Helgufoss, Helgusel, Helgustekkur, Helgusker, Helguhóll, Helguvík, Helguklettur

Helgufoss

Í Mosfellingi 2014 segir af „Stofnun fólkvangs í landi Bringna í Mosfellsdal – 18.6 hektarar við Helgufoss„:

„Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri hafa staðfest friðlýsingu fólkvangs á hluta af jörðinni Bringum, efst í Mosfellsdal við Helgufoss.
Helgufoss

Samtals er hið friðlýsta svæði um 18,6 hektarar að stærð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hluta jarðarinnar Bringna til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess sérstakar náttúru- og menningarminjar.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Bringur; uppdráttur ÓSÁ.

Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856 en fór í eyði árið 1966. Jörðin er staðsett norðan Köldukvíslar, en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Í Köldukvísl, rétt við túngarðinn, er Helgufoss. Vestan við fossinn er Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, sem einnig er nefndur Hrafnaklettur.
Samþykkt á 25 ára hátíðarfundi bæjarsjórnarFriðlýsingin/stofnun fólkvangsins er að frumkvæði bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sem samþykkti á hátíðarfundi á 25 ára afmæli bæjarins að stefna að friðun fossa í Mosfellsbæ. Markmiðið er að tryggja vernd mikilvægra náttúru- og söguminja og um leið gott aðgengi almennings til að njóta þeirra. Er þetta í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og þau markmið sem sett eru fram í stefnumótun bæjarins um sjálfbært samfélag þar sem stefnt skal að frekari friðlýsingu svæða og náttúrufyrirbæra í sveitarfélaginu.
Við stofnun þessa fólkvangs eru auk hans í Mosfellsbæ eitt friðlýst náttúruverndarsvæði (Friðland við Varmárósa), fjögur svæði á náttúruminjaskrá (Leiruvogur, Úlfarsá og Blikastaðakró, Varmá og Tröllafoss) og tveir friðlýstir fossar (Tungufoss og Álafoss, sem friðlýstir voru á síðasta ári).
Undirritunin fór fram í Bringum við Helgufoss þriðjudaginn 20. maí og hefur friðlýsingin nú þegar öðlast gildi.“

HelgafellÍ tímaritinu Helgafelli 1942 og 1943 rekur Ólafur Lárusson „Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss“ í tveimur greinum. Hér verður tekið út það er varðar Helgu Bárðardóttir er fyrrnefndur Helgufoss er kenndur við:

„Það er sjaldgæft, að örnefni séu talin til skrauts. En til eru hér á landi örnefni svo tíguleg og fögur, að þau geta talizt til listaverka. Þau bera þess vitni, að þeir, sem gáfu þau, höfðu glöggt auga fyrir fegurð náttúrunnar, hvort sem hún birtist í blíðum yndisþokka eða í mikilfenglegum hrikaleik.

Minningarnar, sem við örnefnin eru tengdar, eru með margvíslegum hætti, sumar fornar og aðrar nýjar, sumar bjartar og aðrar dapurlegar. Sumar þeirra eru ofboð hversdagslegar. Þær lúta að einhverjum þætti í hinum daglegu störfum fólksins á bænum, eins og þau eru nú, eða eins og þau voru áður. Þarna er t. d. Seljadalur. Nafnið minnir á, að þar var haft í seli fyrir langa löngu, fyrir minni allra, sem nú lifa, meðan selfarir tíðkuðust, og hugurinn hverfur aftur til þeirra tíma, og myndum úr lífinu í selinu bregður upp fyrir sjónum hans, af selstúlkunni, er sat þar sumarlangt í einveru og kyrrð og gat þó mætt ótrúlegum og örlagaríkum ævintýrum í nábýli sínu við huldufólk og aðrar dularvættir.
Minningarnar hafa tendrað bál sín hér á landi, bál, sem lýst hafa út í

Bárður Snæfellsás

Bárður Snæfellsás.

