Stafnes – Básendar – Þórshöfn – Gamli Kirkjuvogur
Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902„. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.
„Stafnes
er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.
Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.
Bátsendar
heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.
Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.
Þórshöfn
heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.
Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.
Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.
Kirkjuvogur
hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“
Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.