Vitavarsla og dulræn fyrirbæri

Óskar Aðalsteinsson

Gísli Sigurðsson ræðir við hjónin Hönnu Jóhannsdóttur vitavörð og Óskar Aðalstein fyrrum vitavörð á Horni og í Galtarvita um ýmis fyrir bæri þessa heims og annars. Viðtalið átti sér stað þegar Hanna var vitavörður í Reykjanesvita. Hér birtist hluti þess:

Hanna Johannsdottir-1„Ætlar ekki telpan að koma með ykkur inn?“
„Hvaða telpa“, spurði ég forviða.
„Telpan, sem er með ykkur í bílnum“, og Óskar Aðalsteinn bendir á mannlausan bílinn.
„Það er engin telpa með okkur“, áréttaði ég; „hún er að minnsta kosti ekki þessa heims. Hvernig lítur hún út?“
„Hún er með kastaníubrúnt hár og klædd í röndótt pils. Látum það vera; maður sér svo margt og hér við Reykjanesvitann ber ýmislegt fyrir augu. Þetta er eins á torgi lífsins. Stundum allt fullt af fólki. Og fegurðin, — allir þessir hreinu litir. Já, eins og á torgi lífsins. Æjá, ég var að vakna, þegar þú bankaðir. Var að skrifa einn kafla í bókina og lagði mig á eftir. Verst að Hanna er ekki heima. Hún rétt skrapp til Grindavíkur og hlýtur að fara að koma. Hún á að taka veðrið eftir smástund og verður hér á mínútunni. Nú skreppur hún í kaupstað, þegar með þarf. Það er einhver munur eða í Galtarvita. Annars kunnum við alltaf vel við okkur þar, enda búin að vera þar í 24 ár“.
Reykjanesviti-221„Og eftir öll þessi ár ertu orðinn vitavörður á Reykjanesi?“
„Nei, konan mín er tekin við. Hanna er vitavörður í Reykjanesvita og ég er bara goskarl hjá henni, enda tími til kominn. Hún er fyrsta konan á Íslandi, sem skipuð er í embætti vitavarðar. Áður var hún búin að vera aðstoðarvitavörður í Galtarvita og þekkti þetta allt vel. Ég er bara að skrifa og held, að ég sé með efni í ágæta bók. Hún kemur út í haust ef guð lofar og Guðmundur Jakobsson. Það er gott að skrifa hérna. Og gott að rölta um hlaðið og sjá útsýnið. Ég tek menn tali og segi þeim frá kríunni. Hún verður eins og voldugt herlið, þegar líða tekur að hausti, — mikill fjaðraþytur, enda langt flug framundan. Já, þetta er eins og leiksvið, — þannig verkar það á mig: Þessi vin hér í auðninni, hóllinn með tígulegum vitanum og heitir víst Bæjarhóll… bíddu annars; við skulum hafa allt á hreinu og fletta þessu upp í bók. Það er allt um þennan stað í Ferðafélagsárbókinni frá 1936.“
Í þeim svifum kom Hanna vitavörður á Skódanum austan úr Grindavík og með henni ungur drengur, sem er til heimilis í vitavarðarhúsinu ásamt með þeim hjónum. Hann kallar þau afa og ömmu, en er raunar kjörsonur eiginkonu sonar þeirra. Hanna tilkynnir um veðrið, ber gestunum kaffi. Allt hennar fas vitnar um festu og örugg tök á hverju verkefni.
Óskar Aðalsteinn: „Nei, hér sé ég, að hann heitir Húshóll. Og vitinn verður 100 ára nú í desember. Kannski verður þá haldin veizla. Reykjanesvitinn var fyrst reistur á Valahnjúk, sem skagar út í sjóinn og sést hér út um gluggann.

