Vonin – Minnismerki um drukknaða menn í Grindavík
Í Sjómannadagsblaðinu árið 1978 er fjallað um „Minnisvarða um drukknaða menn frá Grindavík“.
„Í janúar 1952 stofnaði Kvenfélag Grindavíkur „Minningarsjóð drukknaðra manna frá Grindavík“. Tekjur sjóðsins voru ágóði af sölu minningakorta.
Vegna verðbólgunnar varð sjóðurinn aldrei það afl, sem honum hafði verið ætlað að verða, þ. e. að standa undir kostnaði við gerð minnisvarða.
Á 25 ára afmæli sjóðsins, í janúar 1977, var samþykkt á fund í Kvenfélaginu að óska eftir samstarfi við bæjarfélagið og sjómannafélagið um að hrinda málinu í framkvæmd. Fékk málið góðar undirtektir og var skipuð 8 manna undirbúningsnefnd með þátttöku fyrrgreindra aðila og Útvegsbændafélags Grindavíkur, sem óskaði eftir aðild að málinu. Nefndina skipa: Sæunn Kristjánsdóttir, formaður og Ólína Ragnarsdóttir, ritari frá kvenfélaginu; Helga Emilsdóttir, gjaldkeri og Sigurpáll Einarsson frá bæjarstjórn; Kjartan Kristófersson og Haraldur Tómasson frá sjómannafélaginu og Tómas Þorvaldsson og Einar Símonarson frá útvegsbændafélaginu. Kom nefndin saman til fyrsta fundar 31. mars 1977 og hefur síðan unnið að undirbúningi málsins.
Að undangengnum ýmsum athugunum og viðræðum m. a. við ýmsa listamenn var ákveðið að reisa minnisvarða eftir verki Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara og voru 3 tillögumyndir eftir hann sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Var síðan ein þeirra myndi valin sem fyrirmynd varðans, og undirbúningsnefndinni falið hlutverk framkvæmdanefndar.
Samningur við listamanninn var undirritaður 12. desember s.l. og á hann að skila verkinu tilbúnu til afsteypu í brons um áramótin 1978 —79. Fer nú fram athugun á því hvar muni vera hagkvæmast að fá afsteypu af myndinni.
Gerð þessa minnisvarða er nefndarmönnum sem og Grindvíkingum öllum mikið metnaðarmál, en víst er að hún mun kosta mikið fé.
Fyrsta fjáröflun nefndarinnar fór fram í Festi 3. desember s.l. og vill nefndin þakka þeim mörgu sem studdu þetta málefni þá. Margir einstaklingar hafa gefið fé til minningar um látna ástvini. Verkalýðsfélag Grindavíkur gaf 500.000 kr. og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir í Keflavík 300.000 kr. Ýmsir aðrir, félög og einstaklingar, hafa lofað fjárframlögum og þakkar nefndin öllum þessum aðilum höfðinglegar gjafir og góðar undirtektir.“
Á sjómannadaginn 1980 var afhjúpaður minnisvarðinn Von, reistur eftir verki Ragnars Kjartanssonar, myndhöggvara. Minnisvarðinn „Von“ sýnir sjómannsfjölskylduna horfa út á hafið í von um að fjölskyldufaðirinn komist heill í höfn. Á minnisvarðanum stendur ritað: ,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15″
Eftir hörmulegt sjóslys í janúar 1952 þar sem Grindvíkingur GK 39 fórst með fimm manna áhöfn við Hópsnes í ofsaveðri, ákvað Kvenfélag Grindavíkur að stofna sjóð til minningar um drukknaða sjómenn og var tekna aflað með ýmsu móti, m.a. með sölu minningarkorta. Sjómannafélag Grindavíkur, Útvegsmannafélag Grindavíkur og bæjarstjórn komu einnig að undirbúningi og framkvæmd málsins.
Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1978, Minnisvarði um drukknaða menn frá Grindavík, bls. 41.
-Sjómannadagsblað Grindavíkur árið 2000, 20 ár frá afhjúpun minisvarða drukknaðra manna, bls. 29.