FERLIR ákvað að gera könnun á aðgengi upplýsinga á Netinu um áhugaverð og aðgengileg útivistarsvæði á Reykjanesskaganum.
Skrifuð voru 111 nöfn á jafn mörgum merkilegheitum á seðla og þeim síðan komið fyrir í skjóðu. Ætlunin var að draga eitt nafn út og skoða það síðan með hliðsjón af umfjöllun helstu miðla, er hafa gefið sig út fyrir slíkt á svæðinu. Bundið var fyrir augu þess, sem átti að draga, honum snúið í hring og síðan leiðbeint í skjóðuna. Örnefnið “Arnarsetur” var letrað á miðann, sem dreginn var.
Við skoðun eftirfarandi vefsíðum var getið um “Arnarsetur”:
1.Ferðamálasamtök Suðurnesja: “Eldvörp rétt austan vegarins til Grindavíkur, suður af Vogastapa. Er yngsta hraunið á því svæði runnið þaðan en eldvarpið sjálft er dyngja. Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar.”
2. Nat.is/travelguide: “Eldvörp rétt austan vegarins til Grindavíkur, suður af Vogastapa. Er yngsta hraunið á því svæði runnið þaðan en eldvarpið sjálft er dyngja. Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar.”
3. Grindavik.is: “Eldvörp rétt austan vegarins til Grindavíkur, suður af Vogastapa. Er yngsta hraunið á því svæði runnið þaðan en eldvarpið sjálft er dyngja. Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar.”
4. Víkurfréttir.is: Alls ekkert um Arnarsetur.
5. Sveitarstjórnarvefir: Ekkert um Arnarsetur.
6. Ferlir.is: Fjallað er um Arnarsetur ánokkrum síðum vefsíðunnar.
Niðurstaðan er sérstaklega áhugaverð, en jafnframt sláandi. Arnarsetur er ein merkilegasta jarðfræðimyndun á nútíma (1226), hún er að mestu óröskuð að gígnum sjálfum undanskildum, auk þess sem í afurðinni; hraunmyndunni, er að finna marga fagra hella og stórkostlegar hraunmyndanir, að mannvistarleifum meðtöldum. Að ekkert skuli t.a.m. vera minnst á Arnarsetur í Víkurfréttum, sem gefur sig út fyrir að vera alhliða miðlun fyrir svæðið, segir sína sögu um áhuga á viðfangsefninu á þeim bænum. Þá verður lítil hlutdeild og mjög takmarkaður áhugi hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja að teljast sérstaklega aumkunarverður.
Þótt Arnarseturs sé getið í 15 umfjöllunum FERLIRs koma auk þess fram upplýsingar um svæðið í 21 stað á vefsíðunni – ef vel er að gáð. Hér verður enn reynt að bæta um betur:
Eftirfarandi fróðleikur um erni má sjá á www.fuglavernd.is (skoðað 17. okt. 2007); “Ernir helga sér óðal (varpsvæði) sem nefnt er arnarsetur og eru á hverju óðali einn eða fleiri varpstaðir. Alls er vitað með vissu um 168 arnarsetur í landinu og eru þau langflest á núverandi varpslóðum arna, sem ná frá sunnanverðum Faxaflóa til Húnaflóa. Líklegt má telja að arnarsetrin hafi verið mun fleiri, því skipuleg söfnun upplýsinga um arnarstofninn hófst ekki fyrr en um 1920 þegar flest setrin voru löngu komin í eyði.
Vitað er með vissu um arnarvarp á rúmlega 100 stöðum á síðustu öld og fram yfir aldamót. Sumir þessara varpstaða fóru í eyði á síðari hluta 19. aldar og ólíklegt er að ernir hafi orpið á öllum setrunum samtímis. Á móti kemur að mörg arnarsetur komust aldrei á spjöld sögunnar. Varlega áætlað hafa því orpið hér a.m.k. 100 pör áður en ofsóknir gegn örnum hófust fyrir alvöru í lok 19. aldar. Pörin gætu þó hafa verið mun fleiri, jafnvel 150.
Þegar ernir voru friðaðir árið 1914 er talið að í landinu hafi verið innan við 40 pör. Fuglunum hélt áfram að fækka fram yfir 1920, þrátt fyrir friðun, og útbreiðslan dróst saman. Stofninn var því aðeins um 25 og síðan 20 pör fram undir 1970, og innan við helmingur þeirra komu upp ungum árlega.
Á vordögum 2003 var vitað um 57 arnarpör í landinu og hafa fuglarnir ekki verið fleiri síðan þeir voru friðaðir. Þrátt fyrir það er einungis þriðjungur þekktra arnarsetra í ábúð og er útbreiðslan takmörkuð við vestanvert landið. Staða arnarstofnsins er því sterkari en um langt skeið.
Enn er þó langt í land að arnarstofninn hafi náð sér eftir þær ofsóknir sem dundu yfir hann á þar síðustu öld. Ef allt væri með felldu ættu pörin að vera 100–200 og dreifð um land allt. Ef stofninn heldur áfram að vaxa með líkum hætti og undanfarin ár mun það taka meira en hálfa öld héðan í frá að ná því marki. En það mun aðeins takast ef friðun arnarins verður virt og búsvæðum ekki raskað frekar.
