Sauðhóll
Fjallað er m.a. um Sauðhól í bókinni Mosfellsbær – Saga byggðar í 1100 ár.
Þar segir: „Það var um veturnætur að bóndinn á Helgafelli í Mosfellssveit fór fram í Skammadal til að smala heim fé sínu. Veðurútlit var slæmt, kafaldskóf og skyggni því ekki gott. Bónda gekk vel að ná saman fénu, enda undan veðrinu að sækja heim til bæja, því vindur var af austri. Bónda fannst fé fleira en hann átti, en sá það ekki vel fyrir snjómuggunni. Hélt hann að þetta ókunna fé væri annaðhvort frá Reykjum eða Varmá.
Segir ekki af ferðum bónda fyrr en hann kom fram, á Hrísholt fyrir ofan Sauðhól. Þá taka sig útúr nokkrar kindur og sveigja niður að hólnum. Bóndi ætlar að hlaupa fyrir kindurnar og reka þær tilbaka, en nær ekki að stöðva þær. Kindurnar hlaupa beint að hólnum. Sér bóndi þá að dyr opnast á hólnum og renna kindurnar þar inn og svo lokast hóllinn.“
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 135.