Óli Skans
Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2013 fjallar Guðfinna Ragnarsdóttir m.a. um „Óla Skans„.
„Óli Skans, Óli Skans
ógnar vesalingur Vala hans, Vala hans
Veit nú hvað hún syngur…
Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala konan hans.„
Allir kannast við þessar ljóðlínur. En hver var hann þessi Óli Skans?
Fullu nafni hét hann Ólafur Eyjólfsson og var sonur hjónanna Eyjólfs Jónssonar (1794-1861) og Málfríðar Ólafsdóttur (1804-1875) en þau bjuggu á Skansinum á Álftanesi. Ólafur var fæddur 26. nóvember 1842 og lést 11. júní 1914.
Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum. Þar var einnig lendingin frá Bessastöðum. Skansinn var gamalt virki, kringlóttur, upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum „og til skamms tíma voru kúlur úr byssum þessum uppi á lofti í Bessastaðakirkju“ segir í bókinni Sjósókn – Endurminningar Erlends Björnssonar Breiðabólsstöðum. Endurminningarnar voru skráðar af Jóni Thorarensen og gefnar út í Reykjavík 1945.
Á Skansinum, segir Erlendur enn fremur, var lítil torfbaðstofa með þili á suðurgafli. Túnbleðillinn fóðraði eina kú.
Niðursetningur að norðan
Málfríður Ólafsdóttir, móðir Óla Skans, var ættuð að norðan. Hún er sögð niðursetningur á Litla-Vatnsskarði Holtastaðasókn í Húnavatnssýslu árið 1816. Hún fermdist 1819 frá sama stað. 1835 er hún komin suður og er þá á Hvaleyri í Garðasókn í Gullbringusýslu. Í Mt. 1845 er hún húsfreyja á Skansinum við Bessastaði og 1860 er hún sögð sjómannsfrú á sama stað.
Eyjólfur, faðir Óla Skans, er sagður fósturpiltur í Káraneskoti í Meðalfellssókn í Kjós í Mt. 1801, hann er léttadrengur á Reynivöllum í Reynivallasókn í Kjós árið 1816 og tómthúsmaður og veiðimaður á Hvaleyri í Garðasókn 1835 og sjómaður á Skansinum við Bessastaði 1860.
Lífsglaður
Í endurminningum sínum lýsir Erlendur Ólafi þannig: „Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja, en vísan er svona:
„Óli Skans, Óli Skans,
er nú hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum
Fía vill ei orna´honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.“
Ekki stemmir þessi gamla vísa við þá romsu sem við syngjum og ekki er gott að vita hver þessi Fía er sem ekki vill orna honum um kinnarnar. Eftir því sem ég best fæ séð átti Ólafur aðeins eitt barn, og ekki var móðir þess nein „Fía“. Og Vala kemur heldur hvergi við sögu.“
Málfríður Ólína
Barnsmóðir Ólafs var Ragnheiður Illugadóttir var fædd 1855. Ragnheiður var langömmusystir mín. Hún lést 62 ára gömul, árið 1917, og hvílir í merktu leiði í Garðakirkjugarði á Álftanesi. Í Íslendingabók er hún er sögð lausakona og bústýra, lengst af í Hafnarfirði. Hún var ein fjögurra systra frá Skógtjörn á Álftanesi.
Foreldrar hennar voru Illugi Árnason (1806-1865) og Halldóra Gamalíelsdóttir (1820-1894). Þau bjuggu á Skógtjörn og Svalbarða á Álftanesi.
Dóttir Ólafs og Ragnheiðar fékk nafn föðurömmu sinnar og föður og var skírð Málfríður Ólína Lára. Hún var fædd 2. nóvember 1877 í Lásakoti á Álftanesi. Þegar hún fæðist eru báðir foreldrar Óla Skans látin og sömuleiðis Illugi faðir Ragnheiðar. Aðeins móðuramman Halldóra er á lífi, en hún virðist hvergi koma hér við sögu.
