Merkar minjar í Grindavík mikilvægar?

Grindavík

Í Bæjarbót – óháðu fréttablaði í Grindavík, var m.a. fjallað um umhverfismál árið 1991.

Grindavík

Grindavík.

Umhverfismál í brennidepli – Mjög mikill áhugi á skógræktinni – nokkur þúsund plöntur gróðursettar í Selskógi í fyrra!
Fróðlegt er að lesa eftirfarandi í ljósi þess að orðum virðast ekki hafa fylgt gerðum – líkt og svo oft þegar dægurstjórnmálaflokkar eru annars vegar.

„Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru Náttúruverndarnefnd og Fegrunanefnd sameinaðar í eina, Umhverfisnefnd. Mun sú nefnd reyna eins og tök eru á að halda þeim störfum áfram sem forverar hennar hófu. Áfram verður fylgst með umgengni innan bæjar og utan og reynt að hindra náttúruspjöll. Þá verða veittar viðurkenningar fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi fyrirtækja.
Nefndin tekur öllum ábendingum með þökkum.

Hafnarsvæðið
Grindavík
Höfnin og hafnarsvæðið hefur um langan aldur verið miðpunktur og hjarta Grindavíkur og verður trúlega lengi enn. Fátt er því mikilvægara en að þar ríki fyllsta hreinlæti og snyrtimennska, tákn þess að þar séu meðhöndluð matvæli. Ferðamenn, innlendir og eriendir, eru næstum daglegir gestir við höfnina og í þeirra hópi áreiðanlega bæði fiskkaupendur og neytendur. Því miður má allvíða á hafnarbakkanum sjá rusl og drasl, sem ekki á þar heima. Opnir sorpgámar eru síst til prýði og feykir vindurinn innihaldi þeirra iðulega um nágrennið. Setja þarf upp lokaða gáma fyrir smærra sorp og léttara og sjá til þess að allir gámar séu losaðir nægilega oft.
Ekki er heldur til fyrirmyndar að skólp skuli renna í höfnina, en lausn á þeim vanda er tæpast í augsýn, enda er dýrt að leggja allar lagnir út fyrir varnargarðinn.

„Fjaran mín“

Grindavík

Fjaran við Grindavík.

Nú á vordögum verður verkefnið „Fjaran mín“ endurvakið og er fólk eindregið hvatt til að veita því brautargengi með því að velja sér fjörurein til að fylgjast með.
Upplýsingar og eyðublöð er hægt að fá á bókasafninu. Kerfisbundnar upplýsingar um ástand fjörunnar, lífríki og mengun eru mikilvægar til ákvörðunar um leiðir til úrbóta og verndunar. Einnig eru sjómenn hvattir til að koma með allt sorp að landi í stað þess að láta það fara í sjóinn. Á mörgum bátum er þetta í góðu lagi, en víða má betur gera. Sjórinn er nú einu sinni matarkistan okkar og í hana hendum við ekki sorpi.

Skógrækt

Selskógur

Í Selskógi.

Á liðnu ári voru gróðursettar nokkur þúsund trjáplöntur í Selskógi og suðurhlíðum Þorbjarnar. Voru þar að verki bæði félagasamtök og einstaklingar. Var greinilega mikill áhugi meðal þátttakenda að þessu starfi verði haldið áfram og eru nú allar horfur á að svo geti orðið. Er því full ástæða til að Skógræktarfélag Grindavíkur, sem verið hefur heldur atkvæðalítið sem slíkt, taki nú á sig rögg og nýti þennan áhuga almennings til frekara átaks. Margt hefur breyst síðan félagið var stofnað í litlu sjávarþorpi og því þarf að aðlaga félagið öðrum aðstæðum. Í dag er einnig vitað mun meira um skógrækt en þá, um plöntuval og aðferðir og því meiri líkur á góðum árangri. Næg eru verkefnin.

Sögulegar minjar

Strýthólahraun

Sögulegar minjar við Grindavík.

Mjög víða í landi Grindavíkur, svo og víðar á Suðurnesjum, eru sögulegar minjar sem vitna um atvinnuhætti liðinna tíma. Má þar nefna seljarústir víðs vegar inn til landsins og minjar um útræði og fiskverkun við sjóinn. Saga þessara staða er að falla í gleymsku og því síðustu forvöð að skrá þá vitneskju sem enn er að finna, ljósmynda staðina og merkja inn á kort. Þá þyrfti að friðlýsa merkustu minjarnar í samráði við þjóðminjavörð. Á síðasta aðalfundi SSS mun hafa verið gerð samþykkt í þessa veru, en fylgja þarf málinu eftir hér heima.

Hreinsunarátak

Grindavík

Grindavík.

Fyrirhuguð er hreinsunarátak helgina 25.-26. maí næstkomandi. Ætlunin er að þetta átak verði á öllum Suðumesjunum þessa helgi. Er fólk hvatt til að hreinsa til á lóðum sínum og annars staðar þar sem rusl er. Allt rusl verður svo fjarlægt af bæjarstarfsmönnum.
Fólk getur fengið plastpoka hjá bænum undir ruslið.
Verum samtaka í þessu hreinsunarátaki og gerum bæinn okkar fallegri og snyrtilegri.“ – Umhverfisnefnd Grindavíkur; Guðrún Sigurðardóttir, Haukur Guðjónsson, Ólafur Guðbjartsson.

Heimild:
-Bæjarbót – óháð fréttablað í Grindavík, Umhverfismál í brennidepli, 5 tbl. 01.05.1991. bls. 2.
Bæjarbót