myrknættið, og bjarmann af þeim hefur lagt á sálir mannanna og gert líf þeirra fyllra og auðugra. Ótalmargar örnefnasögur eru enn við líði, og sjálfsagt eru þær þó enn fleiri, sem glataðar eru og gleymdar. Margar þessara sagna eru einber skáldskapur. Samband við hið liðna er engin nýjung hér á landi, það sýna fornbókmenntirnar bezt. Þær sýna m.a., að það er langt, síðan örnefnasagnir tóku að ganga manna milli hér á landi. Hefur varla liðið langt frá landnáminu sjálfu, þar til þær urðu til. Þessar sagnir hafa alltaf verið eign alþýðunnar. Það hafa allir tekið meira og minna hlut í þeim fróðleik. En innan um hafa ávallt verið einstöku menn, sem lagt hafa sérstaklega mikla rækt við þessi fræði, hafa lagt á minnið allt, sem þeir heyrðu um þau efni, og haft yndi af öllu slíku, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum sögnum. En því miður hefur mest af fróðleik flestra þeirra farið í gröfina með þeim sjálfum.
Einn slíkur fræðaþuIur var uppi á Snæfellsnesi fyrir sex hundruð árum. Vér kunnum nú eigi að nefna hann með nafni, en hann hefur augljóslega haft mikinn áhuga og ást á sagnafróðleik átthaga sinna, örnefnum, örnefnasögnum og öðrum þjóðsögum. Þessi maður settist við og færði í letur sögu landvættar héraðsins, Bárðar Snæfellsáss. Síðar hélt annar maður sögunni áfram og jók við hana frásögnum af Gesti Bárðarsyni, og þannig hefur hún geymzt til vorra daga. Hin eiginlega Bárðarsaga er 10 fyrstu kapítular sögunnar, eins og hún er nú, og mun hún enn vera óbreytt frá því, sem höfundurinn gekk frá henni, að öllu verulegu.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Bárðarsaga er ofin úr þjóðsögum, sem gengið hafa í munnmælum á utanverðu Snæfellsnesi á dögum höfundarins. Ber þar ekki hvað sízt á örnefnasögum. Í sögunni er fjöldi örnefna, tiltölulega miklu fleiri en í nokkurri annarri sögu. Mörg þeirra nefnir höfundurinn sýnilega eingöngu til þess að geta komið að sögnum um uppruna þeirra. Flest eru örnefnin úr yztu byggðunum, milli Búðahrauns og Ólafsvíkurennis, og mun höfundurinn hafa verið upprunninn á þeim slóðum. Hann hefur í öllu falli verið gagnkunnugur þar. Flest eru örnefni þessi kunn enn í dag. Guðbrandur Vigfússon kom fram með þá undarlegu skoðun, að söguhöfundurinn myndi hafa búið þessi örnefni til, og héraðsbúar síðan tekið þau upp eftir sögunni. Er þetta næsta ólíkleg tilgáta, og hitt miklu sennilegra, að nöfnin séu eldri en sagan, en sagan hefur að líkindum síðar átt sinn þátt í því, að þau varðveittust svo vel sem raun er á.

Helgusel

Helgusel.

Finnur Jónsson segir um Bárðarsögu, að „Indholdet af den er meget ubetydeligt“. Það mál er eins og það er virt. Sagan hefur aldrei verið talin til stórvirkjanna eða snilldarverkanna í íslenzkum bókmenntum, enda á hún það ekki skilið.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss fjær.

Höfundur lætur t. d. Helgu Bárðardóttur fæðast, meðan Haraldur hárfagri er í æsku, flytjast á barnsaldri til Íslands með föður sínum snemma landnámstíðar, hrekjast, fáum árum síðar, til Grænlands og hafa þar þá veturvist með Eiríki rauða. Þó hefur höfundurinn verið nokkuð bókfróður. Hann hefur t. d. haft Landnámu með höndum og notað hana og farizt það laglega. Hann hefur ekki reynt að skyggnast neitt inn í sálarlíf persónanna í sögunni, þar er aðeins að finna nokkur drög til einnar slíkrar mannlýsingar, og þau drög hefur hann sennilega fengið annars staðar að. En sagan er létt rituð og lipurt, þótt hvergi séu nein tilþrif í stíl höfundarins, og mál hans er fornt og gott. En það, sem gefur sögunni gildi, er þó einkum efni hennar. Hún er eins konar þjóðsagnasafn, safn af almúgasögnum, sem gamla fólkið hefur frætt unglingana á í bæjum og verbúðum þessa útskaga snemma á 14. öld, og vér myndum kjósa, og vilja gefa mikið fyrir, að eiga fleiri slík söfn frá þeim tíma og þótt yngri væru.
Í 5. kapítula sögunnar er frá því sagt, er Helga Bárðardóttir var í Grænlandi, að hún stóð úti einn dag og litaðist um og kvað vísu:

Sæl væra ek,
ef sjá mættak
Búrfell ok Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
ok Öndvertnes,

Heiðarkollu
ok Hreggnasa,
Dritvík ok möl
fyrir dyrum fóstra.

