Þegar FERLIR fór enn og aftur í sérstaka leitarferð um Blikdalinn fannst enn ein selstaðan, sú efsta í dalnum hingað til.
Áður höfðu átta selstöður verið skráðar beggja vegna í dalnum.
Ætlunin var að rekja selstígana og skoða hvert þeir leiddu. Og þar sem engin selstaða hafði áður fundist ofan við miðjan dalinn var lögð sérstök áhersla á að gaumgæfa hana m.t.t. hugsanlegra minja. Og viti menn (og konur); Í ljós komu nánast jarðlægar leifar af þremur húsum og aflöngum stekk. Veggir voru hlaðnir úr grjóti. Efst var stekkurinn, þá minna hús, líklega eldhús, lítill skáli (5-6 m langur) og loks fjós (10-11 m langt). Enn ofar var hlaðið lítið gerði, hugsanlega kví. Selstaðan var á skjólgóðum stað og greinilega mjög gömul.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín (í 21°C hita og sól).