Tvíbollar – Stóribolli

Bollar

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar í Náttúrufræðinginn 1977 um „Tvíbolla og Tvíbollahraun„:

Inngangur

Kerlingarskarð

Við Grindarskörð er röð af hnúkum, sem bera við himin norðan frá séð og flestir munu nefna Bolla, Stóra-Bolla, Mið-Bolla eða Tví-Bolla og loks Þrí-Bolla. Að minnsta kosti tvö þessara nafna eru notuð um móbergshnúka, sem harla litla bollalögun hafa, og er raunar með ólíkindum að nöfn þessi hafi þeim nokkru sinni verið gefin eða ætluð.

Tví-Bolli

Tví-bolli og nágrenni.

Gildir þetta um Stóra-Bolla og Þrí-bolla en öðru máli gegnir um Mið-Bolla eða Tví-Bolla, sem hér verða nú gerðir að umtalsefni. Ekki dettur mér í hug að efast um að Bolla-nöfnin eigi við gígi þá og gígskálar, sem þarna eru, en í einhverju undarlegu hugsunarleysi hafa þau verið færð yfir á þann hluta landslagsins, sem er mest áberandi, séð úr byggð. Stóri-Bolli er einna besta dæmið um þetta. Hann er geysistór gígskál norðan í móbergshnúk, sem vel mætti heita Bollatindur en engan veginn Bolli. Raunar er svo að sjá sem allmikill nafnaruglingur hafi hér átt sér stað. Í dagbók Guðmundar G. Bárðarsonar, sem dr. Finnur Guðmundsson hefur góðfúslega lánað mér, stendur eftirfarandi ritað 18. ágúst 1931: „Bolli mikill framan í Kongsfelli (leturbr. J.J.), hefur frá honum fallið mikið hraun, sem hefur myndað ávala bungu neðan við gíginn – Kongsfell er úr móbergi.“

Bollar

Í Bollum

Af þessum ummælum Guðmundar sýnist mér fullljóst að hnúkurinn, sem Stóri-bolli er norðan í, sé hið raunverulega (litla) Kongsfell en ekki sá lítt áberandi gígur við Stór-konugjá og Selvogsgötu, sem nú er látinn bera það nafn. Skal svo ekki meira um þessi örnefni fjallað. Stóri-Bolli hefur úr sér hellt miklu hrauni, sem nær allt norður að Undirhlíðum en láti sér nægja að spýta hraungusum upp á móbergshnúkinn, sem stolið hefur nafni hans.

Tví-Bollar
GrindarskörðÍ stað Mið-Bolla nota ég nafnið Tví-Bollar, því bæði er að það er til (Sigurðsson, 1976), og svo er það í fyllsta máta réttnefni. Gígirnir eru nefnilega tveir saman og mætti sannarlega kalla þá Litla og Stóra, því litli gígurinn nær hinum varla í „mitti“ og er honum á hægri hlið sé horft í norður. Báðir eru gígirnir brattir, hlaðnir úr gjalli og gjallkleprum og mjög unglegir. Stærri gígurinn er um 35—40 m hár yfir umhverfið og í um 480 m hæð yfir sjó. Hann er opinn mótí norðvestri og þá leið hefur hraunið runnið, fyrst í bröttum fossi en síðan að mestu í neðanjarðarrásum og hellum, sem hafa kvíslast á ýmsa vegu þegar neðar dró.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli og nágrenni.

Hinir svo nefndu Dauðadalahellar, sem margir kannast við, eru í þessu hrauni. Það hefur runnið yfir hraunið úr Stóra-Bolla. Mjó kvísl hefur runnið meðfram Lönguhlíð og kvíslast þar á ýmsa vegu en meginhraunið hefur fallið í breiðum fossi allt norður að Helgafelli. Loks hefur það sent mjóan straum vestur með Helgafelli að suðvestan. Má þar víða sjá að það hefur fallið ofan í sprungur í eldra hrauni, því sem Gullkistugjá er í og ég tel að komið sé úr Stóra-BoIIa. Það hefur þar, niðri á sléttlendinu, belgst upp í háar bungur og ávala garða. Út frá þeim hafa svo hér og þar komið undanhlaup, sem eru svo þunn að talsverða aðgæslu þarf til að fylgja brúnum hraunsins. Hraunið sjálft er plagioklasdílótt en dílarnir eru mun færri og smærri en í hrauninu frá Stóra-Bolla, og er yfirleitt vandalaust að þekkja þau á því einu.

Grindarskörð

Stóri-Bolli.

Samsetning Tvíbollahrauns reyndist vera á þessa leið:
Plagioklas 51,8%
Pyroxen 31,2%
Ólivín 7,3%
Málmur 9,0%
Dílar:
Plagioklas 10,3%
Ólivín 0,6%
Tala punkta 455
Nokkuð er um allstóra plagioklasdíla í hrauninu og talsvert um minni díla. Þeir eru mjög beltaðir ,,zoneraðir“, fjölmyndaðir (twinned) og mikið um gler innan í þeim en dílarnir með heila skarpa kanta. Einstaka allstórir ólivíndílar koma fyrir í hrauninu.