Vísan er tilfærð hér, eins og hún er prentuð í útgáfu Guðbrands Vigfússonar af Bárðarsögu (1860).

Viðey

Viðey – örnefni.

Söguhöfundurinn leggur Helgu Bárðardóttur vísu þessa í munn, en það fær varla staðizt, eftir því sem honum að öðru leyti segist frá. Vísa þessi lætur ekki mikið yfir sér. Hún virðist vera lítið annað en upptalning á örnefnum.

Viðey

Viðey.

En í öllum einfaldleik sínum er hún samt perla. Hún angar af heimþrá og hjartahlýju, af ást til átthaganna og bernskuheimilis og snertir strengi í brjósti hvers manns, sem hefur verið slitinn upp frá æskustöðvum sínum og dreymir síðan um þær og þráir þær.
Stúlkan, sem vísuna kvað, — því að vísan er ort af konu, hvort sem hún hefur heitið Helga Bárðardóttir eða öðru nafni, — hefur ef til vill alizt upp í Dritvík, og er það enda líklegast, því að jafnvel leshátturinn „Dritvík ok möl“ bendir nánast til þess. Bernskuheimili hennar hefur þá verið búðsetumannsheimili. Í Dritvík hafa aldrei aðrir búið en búðsetumenn, sem ekki hafa haft annað sér til lífsbjargar en stopulan sjávaraflann. Þeir hafa allar aldir verið fátækir. Skorturinn hefur staðið sífelldlega við dyrustaf þeirra og oftlega þokað sér innfyrir hann, jafnvel alla leið inn á gafl. Samt hefur hún elskað og þráð þetta fátæka æskuheimili sitt og hið hrikalega og óblíða umhverfi þess. Getur það verið íhugunarefni fyrir þá menn, er ætla, að ættjarðar- og átthagaást manna sé undir því komin, hversu mikið er í pyngjunni eða hversu mikilla ytri lífsþæginda menn njóta.

Viðey

Viðey – Helguörnefni.

Í Bárðarsögu eru nafngreindar þrjár dætur Bárðar og fyrri konu hans, Helga, Þórdís og Guðrún. Fluttust þær til Íslands með föður sínum og uxu upp hjá honum á Laugarbrekku og urðu bæði ,,miklar ok ásjáligar“.

Helgusker

Helgusker (Geirshólmi).

Á Arnarstapa bjó Þorkell RauSfeldsson, hálfbróðir Bárðar. Þorkell átti tvo sonu, Sölva og Rauðfeld. Þessi frændsystkin léku sér saman á vetrum á svellunum við Barnaár. Var kapp mikið milli þeirra í leikjunum, og vildu hvorug vægja fyrir hinum.
Eitt sinn lágu hafísar þar við land. Voru þau þá að leik niðri við sjóinn, og sló í kapp með Rauðfeldi Þorkelssyni og Helgu Bárðardóttur. Endaði leikurinn svo, að Rauðfeldur hratt Helgu á sjó út á ísjaka. Þoka var á og vindur hvass af landi, og rak jakann út til hafíssins. Helga komst upp á ísinn, en hina sömu nótt rak ísinn undan landi og á haf út. Rak hann svo ört, að Helga komst innan sjö daga með ísnum alla leið til Grænlands. Grænlendingum þótti hún hafa komið með undarlegu móti „ok fyrir þat var hún tröll kölluð af sumum mönnum“. Hún var kvenna vænst og svo þroskuð, að hún var karlgild að afli til hvers, sem hún tók.

Kollafjörður

Kollafjörður – Helgusker.

