Sandgerðisbær – saga og þróun byggðar

Sandgerði 1910

Árið 2018 gerðu Kanon arkitektar „Skýrslu um byggða- og húsakönnun í Sandgerði„:

Sögubrot

Sandgerði

Skýrslan.

Í Landnámu er sagt frá því að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskagann sem og Rosmhvalanesið allt.
Óvíst er hvenær byggð hófst í Sandgerði, en trúlega hefur það verið á fyrstu áratugum búsetu norrænna manna á Suðvesturlandi.
Árið 1886 skildu Miðnesingar sig frá öðrum byggðarkjörnum á nesinu og þá varð til Miðneshreppur sem náði frá Lambarifi við Garðskaga í norðri, meðfram strandlengjunni nánast að Garði og Leiru að austan og allt til Ósabotna við Hafnir að sunnan. Í desember 1990 varð Miðneshreppur svo að bæjarfélagi þegar Sandgerðisbær fékk kaupstaðarréttindi.
Öldum saman var stunduð sjósókn frá Sandgerði á opnum bátum, enda stutt í fengsæl mið. Sandgerði var upphaflega útvegsjörð og með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum þar sem fiskurinn í sjónum var bústofninn. Það er fyrst með tilkomu vélbátaútgerðar sem Sandgerði fer að byggjast upp sem þéttbýlisstaður, en frá þessari mikilvægu verstöð landsins hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð.
SandgerðiÁrið 1901 varð Sandgerðisvík löggiltur verslunarstaður. Um það leyti voru nokkrir bæjarkjarnar á svæðinu, allir álíka stórir. Árið 1907 hófust framkvæmdir við bryggjustúf í Sandgerði á vegum Ísland-Færeyjar félagsins sem og tilraunir með vélbátaútgerð. Má rekja upphaf hafnarframkvæmda í Sandgerði til umsvifa þess félags, en félagið réð Matthías Þórðarson til þess að koma upp útgerðarstöð í Sandgerði.

SandgerðiÁ svonefndum “Hamri” voru reistar miklar byggingar og þar fyrir framan byggð steinbryggja. Matthías fékk lánuð áhöldin sem notuð voru til byggingar steinbryggjunnar í Reykjavík. Verkfæri og efni í steinbryggjuna var flutt til Sandgerðis um áramótin 1907-1908 og timbrið skömmu síðar. Byggð var traust trébryggja á grandanum milli Hamarsins og lands. Guðmundur Einarsson steinsmiður hafði veg og vanda af hleðslu bryggjumannvirkjanna.
Útgerð þessa félags stóð ekki lengi, en mannvirkin sem reist höfðu verið nýttust síðar í útgerð sem aðrir stóðu fyrir.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfesti að Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður verði eitt sveitarfélag 30. apríl 2018.

Umhverfi
Sandgerði
Búsetulandslag er meðfram ströndinni. Staðhættir á Rosmhvalanesi hafa leitt til byggðarmynsturs mótuðu af landbúnaði og útgerð. Byggðin þræðir víkur og voga meðfram ströndinni. Húsnæði var staðsett á hæðardrögum og lágsvæðin ræktuð í skjóli garða.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Þéttbýli Sandgerðisbæjar einkennist af sandfjörum, skerjum og víkum og byggt er út frá bújörðunum sem nú hafa tengst saman, þ.e. Flankastaðir.
Ágangur sjávar hefur löngum valdið miklum usla í Miðneshreppi, eins og víðar á Reykjanesskaga. Dæmi eru um bæi sem hurfu einfaldlega smátt og smátt í sjó af völdum sjávarágangs.
Myndarlega hlaðna garða er víða að finna sem sumir voru t.d. notaðir til skjóls við kálgarða.
Í riti Þorsteins Jósepssonar og Steindórs Steindórssonar, Landið þitt Ísland segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.
Sandgerði
Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil.
SandgerðiMinjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er”… “Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Sandgerði

Gulllág – fiskreitur.

Upp af Lækjamótum og Hólahverfi eru Uppsalir. Suður af Oddstóft er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot… .”
Saltfiskreitir voru víðs vegar um hreppinn, í öllum hverfum hans. Einn af þekktari reitunum var Gulllágin.
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er sagt frá því að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”

Í annarri örnefnalýsingu segir: “Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Á þessum hól eru rústir.
SandgerðiÍ örnefnalýsingu fyrir Sandgerði er m.a. getið um kotin Krókskot, Landakot og Tjarnarkot. Nálægð við sjó, tjarnir og mólendi gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika. Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá tré í húsagörðum.