Þrátt fyrir að ernir hafi ekki orpið á sumum setrum í 100-150 ár eru enn ummerki um dvöl þeirra þar; hvanngresi og blómstóð vegna áburðar um aldaskeið. Á síðustu árum (1994-2003) hefur arnarstofninn vaxið um 15 pör (úr 42 í 57). Oftast nær hafa þessi “nýju” pör” orpið á stöðum þar sem öruggar heimildir eru um arnarvarp áður fyrr; sum þessara setra höfðu verið í eyði í allt að 120 ár er ernir tóku sér þar bólfestu að nýju. Það má því telja líklegt að ernir muni smám saman nema land á sínum gömlu heimaslóðum, svo fremi sem stofninn haldi áfram að dafna og setrunum verði ekki raskað eða þau gerð óbyggileg með átroðningi og mikilli umferð. Það er því afar mikilvægt fyrir framtíð arnarstofnsins að vernda þessi gömlu setur.
Haförninn, sem oftast er kallaður örninn, er stór ránfugl, vænghafið um 220 cm og lengdin frá goggi aftur á stélenda er um 90 cm. Kvenfuglinn er nokkru stærri og þyngri (5–6 kg) en karlfuglinn (4–5 kg). Ernir hafa gular klær, goggurinn er dökkur á ungfuglum en lýsist og verður gulur á kynþroska örnum. Ungir ernir á fyrsta ári eru dökkbrúnir en stél hvítt á fullorðnum örnum. Háls, herðar og höfuð lýsast og verða rjómagul með aldrinum. Latneskt heiti arnarins er Haliaeetus albicilla.
Fullorðnir ernir halda sig að mestu leyti í grennd við varpstöðvarnar. Sums staðar erlendis eru ungir ernir farfuglar eða flakka um. Ernir ferðast þó fremur lítið samanborið við marga aðra fugla og eftir að útbreiðslan dróst saman í kjölfar fækkunar þeirra á síðustu öld, einöngruðust margir arnarstofnar. Ernir á Íslandi og Grænlandi hafa sennilega verið algjörlega einangraðir í mjög langan tíma og ekkert bendir til þess að ernir annars staðar frá flækist þangað.
Alls hafa verið merktir um 238 ernir hér á landi, aðallega stálpaðir ungar í hreiðrum. Þeir tiltölulega fáu fuglar sem hafa endurheimst fundust flestir innan 50 km frá merkingastað en ungir ernir hafa sést um land allt og flakka því víða um.
Í 160 ára gamalli ritgerð eftir Jónas Hallgrímsson segi að örninn verði 100 ára eða meira og geti flogið þrjár þingmannaleiðir á klukkustundinni. Ernir geta að vísu orðið mjög gamlir, það er að segja þeir sem komast yfir erfiðasta hjallann – fyrsta veturinn. Merkingar á örnum erlendis gefa til kynna að sumir þeirra komist á fertugsaldurinn og í dýragörðum hafa ernir lifað fram undir sextugt.
Fram undir aldamótin 1900 var örninn tiltölulega algengur og útbreiddur varpfugl um land allt. Vitað er um 170 arnarsetur, forn og ný, flest við sjávarsíðuna á Vesturlandi en þar er útfiri mest og grunnsævi gjöfult af fugli og fiski. Í dag er útbreiðslan bundin við vestanvert landið: Vestfirði, Breiðafjörð og norðanverðan Faxaflóa.
Yfir 60% af þekktum arnarsetrum eru innan núverandi varpsvæðis arnarins, þar af þriðjungur við Breiðafjörð. Við fjörðinn halda nú til um 66% allra arnarpara á Íslandi. Það er engin tilviljun að höfuðstöðvar arnarins skuli ávallt hafa verið á Vesturlandi og þá aðallega við Breiðafjörð. Örninn lifir að langmestu leyti á fæðu sem hann sækir í fjörur og á grunnsævi. Möguleikar arna til fæðuöflunar eru því nátengdir þessum strandsvæðum og ráðast m.a. af lífríki þeirra og hversu aðgengileg þau eru fyrir örninn árið um kring. Í frosthörkum á veturna nýtast sum svæðin illa vegna ísalaga, sérstaklega innfjarða. Sterk jákvæð fylgni er milli fjölda þekktra arnarsetra í einstökum landshlutum og flatarmáls fjöru.
Því fer fjarri að Breiðafjarðarsvæðið sé fullsetið örnum. En standa mörg gömul arnarsetur auð, til dæmis í Flateyjarhreppi hinum forna. Þar urpu nokkur á síðustu öld og stöku pör hafa reynt þar varp á seinni árum. Sennilega hafa arnarungar ekki komist upp á þessu svæði síðan Flateyjar Framfarastiftun byrjaði að greiða mönnum verðlaun fyrir arnardráp árið 1844.
