Elliðakot – elliheimili og fornar leiðir

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um „Elliðakot„.

Elliðakot

Elliðakot.

„Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni.

Rauðavatn

Rauðavatn.

Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.“

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason.

„Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin.

Ferja

Ferja á Þjórsá um 1900.

Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum.

Sporhella

Sporhellan.

Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði“ hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því „byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.“

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

„Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.