Lakastígur
Lakastígur liggur frá Hveradölum niður að Lönguhlíð innan við Innbruna Eldborgarhrauns í Þrengslum.
Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: „Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra.
Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar, 303 m.
Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703:
„Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.“
Eldborgir sjást suðvestur af Lakastíg. Það hraun, Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla er miklu mun eldra en kristni á Íslandi. Það átti upptök sín í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg, sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hins vegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gíganir undir Meitlunum tveir; Nyrði- og Syðri-Eldborg. Ofan af gígbarmi Eldborgar sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorkálshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áðurnefnd eldstöð ofan Hveradala.
Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi er átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofan á Þurárhrauni og Eldborgarhrauni, Þess vegan vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitöku-hraunið.
Kristian Kålund (1872-’74), Þorvaldur Thorodssen (1882), Guðmundur Kjartansson (1943), Trausti Einarsson (1951) og Þorleifur Einarsson (1960) töldu allir að hraunin úr Eldborgum í Hveradala-brekkum og Meitlum væru hið svonefnda Kristnitökuhraun.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna, sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson, jarðfræðingur, birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus, og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðsins á nefndum tímamótum, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg ár áður en land byggðist.
Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrfræðinginn 1979 og er frásögn hennar “Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnáms-öskulagið hafi fundist í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristni sögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Að þessu sinni var gengið suður yfir Innribruna neðan Lágaskarðs, skoðuð rétt undir Syðri-Eldborg og önnur í Innribrunatröð, uppgróna vörðuröð austan Stóra-Meitils á Meitilstöglunum og tóft þar á leiðinni uns staðnæmst var við suðurhorn Stóra-Meitils við Þrengslaveg.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.