Þróun byggðar
SandgerðiUpphaf þorpsmyndunar í Sandgerði er rakið til ársins 1914 er Akurnesingarnir Haraldur Böðvarsson, Þórður Ásmundsson og Loftur Loftsson hófu útgerð þaðan. Á vetrarvertíð 1916 er talið að um eða yfir 40 bátar hafi stundað róðra frá Sandgerði á þeirra vegum. Stóð þessi útgerð í miklum blóma næstu fimmtán árin og með aukinni útgerð óx byggð í Sandgerði umfram aðra staði í sveitarfélaginu.
Árið 1915 voru umsvif útgerðar Haraldar Böðvarssonar orðin það mikil að hann taldi sig þurfa að útvega íbúðarhúsnæði á vertíð fyrir á annað hundrað sjómanna. Til viðbótar þessu var fjöldi starfsfólks í landi. Hann réðst því í húsbyggingar auk bryggjuframkvæmda og byggingu rafstöðvar í Sandgerði ásamt Lofti Lofssyni og var hún opnuð árið 1918. Rafstöðin, sem lýsti upp hús þeirra félaga, mun vera ein sú fyrsta sem byggð var á Suðurnesjum.
Sandgerði
Þegar þeir Loftur og Haraldur keyptu jörðina Sandgerði árið 1916, voru þeir fyrst og fremst að tryggja sér aðstöðu fyrir útgerð, fiskvinnslu og verslun.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Á þriðja áratug 20. aldar dróst útgerð Akurnesinganna mikið saman. Árið 1941 hætti Haraldur Böðvarsson rekstri í Sandgerði og seldi þeim félögum Sveini og Ólafi Jónssyni fyrirtæki sitt. Stofnuðu þeir hlutafélagið Miðnes. Allt fram til ársins 1946 var notast við bryggjurnar tvær sem byggðar voru snemma á 20. öld. Þá keypti Miðneshreppur bryggjurnar og voru þær endurbættar og stækkaðar. Árið 1974 var hafist handa við að loka höfninni fyrir úthafsöldu, með grjótgörðum og hafa stöðugar hafnarbætur átt sér stað síðustu áratugina.

Sandgerði

Húsnæðismál í Sandgerði báru þess ótvírætt vitni fram eftir 20. öld að þar var bær í hraðri uppbyggingu. Vandi var við að hýsa fjölda aðkomufólks sem kom á vertíð og margir úr þeim hópi settust að í Sandgerði. Byggingarfélag verkamanna í Sandgerði var stofnað árið 1947 og árið 1950 fékk félagið lóðir undir íbúðahús í Hjarðarholtstúninu. Gatan þar sem húsin voru reist fékk nafnið Túngata.

Um bæinn Sandgerði segir í sömu lýsingu: “Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis.
Sandgerði
Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 19. aldar var byggt tiltölulega stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanu.

Sandgerði

Frá Sandgerði fyrrum.

Seint á fjórða áratug 20. aldar urðu mikil umskipti á aðstöðu til skólahalds í Miðneshreppi. Á árunum 1937 – 1938 var reist nýtt og myndarlegt skólahús í Sandgerði. Skólahúsið hefur verið stækkað nokkuð oft.
Kynding húsa var með mismunandi sniði í hinum ýmsu hverfum Miðneshrepps í upphafi 20. aldar. Mest fór það eftir því hvaða eldsneyti var nærtækt á hverjum stað. Kol voru mikilvæg til kyndingar um miðja 20. öld og var kolakynding ríkjandi fram yfir 1960. Kolageymslur voru við hvert hús í bænum. Þegar uppbygging þéttbýliskjarnans í Sandgerði var orðin skipulegri fjölgaði þeim húsum verulega sem höfðu olíukyndingu. Nýir orkugjafar til húshitunar komu svo til sögunnar þegar Hitaveita Suðurnesja hóf starfsemi sína.

Sandgerði

Sandgerði – vitinn.

Vitinn við Sandgerðishöfn var hækkaður um miðjan fimmta áratug 20. aldar, um tíu metra, í þá hæð sem hann er nú, sem er nítján metrar. Þegar byggðin stækkaði og lýsing húsa varð algengari fór lýsingin að trufla vitaljósið. Fyrir tilstuðlan sjómanna, sem skoruðu á Vitamálastofnun að hækka vitann, var það gert og lokið við hækkun í ársbyrjun 1946.
Ein fyrsta umsvifamikla gatnagerðin í Sandgerði var gatan sem lá um Sandgerðistún og lögð var sumarið 1943. Lagning götunnar þótti það mikill þrældómur að hún fekk nafnið “Burma – braut” eftir þrælavinnu breskra hermanna í Burma á stríðsárunum. Nú eru þetta göturnar Brekkustígur og Tjarnargata sem eru innan könnunarsvæðisins.
SandgerðiÍ núgildandi aðalskipulagi segir: “Þéttbýlið í Sandgerðisbæ hefur þróast upp af höfninni og markast nú af bænum Sandgerði í norðri og Býjarskeri í suðri.
Elsta byggðin í þéttbýlinu er frá 19. öld og í norðurhluta þéttbýlisins milli Brekkustígs og Austurgötu eru gömul hús sem mynda þar heildstæða götumynd sem vert er að vernda og styrkja.
Strandgatan er helsta umferðar- og athafnagata bæjarins og við hana norðanverða er miðsvæðið Varðan, sem hýsir bæjarskrifstofur og ýmiss konar þjónustu og almenningsgarð. Þar sem Strandgatan mætir Vitatorgi er nú þegar komin starfsemi sem snýr að ferðaþjónustu, s.s. listagallerí og veitingastaður.
Ný byggð hefur risið til austurs s.l. fjóra áratugi í Lækjamótum og Hólahverfi, sem enn er í byggingu”.

Heimild:
-Sandgerðisbær – byggða- og húsakönnun, Kanon arkitektar 2018.

Sandgerði

Sandgerði – byggða og húsakönnun.