Helga fékk vist hjá Eiríki rauða í Brattahlíð, en dvölin þar varð henni örlagarík. Hún hitti þar fyrir íslenzkan mann, Skeggja Bjarnarson frá Reykjum í Miðfirði (Miðfjarðar-Skeggja). Skeggi tók Helgu að sér og hafði við hana fylgjulag. Um veturinn komu tröll og óvættir ofan í Eiríksfjörð. Voru þau þrjú saman, karl og kerling og sonur þeirra. Gerðu þau mönnum margs konar mein, en Skeggja tókst að ráða þau af dögum, og naut hann þá hjálpar Helgu, sem „gaf honum náliga líf“. Næsta sumar fór Skeggi með Helgu til Noregs, og voru þau þar veturlangt, en síðan fór hann heim til Íslands, til bús síns á Reykjum, og Helga með honum. Bárður, faðir hennar, frétti til hennar og kom um haustið norður að Reykjum og sótti hana og hafði heim með sér, enda var Skeggi þá kvæntur.

Kollafjörður

Kollafjörður – kort 1903.

Helga varð aldrei söm eftir þetta. „Engu undi hún sér, síðan er hún skildi við Skeggja; mornaði hún ok þornaði æ síðan“. Hún undi ekki heima og hvarf þaðan á burt. Fór hún víða um landið og festi hvergi yndi, var alls ötaðar með dul og oftast fjarri mönnum og oft í hreysum og hólum. Söguhöfundurinn segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur, „ok miklu víðar eru örnefni við hana kennd um Ísland“. Annars segir sagan aðeins frá einu sérstöku atriði úr lífi hennar á þessum hrakningum. Hún þáði veturvist að Hjalla í Ölfusi hjá þeim feðgum, Þóroddi goða og Skafta lögsögumanni. Var hún þar sem annars staðar með dul og lá í yztu sæng í skála og hafði fortjald fyrir. Hún sló þar hörpu nær allar nætur, því að henni varð ekki svefnsamt. Heimafólkið leiddi getum að, hver kona þessi myndi vera. Austmaður var þar á vist, er Hrafn hét. Hann forvitnaðist eina nótt undir tjaldið og sá, að Helga sat uppi í einum serk, og sýndist honum konan fríð mjög. Vildi hann upp í sængina til hennar, en hún varnaði þess, og tókust þau á, og urðu þær lyktir, að annar fótleggur og annar handleggur austmannsins gengu sundur, en Helga hvarf þaðan litlu síðar.

Ölfus

Hjalli 1898.

Fleira segir höfundur Bárðarsögu oss ekki frá Helgu. En sá, sem jók þætti Gests Bárðarsonar við söguna, leiðir Helgu aftur snöggvast fram á sjónarsviðið. Hann segir frá því, hversu Bárður hefndi dóttur sinnar á Skeggja. Hann kom að Reykjum haustkveld eitt, í dulargervi, og nefndist Gestur. Falaði hann veturvist þar og fékk hana fyrir atbeina Eiðs Skeggjasonar. Um veturinn tældi hann Þórdísi, dóttur Skeggja, fimmtán vetra gamla. Ól hún sveinbarn um haustið eftir í seli föður síns og nefndi drenginn Gest, eftir hinum horfna föður hans. Næsta dag kom ókunnug kona í selið og bauð að taka við sveininum og fóstra hann, og lét Þórdís það eftir.
Tólf árum síðar kom hin sama kona með drenginn til Þórdísar, sagði henni, að hún væri Helga Bárðardóttir Snæfellsáss, og Bárður, faðir sinn, væri einnig faðir drengsins. Hafði Helga alið hann upp, „en víða höfum vit Gestr verit, því at heimili mitt er eigi í einum stað“. Hvarf hún síðan á brott, og er þess eigi geti, að Þórdís sæi hana síðar. Að öðru sinni getur höfundur þáttarins Helgu, er hann telur hana meðal boðsgestanna í tröllaveizlunni miklu, er Hít tröllkona í Hítardal hélt, en ekki er Helgu að öðru neitt getið við þá atburði, er gerðust í veizlu þessari.

Geldinganes

Geldinganes – Helguhóll.

