Búðarvatnsstæðið
Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:
„Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.“
Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
„Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.“
Í skráningu „Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi“, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
„Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”
Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
„Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.“
Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:
„Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.“
Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.
Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.