Lyklafell I

Lyklafell

Frásögn þessi af Lyklafelli og nágrenni birtist í Mbl. árið 1979.
Lyklafell„Fyrrum lá leiðin milli Reykjavíkur og sveitanna fyrir austan fjall, yfir Hellisheiði, um Hellisskarð (Uxaskarð, Öxnaskarð), hjá Kolviðarhóli, meðfram Lyklafelli og niður hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þetta var áður en akvegurinn var lagður um Lækjarbotna, Fossvelli, Sandskeið og Svínahraun að Kolviðarhóli. Það gerðist á síðustu áratugum 19. aldar. Í þetta sinn göngum við eftir þessari gömlu leið, frá Lyklafelli að Elliðakoti. Sjást vörðurnar með reglulegu millibili.
Við skulum fara úr bílnum nokkru fyrir vestan Litlu kaffistofuna, en hún stendur við mót gamla og nýja vegarins yfir Svínahraun. Frá veginum tökum við stefnuna í norður á Lyklafellið, sem blasir við beint framundan, kollótt og meira að ummáli en hæð. Hér er yfir gamalt hraun að fara, með grunnum en skjólgóðum lautum, þar er gott að tylla sér niður og slaka á. Við förum hægt yfir og notum tímann til að skoða umhverfið.

Lyklafell

Með hverju skrefi nálgumst við fellið og sú spurning vaknar hvernig standi á þessu nafni. Menn hafa greint á um það og þekki ég tvær sögur. Sú fyrri segir, að einhverju sinni hafi verið bryti í Skálholti er hét Ólafur. Bar hann alla lykla staðarins á sér, en þeir voru á einni kippu. Honum sinnaðist við ráðskonuna, en þar sem hún kunni nokkuð fyrir sér, tryllti hún Ólaf, svo hann tók á rás og hljóp vestur fyrir Hellisheiði að Lyklafelli með alla lykla staðarins á sér Þar týndi hann kippunni. Hún fannst þar löngu síðar og var fellið svo kennt við lyklana. Þaðan hljóp hann til baka um Jósefsdal og suður úr dalnum um skarð, sem síðar heitir Ólafsskarð. Eftir það linnti hann ekki sprettinum fyrr en austur á Mælifellssandi. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.

Lyklafell

Hin sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat. Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu.
Skófrós

Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.
Við göngum upp á fellið. Áður höfum við gengið yfir farveg Lyklafellsár, sem fellur hér fram í leysingum á vorin, en síðla sumars er hann þurr að öllum jafnaði. Þetta minnir okkur á nauðsyn þess að hafa meðferðis drykkjarföng, því vatn er mjög af skornum skammti hér um slóðir í þurrkatíð.
Af Lyklafelli er gott útsýni yfir nágrennið þótt ekki sé það hátt yfir sjó (281 m) Eftir góða hvíld uppi á fellinu leggjum við aftur af stað í áttina að Elliðakoti. Er gott að hafa raflínuna til viðmiðunar. Við sjáum nokkur vörðubrot, sem vísa leiðina og svo hér og þar gróna götuslóða, sem lítt hafa verið troðnir í hartnær öld.

Klappir

Eftir drjúga göngu stöndum við á brekkubrúninni fyrir ofan Elliðakot, sem hét fyrrum Helliskot. Bærinn stóð í skeifulöguðum hvammi móti vestri í skjóli fyrir austanáttinni. Nú er  hann tóttir einar, því ekki hefur verið búið þar um árabil. Fyrrum var búið hér snotru búi, en mikil örtröð hefur örugglega verið af umferð ferðamanna árið um kring, ekki síst á vetrum þegar ofan af heiðinni komu lítt búnir, örþreyttir og hraktir ferðamenn og leituðu að húsaskjóli.
Hér fæddist Páll Jónsson vegagerðarmaður, sem Jón Helgason rithöfundur hefur gert verðug skil í bók sinni: Orð skulu standa.
Við skulum skreppa heim að þessum gömlu rústum og skoða þær vel, minnug þess, að þeir hnútar, sem traustast eru bundnir láta ávallt undan er tímans tönn tekur að sverfa að þeim. Ekki er þó tími til að dvelja hér lengi. Við göngum götuna niður á veg rétt fyrir austan Gunnarshólma. Þangað látum við sækja okkur eftir rúmlega 5 klst. rólega gönguferð.“
Nú er hægt að aka eftir malarvegi að rótum Lyklafells.

Heimild:
-Mbl. júlí-ágúst 1979.

Lyklafell