Höfundur Bárðarsögu segir sögu Helgu aðeins í stórum dráttum. Er það sönnun þess, að sú saga er ekki skáldskapur hans sjálfs. Ef hann hefði sjálfur búið sögu þessa til, myndi hann hafa sagt hana miklu nákvæmar og greint fleiri einstaka atburði úr ævi hennar. Hann hefði þá eigi látið sér nægja að segja, að hún hefði „náliga“ gefið Skeggja líf í viðureign hans við tröllin í Eiríksfirði. Hann hefði sagt, með hvaða hætti hún hefði hjálpað honum. Hann myndi hafa sagt frá fleiri atburðum úr ferðum hennar um landið en viðureign hennar við austmanninn á Hjalla einni saman. Hann myndi hafa greint fleiri örnefni, sem við hana væru kennd, en Helguhelli einn, úr því að hann á annað borð fór að geta þess, að örnefni væru við hana kennd víðar um landið en á Snæfellsnesi. Allt bendir til þess, að það, sem sagan segir af Helgu, sé aðeins ágrip af ítarlegri sagnaþætti, sem af henni hefur gengið og höfundurinn hefur þekkt. En einhverra hluta vegna hefur hann annaðhvort ekki talið þörf á að segja þá sögu ítarlegri en hann hefur gert eða ekki talið sér það fært. Vegna þessarar tregðu hans kunnum vér nú ekki meira úr sögunni af Helgu Bárðardóttur en það, sem greinir í hinu stutta ágripi hans, og er hér sem oftar, að vér eigum þá sök á hendur höfundinum að telja, að hann hefur sagt oss færra en hann gat sagt og færra en vér myndum kjósa, að hann hefði sagt.

Helgustekkur

Helgustekkur – loftmynd.

En aðalatriðin úr sögunni af Helgu Bárðardóttur hefur höfundurinn þó sagt og nóg til þess, að vér getum skilið, að sú saga hefur verið nokkuð sérstæð meðal hinna fornu sagna vorra, þeirra, er vér nú kunnum skil á. Saga Helgu er harmsaga konu, er beið tjón á sálu sinni. Hún hafði fengið að njóta alsælu ástar sinnar um stund, en brátt var hún svipt þeirri sælu, og síðan bar hún brostinn streng í sálu sér.

Helgustekkur

Helgustekkur í Grafarvogi.

Tapað hefur seggurinn svinni, sumarlangt gleðinni minni, kvað ókunn skáldkona fyrir löngu síðan. Skeggi tapaði gleði Helgu, ekki sumarlangt, heldur ævilangt. Hún reikaði eirðarlaus stað úr stað, einræn og mannfælin, var með dul, þegar hún var meðal manna, en oftar var hún þó fjarri mönnum, ein með sorg sinni. Þegar harmar hennar bönnuðu henni svefn, lék hún á hörpu sína, tjáði sorg sína og leitaðist við að sefa hana með tónum hörpunnar. Þessi var harmsaga Helgu Bárðardóttur, og er hún þó ekki fullsögð.
Sagan segir ekkert um hug Skeggja til hennar, hvort hann hefur fest ást á henni eða aðeins tekið hana til sín, sér til stundargamans á ferðum sínum erlendis, og hún segir ekkert um það, hvers vegna hann lét hana eina. En það er eins og vér getum lesið á milli línanna, að þessi örlög Helgu hafi verið henni ásköpuð. Þau Skeggi voru hvort af sínum heimi og Helga þó af fleiri heimum en einum. Hún var ekki mennsk nema að nokkru. Dumbur, föðurfaðir hennar var tröllaættar að móðerni, og móðir hennar var dóttir Dofra jötuns úr Dofrafjöllum. Tröllið og maðurinn hafa togazt á í sál hennar. Hin fagra og glæsilega kona, sem knúði hörpu sína í lokrekkjunni á Hjalla, og sumir héldu, eins og síðar verður vikið að, að væri sjálf Guðrún Gjúkadóttir, hin stolta drottning úr heimi hetjukvæðanna, sat líka veizluna hjá Hít tröllkonu, með Jóru úr Jórukleif, Surti af Hellisfitjum, Ámi og Glámi úr Miðfjarðarnesbjörgum og mörgum öðrum tröllum víðsvegar af landinu, svo langt og vítt sem bilið þó var milli Niflunga og bergþursa. Þegar tveir svo ólíkir eðlisþættir mætast í einni mannssál, þá er viðbúið, að það sé fyrirboði harmsögu, og sú varð raunin á um Helgu.

Helgustekkur

Helgustekkur – uppdráttur.