Aldur hraunsins
Bollar
Nokkur ár eru nú liðin frá því að ég fyrst frétti um að jarðvegslag væri sýnilegt undir hrauni við Helgafell. Gísli Sigurðsson varðstjóri í Hafnarfirði, sem er mikill náttúruskoðari og náttúruunnandi, hafði fundið þennan stað. Hann bauð mér fylgd sína þangað og fórum við upp að Helgafelli og fundum staðinn). Hraun hefur þarna runnið yfir gróið land, en síðar hefur leysingavatn skorið sér farveg meðfram hraunröndinni og grafið sig inn undir hana og má þar sjá þverskurð af jarðvegslaginu undir hrauninu. Athyglisvert er að ljóst öskulag er í sniðinu nær miðju en svart öskulag nokkru ofar og annað svart öskulag neðar. Hraunið er þarna aðeins 0,5—0,75 m þykkt.

Skúlatún

Skúlatún í Tvíbollahrauni.

Í jarðvegstorfu ofan á hrauninu er eitt svart öskulag allþykkt. Ekki var mér Ijóst fyrr en alllöngu síðar að þarna var um tvö hraun að ræða og það var undir yngra hrauninu, sem jarðvegslagið var.
Við nákvæma athugun kemur í ljós að örþunn hraunlæna úr Tvíbollahrauni hefur runnið upp að Helgafelli, vestur með því að sunnan og beygt norður á við við norðvesturhorn fellsins þar sem áðurnefndur farvegur hefur grafist inn undir hraunið. Örlitlu norðar hefur það mætt Gvendarselshrauni, sem komið er upp austan í Gvendarselshæð og fyllir svæðið milli hennar og Helgafells. Mót þessara tveggja hrauna eru afar ógreinileg en líklegt að Tvíbollahraun sé yngra.

Skal nú vikið að jarðvegssniðinu og því, sem það hefur að segja. Ekki er mér kunnugt um nema 2 ljós öskulög á þessu svæði og hefur Einar Gunnlaugsson (1973) fundið þau á nokkrum stöðum, m. a. við Vatnsskarð og Djúpavatn. Eldra lagið er frá Heklu, H 3 , og samkvæmt niður stöðum Sigurðar Þórarinssonar (1971) er það um 2900 ára gamalt. Hitt lagið er hið svokallaða landnámslag og talið vera frá því um 900 (Þórarinsson, 1968). Tók ég þarna sýni árið 1973 og sendi til Uppsala í Svíþjóð þar sem Ingrid U. Olsson núverandi prófessor annaðist aldursákvörðun á þeim. Niðurstöður voru á þessa leið:
Helmingunartími 5570 ár,
aldur 1075 + 60 Ci * ár.
Helmingunartími 5730 ár,
aldur 1105 + 60 C^ ár.
Séu þessar tölur teknar eins og þær koma fyrir og helmingunartíminn 5570 notaður kemur í ljós að hraunið hafi runnið árið 875 eða árið eftir að Ingólfur Arnarson nam hér land. Einhverjum kann að finnast nóg um þessa tilgátu, en hún hefur nú hlotið nánari staðfestingu.


Nýlega  héldum við Sigmundur Einarsson til nánari rannsókna á Tvíbollahrauni. Sunnan undir Helgafelli nokkru austan við áðurnefndan stað er jarðvegstorfa lítil við hraunkantinn og þar er hraunið svo þunnt að auðvelt er að brjóta það upp með handverkfærum. Þarna tókum við gryfju og er ekki að orðlengja það að þarna fundum við landnámslagið með sínum þekktu einkennum og var auðvelt að rekja það inn undir hraunið þar sem efri hluti þess hverfur í kolaða lagið næst hrauninu. Smásjárathuganir á öskunni sýna að ljósbrot glersins og plagioklassins passa vel við það, sem Jens Tómasson (1967) gefur upp, og er því ekki ástæða til að efast um að þarna sé landnámslagið komið.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Af ofangreindum staðreyndum má því ráða, að hvað sem nákvæmni C1 4 aldursákvarðananna viðvíkur þá hefur þetta gos orðið á þeim tíma þegar landnám norrænna manna á Íslandi var að hefjast eða nýhafið. Því kann að vera að gosið í Tví-Bollum við Grindarskörð hafi verið fyrstu eldsumbrot, sem forfeður vorir litu augum hér á landi.
Af þessum niðurstöðum leiðir ennfremur að fleiri hafa eldgos orðið á Reykjanesskaga á sögulegum tíma heldur en fram til þessa hefur verið vitað, en í þessari grein skal það ekki rakið.
Sjá meira um það HÉR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 1977, 47. árgangur 1977-1978, 2. tölublað, „Tví-Bollar og Tvíbollahraun, Jón Jónsson, bls. 103-109.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).