelt að ganga framhjá því sem leitað var að. Ef gengið er vinstra megin við hæð gætu tóftir auðveldlega leynst hægra megin – og öfugt.
Reynt var að nota áunna reynslu og þau skynfæri, sem duga oft best við þessar aðstæður; sjónina og sjötta skilningarvitið. Heyrn, lykt, tilfinning og málið koma yfirleitt að litlum notum við leit að minjum.

Sýrholt

Fornusel í Sýrholti.

Gengið var norðvestur fyrir Sýrholtið og gengið að því til suðausturs. Selin á Reykjanesskaganum eru yfirleitt í skjóli fyrir þeirri átt; rigningaráttinni, einkum þau elstu. Þegar farið var að nálgast svæðið var leitað að kenniletum, grasi og gróðurbollum. Það tók að þéttast mám saman. Þá var skyggnst eftir hugsanlegum hleðslum eða öðrum mannanna verkum. Fljótlega kom vörðubrot í ljós á litlum hraunhól.

Sýrholt

Sýrholt – hleðslur í gjá.

Óljós gata sást liggja framhjá því, með stefnu að öðru vörðubroti. Stefnan var á hæðina vestanverða. Þar utan í henni, á grasbala, komu tóftirnar í ljós, þrjár talsins. Erfitt er að koma auga á þær, en þær eru þó vel greinilegar þegar betur er að gáð.
Skammt norðvestar var önnur tóft á litlum grasbala. Mjög erfitt er að finna hana. Skammt norðar er hlaðinn stekkur í gróinni gjá.
Ekki er vitað hvaða bæ á Vatnsleysuströnd þessi selstaða tilheyrði, enda greinilega mjög gömul.
Frábært veður í haustlitunum. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Fornusel - Sýrholti

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.