Saga Helgu Bárðardóttur er bæði forn og ný. „Flúinn er dvergur, dáin hamratröll“, kvað Jónas Hallgrímsson, og í einni yngstu tröllasögunni í íslenzkum þjóðsögum er frá því sagt, að þá voru einar tvær tröllkonur eftir hér á landi, og þær sáu fram á það, að tröllakynið yrði aldauða í landinu með sér, og nú eru þær sjálfsagt báðar dauðar fyrir löngu. Sá sem er einn á ferð á milli Bjólfells og Búrfells, þarf ekki að kvíða því, að hann heyri tröllkonurnar í fjöllum þessum kallast á um pottlán til að sjóða hann í, eins og kom fyrir Gizur á Lækjarbotnum forðum. Ferðamönnum, sem leita sér skjóls í kafaldsbyljum í einhverju djúpu hamragili inni á öræfum, stoðar ekki að kveða Andrarímur, þótt þá langi í heitan graut, því að nú er þar enginn, sem réttir þeim grautarausu að kvæðalaunum. En þótt tröllin séu horfin úr hömrum og hellum, er ekki örgrannt um, að finna megi vott af eðli þeirra hjá mannfólkinu. Enn á það sér stað, að manneðli og trölleðli togast á í sálum manna, og enn sem fyrr verða þau átök upphaf að margs konar harmsögum.

Helguklettur

Helguhóll í Bringum.

Sagan um Helgu Bárðardóttur hefur ekki verið staðbundin á Snæfellsnesi. Hún hefur verið kunn víða um landið, ef til vill um land allt. Höfundur Bárðarsögu segir, að Helguhellir í Drangahrauni sé við hana kenndur. Er þetta í heimahögum hans sjálfs. Drangahraun er hraunið fyrir utan Dagverðará, og dregur það nafn af Lóndröngum. En hann getur þess einnig, að miklu víðar séu örnefni við hana kennd um Ísland, og allt niður á síðustu öld geymdust munnmæli um Helgu í öðrum héruðum og örnefni kennd við hana. Síra Magnús Grímsson getur þess, að sagnir séu um það, að Helga Bárðardóttir hafi um hríð hafzt við í Helguseli í Mosfellsdal, og sé það við hana kennt. Sel þetta stóð norðan undir miðju Grímmannsfelli niðri við Köldukvísl. Helgufoss er í ánni, skammt fyrir ofan selið, Helguhvammur heitir hvammurinn, sem selið stóð í, og Helguhóll er hamrahóll fram undan selinu. Síra Magnús telur, að öll þessi nöfn séu kennd við Helgu, og í Helguhól á hún að hafa gengið í elli sinni og aldrei komið út aftur.
Helgufell heitir í fjöllunum milli Hítardals og Dunkárdals. Helgusæng er lág þar uppi í fjallinu og Helguhóll stór hóll í miðjum flóa neðanvert við Dunkárdal. Örnefni þessi eiga öll að vera kennd við Helgu Bárðardóttur. Hún á að hafa búið í Helgufelli, haft legurúm sitt í Helgusæng og verið heygð í Helguhól, er hún andaðist.
Mér þykir ekki líklegt, að þessi munnmæli og nöfn stafi frá Bárðarsögu. Hitt er sennilegra, að þau séu frá þeim tímum, er saga Helgu enn gekk í munnmælum, fyllri en hin ritaða saga.

Helgusel

Helgusel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar landnámsmennirnir sáu Ísland rísa úr sæ, hið ókunna land, sem átti að verða heimkynni þeirra og niðja þeirra, og þegar þeir stigu þar á land og svipuðust um, er líklegt, að þær hugsanir hafi hvarflað að þeim flestum eða öllum, hvers konar vættir myndu byggja landið, hvers þeir myndu þurfa að gæta til þess að gera sér þær hollar, og hvað þeir þyrftu að varast til þess að styggja þær ekki.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands – landvættirnir.