Reykjanesviti-223

En eftir snarpar jarðhræringar þótti ekki ráðlegt að hafa hann þar lengur og þá var hann endurreistur á Húshól.“
Hanna er dóttir Jóhanns Loftssonar á Háeyri á Eyrarbakka og áður í Sölkutótt á sama stað. Jóhann var formaður framanaf og átti fyrsta bílinn, sem komst upp Kamba. Óskar Aðalsteinn er aftur á móti frá Ísafirði og hefur þar til nú átt heima á Vestfjörðum. Hann hefur sinnt ritstörfum jafnframt vitavörzlu og hafa alls komið út eftir hann 15 bækur: sú fyrsta 1939.
Óskar Aðalsteinn: „Aðal vitaævintýrið hófst þegar ég gerðist vitavörður í Galtarvita við Súgandafjörð. Sú varðstaða stóð í 24 ár. Við vorum orðin mjög rótgróin þar eins og nærri má geta. Galtarvitinn stendur á allháum sjávarbakka í Keflavík; sá víkurkriki skerst inní hálendið norðan Súgandafjarðar.
Yfir vitann gnæfa fjöllin Göltur og Öskubakur; hamraborgir, þar sem hvert klettabeltið tekur við af öðru frá sjávarmáli Galtarvititil efstu brúna. Líkt og á Horni er Galtarviti með afskekktustu byggðu bólum á landinu. Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður fundin í fjölmenni. En það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem líkja má við bylgjuhreyfingu túngresis á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.
Við Galtarvita er mjög magnað og dulrænt umhverfi; hafi maður þá gáfu að sjá það sem oft er kallað einu nafni huldufólk, er maður aldrei einn. Í nánd við vitann er ein af meiriháttar álfabyggðum á landinu; þar eru Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Og álagablettir eru þar um allt. Sögur af samskiptum manna og huldufólks á þessum stað eru flestar fallnar í gleymsku, en sumar lifa enn; til dæmis sagan um litlu telpuna, sem týndist og var síðan skilað og ekki hægt að sjá á þriðja degi, að neitt hefði fyrir hana komið. Talið var að álfkona hefði lagt ofurást á barnið og hnuplað því, en skilað aftur þegar hún sá hræðsluna og sorgina á bænum. Mér fannst huldufólkið við Galtarvita bæði gott og listrænt. í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit.

Hornbjargsviti

Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum. En þar var líka vera af öðrum toga, sem átti eftir að halda tryggð við okkur æði lengi. Á Horni var slangur af verum á sveimi, þar á meðal Breti, sem gekk þar ljósum logum og vildi helzt vera í fjósinu. Ég talaði oft við hann, sem var erfitt, því hann talaði ensku og ég ekki nógu harður af mér í því máli. Ég var alltaf að hvetja hann til að koma sér áfram til æðri heimkynna, en hann var svo jarðbundinn. Hann hefur líklega ekki kunnað sem verst við félagsskapinn við okkur, því hann fluttist með okkur til Galtarvita og einnig þar hélt hann sig í fjósinu. Ég kallaði hann alltaf Gumma og hann var eins og einn af heimilisfólkinu. Stundum stóð hann við bæjardyrnar og þá sagði ég: „Farðu nú frá Gummi minn, — mér leiðist að ganga í gegnum þig. Ég verð alltaf svo þungur af því. Þú ert svo baneitraður“. Gummi var bezta grey. Lengi vel talaði hann bara ensku.