Áður fyrr voru ernir litnir hornauga vegna barnsrána, lambadráps og tjóns á æðarvarpi. Hin seinni ár hefur svo til eingöngu verið kvartað undan örnum í æðarvörpum. Ágangur og meint tjón af völdum arna á nytjafuglum er svo til óþekkt erlendis og hefur því nær ekkert verið rannsakað þar.
Fjölmargar heimildir skýra frá meintu lambadrápi arna hér á landi fyrr á öldum og fram yfir 1960. Síðan þá hafa fáir borið örnum þetta á brýn og virðist lambadráp arna því vera að mestu úr sögunni. Rannsóknir Agnars Ingólfssonar kringum 1960 leiddu í ljós að ernir gátu aðeins hafa tekið lítinn hluta þeirra lamba sem þeim var kennt um að hafa drepið. Reyndar eru langflestar fullyrðingar um að ernir hafi tekið lifandi lömb byggðar á veikum forsendum; lömb hafa horfið á óskýranlegan hátt, kindur sem jafnan voru tvílembdar hafa nú verið einlembdar; lambshræ hafa fundist við arnarhreiður og ernir hafa sést éta hræ. Lambshræ finnast nú öðru hverju við arnarhreiður hér á landi og af útliti þeirra að dæma eru þau flest af sjálfdauðu. Lambadráp hafarna heyrir því til algerra undantekninga, hér á landi sem annars staðar. Hið sama verður þó ekki sagt um fjarskyldan ættingja: gullörninn; hann er vargur í véum.
Ernir hafa sótt í æðarvörp frá fyrstu tíð og fræg er frásögnin um örninn í Viðey sem tókst ekki að hemja fyrr en heitið var á fulltingi Þorláks helga. Þá gómuðu menn gripfuglinn og förguðu honum. Örn og æður nýta sama kjörlendi til varps og fæðuöflunar og hafa gert alla tíð. Ernir drepa talsvert af æðarfugli sér til matar en mestu munar þó um þann usla sem þeir geta valdið í æðarvörpum.
Fjárhagslegt tjón af völdum arna er þó fremur fátítt og æðarvarp hefur verið í mikilli aukningu við Breiðafjörð á undanförnum árum í mikilvægustu heimkynnum arna og æðarfugls hér á landi. Fyrir kemur að ernir eru taldir valda miklu tjóni og vilja því sumir bændur að ríkið beri skaðann sem hlýst af friðun arnarins. Nær fjörtíu ára gamall Hæstaréttardómur (1966) tók undir þau sjónarmið en ríkisvaldið hefur hins vegar ekki viðurkennt bótaskyldu sína.
Þeirri skoðun virðist vaxa fylgi meðal æðarbænda við norðanverðan Breiðafjörð að koma eigi í veg fyrir arnarvarp í grennd við æðarhlunnindi og því eigi að heimila mönnum að reka erni burt af slíkum svæðum. Um þetta mátti m.a. lesa í blöðum í kjölfar hæstaréttardómsins vorið 2003. Ef slíkt yrði leyft, mætti telja víst að arnarstofninn biði varanlegan skaða af. Tillaga þessa efnis var reyndar flutt á Alþingi árið 1978 af tveimur þingmönnum Vestfjarða, en hún var felld. Ef heimila á mönnum að reka erni burt úr Breiðafjarðareyjum er víst að varp margra arnarpara mun misfarast árum saman og þar með mun draga verulega úr viðkomu arnarins. Slíkt þýðir einungis eitt: hnignun stofnsins og kastað verður á glæ 90 ára þrotlausri baráttu við að koma erninum úr útrýmingarhættu. Þá skýtur þetta skökku við þá vistvænu ímynd sem æðarbændur hafa verið að byggja upp á undanförnum árum og er m.a. forsenda þess að dúnmarkaðir virðast nú vera að opnast að nýju í Bandaríkjunum.
Ekki er nóg að friða erni, egg þeirra og unga ef varpstaðir þeirra eru berskjaldaðir fyrir truflunum, og fuglunum verður meinað að verpa á gamalgrónum varpstöðum.
Fylgst hefur veri ítarlega með arnarstofninum og hann vaktaður um margra áratugaskeið og er vöxtur hans og þróun betur þekkt en hjá nokkurri annarri fuglategund hér á landi. Örninn hefur verið stranglega friðaður í 90 ár og er á válista sem tegund í hættu (EN) vegna lítils stofns (<250 fuglar).
Örnum var útrýmt víða í Evrópu, fyrst með beinum fækkunaraðgerðum, en á síðustu áratugum hefur efnamengun og eyðilegging búsvæða reynst örnum skeinuhætt. Arnarstofnar í Norður-Evrópu eru víðast hvar í örum vexti, m.a. í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Póllandi. Alþjóða fuglaverndarráðið flokkar örninn meðal „sjaldgæfra fugla“ sem vernda þarf sérstaklega en hann er ekki talinn í útrýmingarhættu. Ernir eiga í vök að verjast víða á útbreiðslusvæði sínu og eru því stranglega friðaðir. Nýlega var samþykkt sérstök verndaráætlun um örninn í Evrópu.
Heimild m.a.:
-www.fuglavernd.is/arnarvernd/html/orninn/setur