Á landnámsöld var trúin á landvættir enn í fullum blóma á Norðurlöndum. Hún átti sér þar djúpar rætur og langan aldur, og er líklega eitt af því, sem frumlegast er og elzt í fornum átrúnaði Norðurlandabúa. Víða um lönd hafa frumstæðar þjóðir trúað því, að ýmiss konar dularvættir drottnuðu yfir jörðinni, hver í sínu ríki. Menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum og fossum, í hömrum og steinum, í lindum og lundum, og þeir töldu það vera eitt hið mesta vandamál mannanna að kunna að haga réttilega sambýli sínu við vættir þessar. Fræðimenn greinir á um upptök trúar þessarar. Ætla sumir, að landvættirnar séu í fyrstu andar framliðinna manna. Aðrir telja, að þær hafi, a.m.k. sumar, verið náttúruvættir frá upphafi vega, og til þess getur það m.a. bent, að landnámsmennirnir íslenzku bjuggust við að hitta landvættir fyrir í hinu mannlausa landi, er þeir hugðust að nema. Vér sjáum enn nokkrar minjar af trú forfeðra vorra á landvættir, bæði í fornbókmenntunum og í örnefnum. Þær minjar eru þó mjög í brotum, og þekking vor á þessu máli er því ófullkomin. En eitt af því, sem oss er kunnugt um í þessu efni, er það, að menn trúðu því, að vættir byggju í fjöllum. Sönnun þess er t.d. nafnið Ármannsfell í Þingvallasveit. Fellið hefur hlotið þetta nafn vegna þess, að menn trúðu því, að landvættur (ármaður) byggi í því.

Helgusel

Helgusel – stekkur o.fl. – Uppdráttur ÓSÁ.

Landnámsmennirnir hafa fljótlega gengið úr skugga um það, að Ísland var ólíkt öðrum löndum, er þeir þekktu. Þeir sáu hér náttúrufyrirbrigði, sem þeir höfðu hvergi séð annars staðar, svo sem eldfjöll og hraun, hveri og laugar. Auk þess var margt, sem þeir þekktu annars staðar að og hittu fyrir hér, með nýjum brag. Fjöllin íslenzku voru t. d. með allt öðrum svip en fjöllin, er þeír þekktu í fjalla- og fjarðabyggðum Noregs.

Garður

Spil við Helgustaði í Garði.

Landnámsmönnum, er sigldu að landi með Snæfellsjökul fyrir stafni, hefur ekki dulizt það, að slíkt fjall höfðu þeir hvergi séð í löndum þeim, er þeir komu frá. Þótt þeir kunni að hafa litið öðrum augum á náttúruna en vér nútímamenn gerum og lagt annað mat á fegurð hennar og tign en vér gerum, þá fer varla hjá því, að þeim hafi þótt Jökullinn tilkomumikill, þar sem hann gnæfði við loft, höfði hærri en hnjúkarnir allir, sem fylkt var að baki honum inn eftir endilöngu nesinu, stóð þar eins og fyririrliði í brjósti fylkingar sinnar og horfði út til hafs af yztu þröm skagans. Fer varla hjá því, að þeir hafi hugsað eitthvað á þá leið, að í slíku fjalli hlyti mikil vættur að búa, að ás Snjófells hlyti að vera bæði voldugur og máttugur. Þeir, er námu land umhverfis Jökulinn, settust að í umhverfi, sem alls staðar var svipmikið og stórfenglegt, og sums staðar jafnvel ægilegt og ógnandi. Þeim hefur litizt svo á, sem þetta nýja umhverfi þeirra væri líklegt til að vera aðsetur margs konar vætta og sumra, sem eigi mundu reynast mönnunum hollar. Kynni þeirra af hamförum hafs og storma og baráttan, sem þeir urðu að heyja við þessi trylltu náttúruöfl, hafa enn styrkt þá í trúnni á vættirnar.
Í slíku landi gat mönnunum verið ærin þörf á hjálp hollvætta, er haldið gátu illvættunum í skefjum. Var þá eigi önnur vættur líklegri til hjálpar en ás fjallsins mikla, er lyfti ægishjálmi sínum hátt á loft yfir byggðum þessum. Það er því ekki ótrúlegt, að trúin á Snæfellsásinn sé jafngömul byggðinni á nesinu.

Helgufoss

Helgufoss.

Annars verðum vér að hafa það hugfast, að ekki er ólíklegt, að þriggja alda kristni hafi breytt nokkuð hugmyndum manna um landvættirnar og þær hafi því, er Bárðarsaga var rituð á 14. öld, verið orðnar ólíkar því, sem þær voru í landnámsöld. Vera má enn fremur, að höfundur sögunnar hafi bætt einhverju frá sjálfum sér inn í sagnirnar, sem hann skráði, og ef til vill breytt einhverju í svip Bárðar frá því, sem munnmælin höfðu lýst honum.