Hjá pabba sínum
Þau Ólafur og Ragnheiður hafa ekki átt mörg ár saman, því í mt 1880, þegar Málfríður Ólína litla er aðeins tveggja ára, er hún á framfæri föður síns sem þá er í Hlíð á Álftanesi. Ragnheiður virðist fljótt hafa leitað á önnur mið og 14. júlí 1881, þegar Málfríður Ólína er á fjórða árinu, á hún soninn Níels Níelsson með dönskum sjómanni. Sá sonur dó erlendis, úr spönsku veikinni, árið 1918. Síðan virðist hún hefja sambúð með Sigurði Ólafssyni, húsmanni í Hafnarfirði. 1884 og 1886 eiga þau Ragnheiður og Sigurður svo dæturnar Jóhönnu, sem dó strax, og Halldóru. Í mt. 1890 er Ólína 12 ára og er þá til heimilis í Hraunprýði í Garðasókn, hjá móður sinni, 30 ára, og Sigurði sambýlismanni hennar, 50 ára, ásamt Halldóru, sem þá er 4 ára og Níelsi sem er 9 ára. Halldóra flutti til Noregs, var tvígift og átti amk 10 börn.
Hvenær sambúð þeirra Ragnheiðar og Sigurðar lauk veit ég ekki, en 1895 á Ragnheiður dótturina Júlíönu Guðmundínu með Guðmundi Jónssyni, ættuðum úr Borgarfirði. Júlíana var húsfreyja á Litlu-Strönd í Rangárvallasýslu. Hún lést 1945 aðeins fimmtug að aldri. Hún mun hafa átt tvo syni. [Saga þeirra sona kann að vera áhugaverð].
Liðlegur sjómaður
Um Ólaf kvað faðir skrásetjarans, Erlendur, efirfarandi vísu:
„Eyjólfs greiða kund við kjörum,
kola og seiðum fargar sá.
Ólafur skeiðar Skans úr vörum
skeljungs breiðan völlinn á.“
Og Erlendur heldur áfram: „Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann.“
Holdsveiki
Af einkabarni Ólafs, Málfríði Ólínu, er það að segja að hún flutti til Reykjavíkur 1895 og giftist þar árið 1900 Jóhannesi Kristjánssyni, sem ættaður var úr Borgarfirði.
Í mt 1901 býr hún á Smiðjustíg 4 í Reykjavík, ásamt Jóhannesi manni sínum, og eins árs barni þeirra. Í fyllingu tímans eignuðust þau Ólína og Jóhannes sjö börn og er stór ættbogi frá þeim kominn.
Af Ólafi er það að segja að í mt 1890, þegar Málfríður Ólína er hjá móður sinni, stjúpa og hálfsystkinum í Hraunprýði, er hann vinnumaður í Landakoti á Álftanesi. En einhvern tíma á næsta áratug veikist hann af holdsveiki og flytur til Reykjavíkur 1898. 1901 er hann skráður sjúklingur á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi. Þar er hann enn í mat 1910 og þar kveður hann þetta jarðlíf 11. júní 1914. Þá hafði Málfríður Ólína, einkadóttir hans, nýlega eignast sitt sjöunda og síðasta barn. Málfríður Ólína lést 77 ára gömul 29. maí 1954.
Hvort hann Óli Skans, þessi fyrrum káti, fjörugi og lífsglaði maður, sem holdsveikin lék svo grátt, leit barnabörnin sín nokkurn tíma augum, fer engum sögum. Hann er orðinn veikur maður þegar það elsta fæðist og umgengnin við holdsveika var í algjöru lágmarki.
En trúlega munum við öll, eftir þennan lestur, skyld sem óskyld, minnast hans og örlaga hans, þegar við tökum sporið, dönsum og syngjum hástöfum Óli Skans, Óli Skans…“.
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins; Óli Skans, Guðfinna Ragnardóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 14-15.