Höfði – Leggjarbrjótshraun – Skolahraun – hrauntröð
Grindavík lætur sér ekki nægja að eiga bróðurpartinn af öllum fjöllum á Reykjanesskaganum heldur eru í umdæminu merkilegustu jarðfræðifyrirbæri svæðisins. Er þar einkum átt við gosminjar frá sögulegum tíma. Og einnig í þeim efnum slær umdæmið öðrum svæðum við því að öllum líkindum er á hraunssvæðum bæjarins að finna elstu mannsvistarleifar landsins, þ.e. í Húshólma í Ögmundarhrauni. Slaga ofan Ísólfsskála eru bæði áþreifanlegur og merkilegur staðfestingarvottur þess sem óútskýrt hefur verið (sjá síðar). Segja má með sanni að berggangur í henni miðri, auk aldurslagskiptingar syllumyndana, sé kóróna hennar líkt og festin er Festisfjallinu, nágranna hennar.
Ögmundarhraun var löngum talið í skriflegum heimildum hafa runnið á tímabilinu frá 1150 til 1340, en nútímarannsóknir hafa sýnt fram á að hraunið rann um haustið 1151. (Í ljósi þess að háskólanemum er jafnan gert að geta heimilda í ritgerðarskrifum sínum má af þessu sjá að heimildir geta reynst rangar – jafnvel skriflegar – og hver er þá tilgangurinn? Af hverju ekki að byggja á eigindlegum rannsóknum – sem ætti jú að vera megintilgangur nútíma háskólanáms). Í sumum skrifum má sjá að Afstapahraun hafi runnið árið 1325 [m.a. á vef Útivistar], en rétt er að geta þess að einungis eitt eldgos varð á Reykjanesskaganum á 14. öld, þ.e. í Brennisteinsfjöllum (um 1340). Hins vegar hefur komið í ljós, sem ályktað var, að Afstapahraun er úr sömu goshrinu og Ögmundarhraun. Kapelluhraun er enn eitt hraunið úr þeirri sömu goshrinu. En svo er einnig um nokkur önnur nálæg hraun á svæðinu.
Til að upplifa myndunarsöguna var stefnan tekin upp að Höfða í Grindavíkurlandi. Fellið, fjallið, eða hæðin sú lætur ekki mikið yfir sér, en fæddi samt sem áður af sér eina stórbrotnustu hrauntröð svæðisins sem og sýnishorn af flestum öðrum jarðmyndunum er verða við gjósku-, klepra- og hraungos á sprungureinum. Allt hraunið er þakið hraungambra. Af augnyfirliti gróðurvæðingarinnar að dæma virðist hraunheildin öll vera frá svipuðum tíma.
Höfði er á sprungurein með Sandfelli, Hraunssels-Vatnsfelli og Oddafelli. Sú myndun var á síðasta ísaldarskeiði, undir jökli, líkt og hálsarnir beggja vegna; Fagradalsfjall, Vatnsfell og Hagafell í langvestri, Mælifell, Langihryggur, Stórihrútur, Kistufell, Litlihrútur, Litlikeilir og Keilir á millum og síðan Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) í austri.
Á milli þeirra hefur orðið gos á sprungurein frá sama tímaskeiði; Latfell og fjöllin inn að Móhálsadal og norður af (Hrútafell, Fjallið eina). Utan í fellunum eru síðan sprungugígaraðir frá því eftir að ísa leysti fyrir u.þ.b. 11.000 árum. Fyrst á eftir urðu dyngjurnar fyrstar til að móta landi, en eftir landnám má sjá 12-15 gos á sprungureinum á svæðinu. Áþreifanlegur vitnisburður um eina goshrinuna á sögulegum tíma má sjá utan í Höfða. Sunnan hans eru misgengi þar sem sjá má ísaldarbergið, en skammt vestar er Slaga. Lengi vel var talið að hún hafi myndast á síðasta jökulskeiði, en Jón Jónsson, jarðfræðingur, var sannfærður um að undirstaða hennar væri frá enn eldra jökulskeiði því í brúnunum má sjá jökulrákir undir nýrra hraunlagi. Annars er Slaga, líkt og nágrennishlíðar, dæmi um gamla sjávarhamra, áður en nýrri hraun fylltu undirlendið og færðu sjóinn utar og stækkuðu þar með landið. En af líkum lætur mun Ægir endurheimta umdæmi sitt – þótt síðar verði.
Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls úti í hrauninu er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með efnistöku og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni mannsins við náttúruna. Jón Jónsson taldi hann einn merkilegastan hraungíga á landinu því í honum mátti sjá þversnið sprungureinar. En sammsýnin skemmir oft það skemmtilegasta.
Fjallað hefur verið hér að framan um hraun. En hvað er það? Hraun er jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Tegundir hrauna eru að meginefni til tvenns konar; basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Felsísk (eða súr) hraun eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Kristallar verða einnig stærri þeim mun lengur sem kvikan er í kvikuhólfi.
Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Hallmundarhraun og Eldhraun við Mývatn. Það síðarnefnda rann á árunum 1724 til 1729.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Þau eru jafnan með kaldari hraunkviku og brotna því frekar upp en þunnfljótandi helluhraunin.
Og þá svolítið um aldurinn; Ögmundarhraun rann árið 1151. Talið er þó að eldgosahrinan á svæðinu hafi staðið í a.m.k. 30 ár. Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun eru talin vera frá 1188.