Sturlaugur

Sturlaugur við áletrun á berginu ofan Helguvíkur við Keflavík.

Hjá Bárði mættust þannig ólíkir eðlisþættir, og svo fór, að trölleðli hans fékk yfirtökin um stund. Hvarf Helgu, dóttur hans, leiddi til byltingar í sálarlífi hans. Hann trylltist, er hann fékk fréttina um það, spratt þegar upp og gekk inn að Arnarstapa, tók bróðursyni sína undir sína hönd hvorn, fleygði Rauðfeldi niður í Rauðfeldsgjá í Botnsfjalli og Sölva fram af Sölvahamri, og létu þeir báðir líf sitt. Munnmæli síðari tíma bæta þriðja bróðurnum við, Þóri, er hann hafði fleygt fram af Þórishamri í Hamrendafjalli. Síðan átti Bárður illskipti við Þorkel, bróður sinn, og beinbraut hann, og skildust þeir bræður með fullkomnum fjandskap, en Þorkell flutti úr héraðinu. Eftir þetta gerðist Bárður „bæði þögull ok illr viðskiptis, svá at menn höfðu engar nytjar hans síðan“. Hann skildi það sjálfur, að hann bar „eigi náttúru við alþýðu manna“, og tók það ráð að hverfa úr mannheimum og gerast dularvættur. Þá komst aftur jafnvægi á skapferli hans, máske svo að risaeðlið hefur sætt manninn og tröllið í honum. Hann sættist við Þorkel, bróður sinn, og varð hollvættur héraðs síns.“

Eftirfarandi fróðleikur um örnefni í Keldnalandi eru tekin saman af Halldóri Vigfússyni laugardaginn 27. ágúst 1949 í viðræðum við við Björn gamla Bjarnarson (93 ára) í Grafarholti. Þar kemur m.a. fram staðsetning á hringmyndaðri rúst er nefnd hefur verið Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft.
Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti, nyrst á Geldinganesi“. Helgusel í Helguhvammi neðan við Helgufoss undir Bringum heitir einnig eftir henni. Auk þess Helguhóll í Viðey og Helgusker í Kollafirði. Helgustekkur hefur verið látinn óáreittur og er nú við göngustíg er liggur aftan (austan) við háu fjölbýlishúsin við Frostafold. Fleiri minjar, sem minnst er á, má enn sjá í Keldnalandi.

Helgusel

Helgusel – upplýsingaskilti í Bringum.

Við Helgusel í Bringum er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
GöBringur-6mul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum.“
Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan.“

Helgustekkur

Helgustekkur.

Helgustekkur er á grænu svæði sem er á milli húsana Frostafoldar 14 og 18 og Jöklafoldar 23-33. Svæðið er grasi gróið. Um hann segir í Örnefnalýsingu: „Á hábungunni beint vestur af Keldum er hringmynduð rúst, kölluð Helguhjáleiga, Helgustekkur eða Helgutóft. Um þann stað er sú þjóðsaga, að þar hafi búið Helga Bárðardóttir Snæfellsáss og sótt sér í soðið með því að renna færi fram af Helgukletti nyrst á Geldinganesi. Einnig. „Skrýtilegt er það, að vestast á Viðey er klettadrangur sem heitir Helguhóll eða Helguklettur, og Helgusker er í Kollafirði.“

Heimildir:
-Mosfellingur, 8. tbl. 22.05.2014, Stofnun fólkvangs í landi bringna í Mosfellsdal, 18.6 hektarar við Helgufoss, bls. 12.
-Helgafell, 8.-10. tbl. 01.12.1942, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 337-348.
-Helgafell, 1.-3. tbl. 01.01.1943, Undir Jökli, Ólafur Lárusson; Ýmislegt um Bárðar sögu Snæfellsáss, bls. 51-62.
-http://www.keldur.hi.is/um_ornefni.htm?detail=1003119&name=frettasida
-Örnefnskrá Halldórs Vigfússonar yfir Keldur, eftir frásögn Björns Bjarnarsonar. (Ö.Keldur.1).
-Örnefnastofnun. Keldur. H.V. Skráð 1949. Örnefnastofnun Gufuness.
-Fornleifaskrá Reykjavíkur, Bjarni F. Einarsson, 1995.

Helgusel

Helgusel.