Stekkjarhraun – Nónklettar

Stekkjarhraun

Ætlunin var að skoða Stekkjarhraunið (nú á millum Berga og Hlíðar í Setbergshverfi) og leita uppi nokkur örnefni og minjar, sem þar er að finna. Þá átti að ganga upp á Setbergshlíð og skoða svonefna Nónkletta, sem þar eru, eyktarmark frá Urriðakoti.

Stekkur

Búrfellshraun kemur úr gígnum Búrfelli sem er um það bil 7 km austan við Hafnarfjörð. Sjá á korti litað grænt, merkt H 105. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
StekkurBúrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Stærð hraunsins er um 18 km2.
StekkurSá hraunstraumur sem  runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir Atkeldaþverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.“
Stekkjarhraun er nú friðlýst sem fólkvangur. Tilgangurinn er að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af fyrrnefndum hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 8000 árum. Hraunið er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli. Hraunið dregur nafn sitt af stekk eða stekkjum frá Hamarskoti og Görðum, sem enn má sjá leifar af.
Þverlækur„Stekkurinn“ er reyndar þrír slíkir í Stekkja[r]hrauni; einn frá Hamarskoti, annar frá Görðum og sá þriðji frá Setbergi, austan markanna. Línan lá um Lambadrykk í Sýlingahellu. Líklega hefur nafnið þótt eftirbreytanlegt því sama örnefni er á hrauntanga vestan Urriðakotsvatns, sbr.: „Mjóitangi er ystur og þar um liggur landamerkjalínan. Rétt innan við, yst á tanganum, er svonefndur Kriki og líið eitt norðar eru Kvíar og Kvíanef. Hér liggur Lambhagagarður þvert yfir tangann. Þá er nokkur norðar Sýlingahella og liggur þar um landamerkjalínan og úr henni Klofavörðusteinn og þaðan í Stórakrók. „

SýlingahellaÞá segir í örnefnalýsingum fyrir Setberg. „Hér vestur af og neðan hraunsins rann Hamarskotslækur. Þar var rafveitustíflan og rafveitutjörnin þar ofan við. Þegar læknum er fylgt um Setbergsengjarnar, mætir hann svo Botnalæk og tekur hann þá þverstefnu og nefnist þá Þverlækur. Þar var Þverlækjarstíflan og Þverlækjarlónið um 1917 til 1930, en fyrr meir voru hér Þverlækjarstiklur og Þverlækjarbrú, sem farið var um, þegar syðri Setbergsstígurinn var farinn til Hafnarfjarðar.
Hraunið vestur af Setbergsholti heitir Stekkjarhraun. Milli hraunsins og holtsins rennur lítill lækur úr suðri, Lækjarbotnalækur. Við engjarnar, sem voru neðan við túnið, kom LeifarLækjarbotnalækurinn saman við læk, sem kemur úr gagnstæðri átt og á upptök í Urriðakotsvatni, sem er á mörkum Setbergs og Urriðakots. Eftir að lækirnir koma saman rennur lækurinn, sem þeir mynda og þá fær nafnið Þverlækur, vestur í hraunið og til sjávar í Hafnarfirði og hét þar Hamarskotslækur.
Landamerkjalínan mun fyrrum hafa legið með læknum og hér suður fyrir í kletta, sem nefndust Sýlingahella. Héðan lá svo línan suður yfir Stekkjarhraun upp í Markaþúfu á holtinu austan Aldanna og þaðan í Lækjarbotna. Nánar tiltekið lá landamerkjalínan í garðsenda og síðan í fyrrnefnda Sýlingahellu.
Sunnan við suðurtúngarðinn er upp undir holtinu Setbergskot eða Austurkot; þar sér enn rústir eftir [nú horfnar]. En neðan kotsins er Kotamýri. Út á Stekkjarhrauni er Stekkurinn. Í bréfi frá 1670-80 segir, að Hamarskot og Garðar hafi haft þarna stekk. Rétt hjá er vatnsból, nefnist Lambadrykkur. Vestan undir hrauninu eru hvammar tveir. Nefnast þeir Atkeldan nyrðri og Atkeldan syðri, en frá þeim rennur Atkeldnalækur. At til litunar var tekið í þessum stöðum. Botnalækur kemur í Lækjarbotnum.“
Í örnefnaskrám fyrir Setberg er getið um Nónkletta: „Setbergsholt er allt holtið kallað vestan frá hömrunum og austur eða suður um. Upp frá fjárhúsinu var Fjárhúsholt og þar efst á holtinu Nónklettar, en þeir voru eyktamörk frá Urriðakoti.“  Í dag eru Nónklettar einungis „stekkur“ því flestir þeirra hafa verið fjarlægðir og notaðir í garða bæjarbúa líkt og svo margt annað er tilheyra liðinni sögu Hafnarfjarðar, sbr. Hraunaréttinn, sem „hvarf“. Allt hefur það verið athugasemdalaust til þessa dags.
NónklettarÍ raun eru miklu mun fleiri minjar á þessu svæði en skráðar hafa verið. Má þar nefna brúarhleðslur á gömlu leiðum, vatnsveituminjar frá fyrstu tíð rafvæðingar í Firðinum, búsetuminjar frá fyrri öldum og eyktarmörk svo eitthvað sé nefnt. Fátt af þessu hefur verið skráð, en fjölmörgu spillt vegna áhugaleysis – a.m.k. fram til þessa.
Við friðlýsingu Stekkjarhrauns var þess gætt að friðlýsa allt hraunssvæðið, en engar áætlanir hafa verið gerðar að merkja sýnilegar minjar eða merkileg jarðfræðifyrirbæri á svæðinu, áhugasömum bæjarbúum til upplýsingar og fróðleiks.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Setberg.
-Örnefnalýsing fyrir Urriðakot.

 

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – kort.