Gamli-Kirkjuvogur III

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var um Gamla-Kirkjuvog.
Þar, norðan Ósa, má enn sjá bæjarhólinn forna. Á honum mótar fyrir hleðslum. Skammt sunnar eru grónar og sandorpnar hleðslur á tveimur lægri hólum. Vestar sést Svæðiðgreinilega bogadreginn jarðlægur garður og nokkru austar manngerður hóll (dys?), virki eða eftirlitsstaður. Er hann jafnframt ein áhugaverðasta fornleifin á svæðinu. Enn austar eru tóftir við suðaustanverðan Djúpavog (hóll, brunnur og gerði). Enn austar, handan Djúpavogs, eru leifar a.m.k. tveggja selja.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903 um „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“. Þar segir hann m.a. um Gamla-Kirkjuvog og Gamla-Kotvog, sem áttu að hafa verið norðan Ósa en ekki sunnan eins og síðar varð.
„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar.
KaupstaðagatanEr löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.
Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn.
Gamli-Kirkjuvogur - 2Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.
Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«.
Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Gamli-Kirkjuvogur - 3Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270: »En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi. Hér virðist »Djúpivogur « vera bæjarnafn. Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka. Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla.
Gamli-Kirkjuvogur - 4Jarðabók Á. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli. Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor.
— Hannes hét maður, Erlendsson, er var á Stafnesi hjá Guðna sýslumanni Sigurðssyni og fluttist með honum að Kirkjuvogi 1752. Um Hannes er þess getið í riti séra Sigurðar, að hann hafði oft farið i Geirfuglasker á tólfæringi. Þá var skerið sem kýrfóðurvöllur að stærð, og alþakið fugli. Nú er skerið alveg í kafi. Efni þess var móberg, og hefir sjórinn smámsaman máð það burtu.
Gamli-Kirkjuvogur - 5Á dögum Guðna sýslumanns fékkst sáta af heyi þar sem nú heitir Kirkjusker fyrir framan Kotvog. Það er nú þangi vaxið. Þetta sagði séra Sigurði Gróa Hafliðadóttir, merk kona í Kirkjuvogi, en henni hafði sagt Ragnhildur Jónsdóttur, er var ráðskona Guðna sýslumanns á síðustu árum hans. Hún komst á níræðisaldur og var einkarfróð kona. Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland. Nú í seinni tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.“

Gamli-Kirkjuvogur - 6

Í Morgunblaðinu 2001 er frétt undir fyrirsögninni „Sækja um styrk til fornleifarannsókna í gamla Kirkjuvogi“. BYGGÐASAFN Suðurnesja og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar hafa sótt um styrk úr Kristnihátíðarsjóði til að láta gera fornleifarannsóknir á gamla Kirkjuvogi í Höfnum í Reykjanesbæ. Áætlað er að rannsóknirnar hefjist á miðju næsta ári og taki tvö ár.
Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Í skýrslu um fornleifaskráningu á Miðnesheiði sem Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur vann fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, en eyðibýlið er inni á varnarsvæðinu, kemur fram að jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á
sextándu öld. Kirkjuvogur var fluttur suður fyrir Ósa á seinni hluta 16. aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.
Gamli-KotvogurTil aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur gamli Kirkjuvogur en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur. Í skýrslu Ragnheiðar kemur fram að afar áhugavert væri að ráðast í fornleifarannsókn í gamla Kirkjuvogi. Bæjarhóllinn sé óspilltur af nútíma-framkvæmdum. Hóllinn er rúmir 23 metrar á lengd, 10 á breidd og tveggja metra hár þar sem hann er hæstur. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Bæjarhólnum stafar hætta af landbroti eins og fleiri minjum í gamla Kirkjuvogi. Skammt vestur af bæjarhólnum er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti. Norðan við hólinn eru ógreinilegar leifar túngarðs úr grjóti.
Gamli-Kotvogur - 2Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera kirkjugarður. Heimildir herma að mannabein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarð í Kirkjugarði í Höfnum, síðast um aldamótin 1800. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð. Lengra frá er sel, Kirkjuvogssel. Þar eru talsverðar rústir og nokkrar sagnir til um það. Einnig eru heimildir um blóðvöll sem nefnist Beinhóll og fleiri minjar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Suðurnesja, segir að fornleifaskráning Ragnheiðar Traustadóttur staðfesti mikilvægi fornleifarannsóknar í gamla Kirkjuvogi. Hún segir að ef fjármagn fáist verði ráðinn fornleifafræðingur eða stofnun í tvö ár til að annast rannsóknina.
GeirfuglinnHún segir að áhugi sé á að nýta rannsóknina einnig í þágu bæjarfélagsins og íbúa þess. Þannig hafi komið upp hugmyndir um að bjóða nemendum skólanna að fylgjast með rannsókninni, með því að koma í heimsóknir og fá útskýringar sérfræðinga. Einnig mætti hugsanlega nýta rannsóknina við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu sem unnið hefur verið að á Suðurnesjum.“
Hér að framan er greinilega verið að lýsa rústunum við Djúpavog sem Brynjúlfur segir að kunni að hafa verið gamli Kotvogur eða bærinn Djúpivogur.

Geiri

Í Morgunblaðinu 2002 er frétt um uppgröft í Höfnum, „Skáli og útihús frá landnámsöld fundin í Kirkjuvogi í Höfnum – Hugsanlegt að þar sé bær Herjólfs Bárðarsonar fóstbróður Ingólfs“. Þar segir: „FUNDNAR eru minjar sem taldar eru vera frá landnámsöld, skammt frá Kirkjuvogskirkju í Höfnum, að öllum líkindum skáli og útihús. Forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar telur ekki fráleitt að fundinn sé bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stjórnar skráningu fornminja í Reykjanesbæ. Þegar farið var að skoða loftmyndir af Höfnum taldi hann sig strax sjá móta fyrir landnámsskála. Í fyrradag var grafin hola ofan í miðjan skálann og þar fengust vísbendingar um að kenning Bjarna væri rétt þótt frekari rannsóknir eigi eftir að fara fram. Komið var niður á heillegt gólf frá landnámsöld og hleðslu sem talið er að geti verið úr langeldinum. Þarna fannst brot úr brýni og af járnhring, viðarkol og soðsteinar.

Hafnir

Landnámsskáli í Vogi í Höfnum.

Bjarni telur allar líkur á að þarna hafi verið skáli og útihús á landnámsöld. Hann sér móta fyrir 5 öðrum tóttum á svæðinu og garði.
Jón Borgarsson, sem lengi hefur búið skammt frá þessum stað, sagði að nú áttuðu menn sig á því hvað þeir hefðu verið vitlausir að vera ekki búnir að sjá þetta út fyrir löngu. Allt Reykjanesið tilheyrir landnámi Ingólfs Arnarsonar.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, rifjar það upp að Ingólfur hafi gefið vini sínum og fóstbróður, Herjólfi Bárðarsyni, landið milli Vogs og Reykjaness. Hann hafi búið í Vogi sem menn hafi til þessa helst talið að væri gamli Kirkjuvogur, sem er norðan Ósabotna.
Hafnir - skiltiFornleifafundurinn geti bent til þess að Herjólfur hafi byggt bæ sinn þar sem nú eru Hafnir en hann verið fluttur yfir Ósbotna 100 árum síðar. Fyrir liggi að bærinn hafi á 16. öld verið fluttur til baka en Kirkjuvogsbærinn stóð eftir það skammt frá kirkjunni og þá um leið gömlu tóttunum. Sigrún Ásta segir að þetta sé mikilvægur fornleifafundur. Mikilvægt sé að hefja viðamikla rannsókn á staðnum og víðar því Reykjanesið hafi lítið verið rannsakað. Tóttirnar eru inni í miðju byggðahverfinu í Höfnum og þær gætu nýst við uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.“ (Sjá meira HÉR.)

Geirfugladrangur

Um Geirfuglasker (Geirfugladrang) var nýlega fjallað í Fréttablaðinu: „Á þessum degi árið 1972 kom í ljós að Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hafði hrunið eða sokkið í sæ. Dranginn er grunnlínupunktur landhelginnar, vestasti viðmiðunarpunktur og var áður um 10 metra hár. Í dag kemur hann aðeins upp úr sjó á fjöru.
Fréttir af því að Geirfugladrangur hefði horfið bárust seinnipart dagsins en það var mótorbáturinn Venus frá Hafnarfirði sem tilkynnti landhelgisgæslunni um hvarfið. Báturinn hafði verið á veiðum þar nærri, sem dranginn hafði staðið og var hvergi sjáanlegur þegar skipsverjar fóru að svipast um eftir honum. Varðskip á staðnum voru send til að kanna málið. Nokkrar umræður sköpuðust um það hvort reglugerðin um hina þá fyrirhuguðu fimmtíu mílna landhelgislínu yrði að endurskoða og gildandi landhelgi. 

Leifar

Nokkrum dögum eftir hvarfið gaf forstjóri Landhelgisgæslunnar út þá yfirlýsingu að atvikið hefði engin áhrif á landhelgina. Ekki var ljóst hvort hafið hafði sorfið drangann niður eða hvort jarðsig hafði orðið. Í kjölfarið lýstu margir því yfir að merkja þyrfti drangann vel þar sem hann væri orðinn eitt helsta blindsker landsins.“

Þegar gengið var eftir Kaupstaðaleiðinni frá Þórshöfn að Djúpavogi mátti glögglega sjá að hún hafði verið unnin á köflum, en látið hefur nægja að kasta annars staðar úr götunni. Leiðin endar annarsvegar við austanverða Þórshöfn þar sem líklegt er að verslunarhúsin hafi staðið forðum og hins vegar ofan og vestan Djúpavogs.
Leifar-2Frá Gamla-Kirkjuvogi er, auk Kaupstaðaleiðarinnar, önnur gata nær sjónum. Liggur hún yfir að tóftunum fyrrnefndu suðvestan Djúpavogs. Þegar svæðið neðan við Gamla-Kirkjuvog var skoðað af gaumgæfni kom í ljós hringlaga hleðsla við götu er legið hefur austan við suðaustasta rústahólinn. Þar gæti hafa verið brunnur fyrrum.
Varða ofan Gamla-KirkjuvogsÞegar skoðað var allnokkuð upp í heiðina ofan við Gamla-Kirkjuvog kom svolítið sérkennilegt í ljós; fornar hleðslur á klettastöllum, sem víða má sjá þar uppi. Dátar á 20. öld hafa gert sér hreiður víðsvegar í heiðinni, en þessar mannvistarleifar eru miklu mun eldri. A.m.k.fjórar hleðslur eru á þremur stöðum og er ein þeirra gróin að mestu. Þær virðast hafa verið ca. 250×120 cm. Einungis sést neðsta steinröðin, sú er mótað hefur mannvirkið á hverjum stað. Líklegt er að það hafi verið gert úr torfi, en það fokið frá líkt og heiðin öll. Erfitt er að geta sér til um hlutverk þessara leifa. Gömul varða er við tvö þeirra. Þau gætu hafa verið smalaskjól þótt heiðin beri ekki með sér að hafa fóstrað fé.
Brunnur?Stafsnessel, sem er þarna skammt frá, bendir þó til annars. Þau gætu líka hafa verið einhvers konar geymslustaðir eða jafnvel grafir þar sem urðað hefur verið yfir viðkomandi. Þá er ekki ólíklegt að um hafi verið að ræða gerði er ungir yrðlingar hafa verið geymdir í til að laða að fullorðna refi svo auðveldara hafi verið að ná þeim, a.m.k. benda leifar af ævagömlum refagildrum í nágrenninu til þess að svo geti hafa verið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, – Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 41-42.
-Morgunblaðið 5. okt. 2001, bls. 22.
-Morgunblaðið 1. des. 2002, baksíða.
-Fréttablaðið 22. mars. 2010,  bls. 18.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.