Endurgerð Krýsuvíkurkirkja komin á kirkjustæðið
Ný glæsileg Krýsuvíkurkirkja er nú komin á grunn sinn á Krýsuvíkurtorfunni þar sem eins kirkja var upphaflega byggð þar 1957.
Var kirkjan hífð á sinn stað rétt yfir kl. 11 laugardaginn 10. okt. 2020 í blíðskaparveðri og gekk hífingin eins og í sögu. Stóran krana þurfti til að hífa kirkjuna sem er 6,8 tonn að þyngd.
Þegar kirkjan var komin á sinn stað ávarpaði Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju viðstadda og sr. Gunnþór Ingason var með stutta helgistund.
Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum um tíu ára skeið hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.
Kirkjan var síðan flutt með dráttarbifreið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur daginn áður en hún var híft á stæði gömlu kirkjunnar norðan Ræningjahóls.
Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.
Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.
Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.
Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.
Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.
Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.
Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.
Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.
Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju árið 2010 með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.
Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.
Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.
Eftirfarandi helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram við Krýsuvíkurkirkju eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar:
Signing og bæn: „Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags Anda, Amen. Himneski faðir, ver þínu húsi, nýsmíðaðri Krýsuvíkurkirkju í Anda þínum og verndarkrafti í Jésú nafni. Amen.“
Guðspjall: Matt; 5.1-10. Forn ísrk/keltnesk trúarjátning frá 7. öld: Um það bil 670 e. Kr. hóf ísrskur biskup að nafni Tírechán söfnun heimilda og frásagna af heilögum patreki í bók sína Collectanea (samsafn). Þar segir hann frá því að Patrekur hittir fyrir tvær dætur konungsins í Tara (hákonungs Íra) við uppsprettulind. Önnur þeirra spyr Patrek um Guð kristinna manna. Sem svar setur Tírechán fram eftirfarandi trúarskilgreiningu/trúarjátningu fyrir munn Patreks. Ekkert er vitað hvaðan hún er komin en hún ber augljós merki þess að hafa verið viðhöfð í liturgíunni, helgisiðum ískrar kristni: „Guð er Guð allra manna, Guð himins og jarðar, Guð sjávar og fljóta. Guð sólar og tungls. Guð allra himneskra vera. Guð hárra fjalla, Guð lágra dala. Guð er himnum ofar og hann er í himninum og hann er undir himnunum. Himinn, jörð og haf og allt í þeim er honum bústaður. Hann andar á allt og feur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu. Hann tendrar loga sólar, hann glæðir ljós nætur og stjarna. Uppsprettur býr hann til á þurru landi og eyjar í sjó. Og hann lætur stjörnur þjóna æðri ljósum. Hann á sér son sem á sér eilífð með honum og er líkur honum í hverri grein. Og hvorki er snonurinn yngri föðurnum né faðirinn eldri syninum og andi heilagur andar í þeim.
Faðir og Sonur og Heilagur Andi eru óaðskiljanlegir.“ [þýð. Gunnþór Þ. Ingason.]
Bæn: „Himneski faðir. Þökk fyrir nýsmíðaða Krýsuvíkurkirkju og að hún skuli vera komin á sitt helga kirkjustæði í Krýsuvík. Þökk fyrir hve vel hefur tekist að smíða hana og færa hana hingað og koma henni uðð á kirkjuhólinn á sinn rétta stað, þar sem fyrri kirkjur í Krýsuvík hafa löngum staðið. Þökk fyrir alla þá er komu að verkunum sem til þessa hefur leitt, Vinafélagi kirkjunnar sem hefur staðið fyrir þeim verkum, og Iðnskólanna og Tækniskólann, er sáu um kirkjusmíðina meðs ínu góða starfsliði, og aðra að auki sem liðsinnt hafa. Og nú biðjum við þig um að vernda kirkjuna, bægja hættum frá henni, blessa vígslu hennar og vernda og blessa kirkjuna á komanda tíð sem helgað Guðshús, sem verndað er og varðveitt af umhyggju og elsku þinni. Og blessa þú helgihald endurreistrar Krýsuvíkurkirkju og gildi hennar og vægi fyrir kristni og þjóðmenningu hér á landi og kristni í heimi í Jesú nafni. Faðir vor“…
Keltnesk blessu:
Djúpur friður berist þér í bylgjuflæði,
friður í streymandi andblænum,
friður frá jarðarkyrrð,
friður frá skínandi himinsstjörnum,
djúpur friður frá friðarsyninum góða.
Blessun Guðs gefist þér og reynist.
Framangreind athöfn styrkir vantrúaða í þeirri vissu að „Guð“ er í eðli sínu myndlíking. Uppspretta hins eiginlega „guðs“ er að finna í náttúrunni; allt umleikis – frá upphafi lífs til loka þess. Allt líf dafnar og hrærist í henni og hún er óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Krýsuvíkurkirkja verður í framtíðinni tákn staðfestu þess…
Hér má sjá nokkrar myndir af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju s.l. tíu ár sem og flutningi hennar á á gamla kirkjustæðið.
Heimildir m.a.:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/08/krysuvikurkirkju_lyft_a_vorubilspall/ – 08.10.2020.
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/ny-krysuvikurkirkja-komin-i-krysuvik