Reykjanesviti-330

En eftir rúm tuttugu ár var hann töluvert farinn að tala íslenzku og tók framförum. Einu sinni var ég að koma einsamall á báti frá Súgandafirði, þegar vélin bilaði og ég utanvið mig eins og vant er og hafði gleymt að taka árar með. En þá er Gummi allt í einu kominn um borð og knýr bátinn áfram á fullum hraða með fótunum. Hann virtist vita á undan okkur, þegar það skref var tekið að flytja frá Galtarvita og var mjög óánægður, þegar við fórum. Ennþá hefur hann ekki sést hér við Reykjanesvita.
„En eru ekki huldubyggðir hér við Reykjanesvita?“
„Ég hef séð huldufólk hér nærri, en lítið náð sambandi við það, nema einn ungan mann.
Það er truflandi hér, einkum austur undir Grindavík, hvað mikið er um svipi látinna manna. Nokkru áður en við fluttumst að Reykjanesvita, átti ég Reykjanes-brim-2leið hingað frá Grindavík. Veður var vont; rigning og dimmviðri. Þá sá ég einhverja furðulegustu sýn, sem fyrir mín augu hefur borið: Öldur bárust á land, brimöldur og í þeim fjöldi manns, sem barst uppí sjávarlokin. Þessir menn engdust og fórnuðu höndum, — þó var sem þeir væru gagnsæir. Þeir gáfu frá sér lág, en gífurlega sterk hljóð. Ég er ýmsu vanur af þessu tagi, en þarna fylltist ég óhugnaði og varð smeykur. Síðar hef ég oft farið í allskonar veðri til Grindavíkur og alltaf orðið var við eitthvað.
Hér í íbúðarhúsinu hef ég orðið var við karl og konu, sem ganga í gegn annað slagið, en tala ekki við mig. Helzt vildi ég að þau hyrfu og að við gætum fengið að vera hér útaf fyrir okkur. Um það vil ég ekki segja annað í bili.
En hér í kring er allt kvikt og fullt af ljósum, þegar rökkva tekur og það er bara til ánægju. Það eru lituð ljós, oft blá eða ljósgræn og öðruvísi en okkar ljós„.
„En álfar?“
„Ég veit ekki, hvort maður á að kalla það álfa. Líklega hef ég ekki komizt í kynni við þessa blómálfa, sem sumir hafa séð. Aftur á móti sé ég smáfólk, mjög elskulegt og óvíða meira um það en einmitt hér við Reykjanesvitann. Ég veit ekki hvort það er huldufólk. Maður sér það í nánd við uppsprettulindir og eftir að rökkva tekur eru oft heilir skarar að leikjum í nánd við hverina, — það dansar og skemmtir sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem er sérstakt við umhverfi Reykjanesvitans.

Reykjanesviti-332

Ég fer varla svo út í ljósaskiptunum, að ég sjái ekki heilu hringdansana: Karlmenn í grænum, rauðum og bláum kirtlum, en kvenfólkið hvítklætt og með slæður. Þetta er mjög fallegt fólk; aðeins smærra en við. Stundum koma hingað heilar fylkingar, sem virðast ná allt upp til fjallanna innar á skaganum. Einn og einn hefur komið til mín án þess að tala til mín. En þeir vita af mér og þeir vita, að ég sé til þeirra. Smáfólkið aftur á móti; það er öðruvísi og við suma þar hef ég talað. Það er tvennskonar, sumt saklaust og elskulegt og virðist lifa áhyggjutaust frá degi til dags. En svo eru þeir, sem sitja löngum hjá villtum blómum og lifa mikið í hugsuninni. Þeir hafa hvatt mig til að skrifa bókina þá arna, sem nú er í smíðum. Þetta er gott fólk og enginn ótugtarskapur er þar á ferðinni. Og það vil ég segja þeim, sem ekki sjá og efast eðlilega, að þeir hefðu gott af návistum
við þetta fólk aungvu síður. Það gerir maður með því að hverfa til svona staða úti í náttúrunni og setjast niður. Fyrst kemur smáfólkið og kannar stemmninguna, en svo koma aðrir stærri og gefa manni styrk.
Sumt huldufólk hefur þá gáfu til að bera, að það skapar eitthvað úr engu og lætur það eyðast jafnóðum. Sumir skrifa til að mynda með fingrinum út í loftið og þá verða til myndir í litum, en eru við lýði í skamma stund og leysast þá upp. Á sama hátt virðast þeir geta skapað sér hús, sem aðeins standa um stundarsakir.

Reykjanesviti-334

Einstaka sinnum hef ég upplifað það fyrirbæri að fara sálförum, sem kallað er og þó nokkrir hafa reynt og skýrt frá. Það er afar einkennileg reynsla. Hjá mér hafa þetta verið minni háttar sálfarir að ég held, utan einu sinni, að ég brá mér á kreik svo um munaði. Þá fann ég vel eins og fleiri hafa lýst, hvernig ég losnaði við líkamann og gat horft á hann úr fjarlægð. Síðan hvarf ég á brott og kom í borg, sem ég þekkti ekki og var heldur ekki þessa heims. Hún var alveg ólík þeim borgum, sem við þekkjum, bæði að gerð og efni. Mér þótti sem þar ætti að fara fram ráðstefna og allt í einu var ég kominn á þessa ráðstefnu, sem vann að því að magna upp straum til að bjarga einhverju á jörðinni að ég held. Þarna myndaðist einn vilji; ég hafði vitund þeirra hinna og þeir mína. Á eftir tóku allir í hendina á mér, leifturhratt en þægilega og á eftir leystist borgin upp án þess að hljóð heyrðist. Alltaf hafði ég á tilfinningunni samband við líkamann, en ég varð ekki var við neinn þráð eins og sumir hafa talað um. Um tíma var ég staddur í tómarúmi og var skelkaður og ég minnist þess greinilega, þegar ég fann líkamann aö nýju og smaug inn í hann.“
Hanna: „Þetta átti sér nokkuð oft stað, meðan við bjuggum í Galtarvita, en það ber minna á því hér. Það er næstum því óhugnanlegt að horfa á hann í þessu ástandi. Hann virðist í fyrstu falla í trans eða djúpan svefn, en eftir dálitla stund opnast augun. og þá er hann mjög uppljómaður á svipinn.
Það er þá eins og hann vakni til annars heims og talar þá eitthvað, sReykjanesviti-336em ég skil alls ekki. Þetta ástand varir í fimm til tuttugu mínútur og það er eins og hann haldi í hendina á einhverjum á meðan. Hann virtist alltaf tala við sama fólkið og af lýsingum hans þóttist ég vera farin að þekkja, við hverja hann var að tala. Svo dró allt í einu af honum; hann slappaðist allur og lá eins og dauður maður, ýmist með augun opin eða lokuð. Fyrir kom, að ég hélt hreinlega, að hann væri látinn og fór þá að reyna lífgunartilraunir“.
Óskar Aðalsteinn: „Á eftir man ég yfirleitt vel, hvað hefur gerst. Það er rétt, að ég hitti og ræði við sama fólkið; það er á sjöunda sviði frá jörðu. Sjálfsagt finnst einhverjum það hljóma undarlega. En þarna er unnið að jákvæðum áhrifum og þar er kona, sem mestu ræður. Sjálfur hef ég þegið hjálp, sem þaðan kemur. Á tímabili var ég oft með verk og óþægindi fyrir hjarta, en það var lagað og ég tel mig vita, hvaðan sú hjálp kom.“
Hanna: „Eftir að við fluttum á Reykjanes, hef ég minna orðið vör við þetta fyrirbæri, en þaö átti sér oft stað á árunum, sem við vorum í Galtarvita. Ég skal játa, að ég var talsvert smeyk fyrst, ekki sízt vegna þess að það er ekkert auðhlaupið til læknis úr Galtarvita. Það gegnir öðru máli hér. Sjálf er ég annars eins gersneydd dulrænum hæfileikum og hugsast getur. Ég verð aldrei vör við neitt og er öll í þessu jarðneska. Og satt að segja líkar mér það bezt þannig“.
„Þú hefur haft æfingu í vitavarðarstörfum að vestan og ekki þurft að læra neitt nýtt, þegar hingað kom?“