Þegar skoðuð er loftmynd af svæðinu má vel sjá hvernig hrauntaumarnir hafa runnið. Um hefur verið að ræða goshrinur báðum megin við Núpshlíðarháls. Að austanverðu liggur gígaröðin upp frá Skalla (Núpshlíðarhorni) með stefnu á Gvendarselsgíga utan í Undirhlíðum vestan Helgafells. Að vestanverðu liggur gígaröð upp frá Moshól, utan í Höfða og áfram inn að Eldborg undir Trölladyngu, um Mávahlíðar og um Sauðabrekkugíga. Hraunin, sem gígaröðin fæddi af sér heita að vísu ýmsum nöfnum, en þau breyta ekki tilurðinni.
Þegar gengið er upp í Höfða frá Méltunnuklifi við Ísólfsskálaveg má á stutti leið lesa fyrrgreind aldursskil jarðsögunnar. Á vinstri hönd eru ísaldarleifar og á þá hægri nútímahraun.
Þess á millum má lesa sögu gróðureyðingar á svæðinu. Á 1100 ára tímabili hefur það gerbreyst, frá því að vera algróið frá fjöru til fjalls, til þess að verða nær örfoka. Einstaka gróðurtorfur eru enn til merkis um öfugþróunina. Stundum hefur sauðkindinni verði kennt um, en þegar upp er staðið og staðreyndir skoðaðar eru afleiðingarnar einungis mannsins.
Aðkoman að Höfða er tilkomumikil. Bæði má sjá minni gosgíga (hliðargosop) með tilheyrandi myndunum (hraunæðum, gúlpum og kleprum), feiknamikla hrauntröð og svo gíginn sjálfan. Þegar staðið er upp á gígbrúninni má sjá upp og yfir Skolahraunið og niður Leggjarbrjótshraunið, allt niður að Katlahrauni við Selatanga. Gígurinn er opinn til suðurs og úr honum rann glóandi hraunkvikan um hrauntröðina stóru uns hún safnaðist saman í kvikuþró ofan Kinnar. Þegar þróin fylltist hefur kvikan fundið sér leið áfram til suðurs. Loks hefur fóðrið skort og kvikan runnið undan og tröðin orðið eftir. Fyrst í stað hefur kvikan verið bæði heit og þunnfljótandi, en þegar frá dró upphafinu hefur hún orðið kaldari og grófmyndaðri. Þannig má sjá helluhraun undir apalhrauninu, en augljóst má telja að hvorutveggja hafi komið úr sömu goshrinuni; á mismunandi tíma. Vel má sjá hvernig frumkvikan hefur lagst yfir landið, fyllt upp lægðir og flætt niður á við, í átt til sjávar, og hrauntaumar á jöðrum og síðar komnir hafa brotnað upp og dagað uppi á leiðum sínum sömu leiðir.
Þetta ferðalag varð enn betur áberandi þegar haldið var til suðausturs niður Skolahraunið. Kinn er há hraunbrún gegnt Línkrók í Núpshlíðarhálsi. Þar hefur þunnfljótandi helluhraunið runnið fram af og kvikan þar með náð meiri ferð á niðurleiðinni. Hraunið er yfirleitt einungis nokkurra sentimetra þykkt svo sjá má fyrir sér hvernig landið hefur legið þarna fyrrum. Í Kinninni eru jarðfræðimyndanir, sem einnig má sjá við neðanverða Selatanga; slétta hraunkolla (kleprakolla), en Dágon (landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála) hefur verið einn slíkur. Þarna uppi eru kollarnir hins vegar óspjallaðir af ágangi rofaflanna. (Auðvitað eiga háskólagengnu sérfræðingar eftir að rannsaka hraunin, aldursgreina og samræma þau með meiri nákvæmni).
Leitað var að hellum og skútum í Kinninni, en í því var einungis að finna fáa slíka. Jafnan var um að ræða litla skúta og stuttar yfirborðsrásir, enda hefur hraunið þarna verið þunnt, sem fyrr sagði. Ólíklegt er að finna megi hraunrásir í eldra hrauninu undir því, en þó er ekkert útilokað í þeim efnum.
Leggjarbrjótshraunið milli Línkróks og Höfðahálsar er í rauninni rangnefni því óvíða er greiðfærara yfir hraun á Reykjanesskaganum. Auðvelt er að rölta yfir það neðan við ennið og virða fyrir sér hinar stórbrotnu hraunmyndanir í hlíðinni. Auk þess liggur falleg og breið gata þvert yfir Leggjarbrjótshraunið undir Kinninni, með stefnu á vörðu á Höfðahálsinum sunnanverðum.
Í bakaleiðinni var gengið um gömlu þjóðleiðina um Mjöltunnuklif. Þarna lá þjóðleið um aldir (sem af undirlaginu má sjá). Árið 1932 greiddi Hlín Johnsen í Krýsuvík 100 kr. fyrir endurgerð götunnar svo komast mætti leiðina með vagna. Þá götu má sjá frá suðurenda Einihlíða að Klifinu, en kaflinn yfir Leggjarbrjótshraun hefur nú verið ruddur með nútíma tækjabúnaði; jarðýtu – illu heilli. Þó má enn sjá gömlu götuna norðan og ofan ruðningsins á köflum, auk þess sem gömlu vörðurnar standa enn. Um er að ræða hluta af hinum þjóðsagnarkennda Ögmundarstíg handan við hálsinn. Í klifinu sjálfu, sem Jón Guðmundsson (f: 1921) á Skála, einn vegavinnumannanna, þurfti að sprengja klett er skagaði út í götuna. Í dag má, ef vel er rýnt (hér að neðan), sjá þar andlit – anda klettsins. (Í umfjöllun um Méltunnuklif er jafnan birtar ljósmyndir af misgenginu nokkru sunnar, sem verður í besta falli að teljast misvísun).
Óvíða vaxa hrútaber jafn mörg á litlu svæði og undir Mjöltunnuklifsmisgenginu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín.