Sjórinn brýtur land á Reykjanesskaganum

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.

Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).

Herdísarvík

Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.

Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ

Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.

Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

Staðarhverfi

Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.

Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.

Básendar

Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.

Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“

Másbúðarhólmi.

Másbúðarhólmi var áður landfastur.

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“

Sandgerði

Sandgerði.

Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.

Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.

Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.

Garður

Garður – kort 1903.

Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.

Leiran

Leiran – loftmynd.

Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
VogarJarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.

Álftanes

Álftanes – kort frá 1796.

Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.

Álftanes

Álftanes 2021.

Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði

Álftanes

Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.

Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.