Gunnuhver-222Hanna: „Frá 1967 var ég aðstoðarvitavörður í Galtarvita og hafði því góða reynslu, þegar hingað kom. Erfiðast er í skammdeginu; maður veit aldrei, hvað fyrir getur komið, ef eitthvað bilar. Vitinn sér að verulegu leyti um sig sjálfur. Í dagsbirtu gefur hann engin merki, en fótósella setur ljósið í gang um leið og skyggir. Bregðist rafmagnið, er dísilstöð til vara.“
„En þarftu að fara ofan að nóttunni til að gá, hvort allt sé með felldu?“
Hanna: „Það er að miinnsta kosti ekki skylda. En ég vakna tvisvar eða þrisvar á nóttu og fylgist þá með ljósinu. Það venst og maður sofnar fljótt aftur. Í Galtarvita vorum við alveg háð vélum. Ljósið í vitanum þar var framleitt með rafmagni frá dísilstöð og lítilli vantsaflsstöð yfir sumarið“.
„Vandistu alveg þessari miklu afskekkt þarna við Galtarvita?“
Hanna: „Þegar illviðri geysuðu þótti mér það dálítið öryggislaust, en reyndin varð sú, að það kom ekki að sök. Við höfum aö verulegu leyti unnið þetta verk saman og allt hefur gengið vel. Stundum er spurt, hvort ekki sé hætta á, að hjón verði leið hvort á öðru í svo mikilli einangrun. En ég tel að svo sé ekki. Sambandið verður mjög náið. Óskar gerði mikið af því aö lesa upphátt fyrir okkur úr bókum. Það var þá skemmtun, sem við upplifðum sameiginlega og svo gátum við rætt efni bókarinnar og gerðum mikið af því.“
Oskar Adalsteinn„Hverjar eru annars daglegar skyldur vitavarðarins?“
Hanna: „Til dæmis það að taka veðrið sex sinnum á sólarhring. Í vitanum verð ég að hreinsa ryk og seltu af gluggum og sjálfri krónunni. Hér er líka radíóviti, sem sendir frá sér mors-merki og ég þarf að fylgjast með honum. Við getum ekki brugðið okkur frá bæði; það er viðleguskylda. Þetta er bindandi ekki síður en að búa með kýr og í rauninni miklu meir.“
Við gengum upp snarbrattan hólinn og síðan upp hringstigann, sem liggur eins og snigill unz komið er að ljósaverkinu. Þar var allt vel málað og hreint og útsýnið fagurt á þessum lognkyrra júlídegi. En þarna er veðravíti eins og gróðurinn sýnir bezt og ólíkt umhorfs í illviðrum og myrkri skammdegisins.
Ég spurði vitavörðinn á leiðinni niður, hvort hún væri ekki smeyk að fara ein upp í vitann í svartamyrkri.
Hanna: „Sem betur fer kemur ekki oft til þess að ég þurfi að fara þangað ein í myrkri. Ég skal játa, að ég mundi ekki fá mér kvöldgöngu þangað að gamni mínu. Tilhugsunin um það þætti mér ekki þægileg, en þegar á ætti að herða, mundi ég fara þangað eins og ekkert væri og ég býst við að reyndin yrði ekki nærri eins vond og tilhugsunin“.
Óskar Aðalsteinn beið eftir okkur á tröppum íbúðarhússins. Það var tekið að kvölda. Ég spurði: „Er dansinn byrjaður við hverina?“ Skáldið strauk augun og gekk austur yfir hlaðið og skyggndi með höndunum, líkt og menn gera þegar þeir horfa á móti sólu. „Það er í það bjartasta ennþá,“ sagði hann. „en dansinn fer að hefjast. Ég finn hreyfinguna. Er þetta ekki stórkostlegt? Og litirnir, svo hreinir, svo bjartir.
Eins og á torgi lífsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 3. sept. 1978, bls. 8-12.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi.