Öxará – virkjun
Í Náttúrufræðingnum 2020 fjalla Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson um „Virkjun Öxarár„:
„Jón Guðmundsson, bóndi á Brúsastöðum, keypti Hótel Valhöll árið 1919. Þá stóð hótelið austan Öxarár á svokölluðum Köstulum. Þar kom hann upp raflýsingu árið 1927 og framleiddi rafmagnið með dísilvél til að byrja með.
Árið 1929 var gamla hótelbyggingin tekin niður og endurbyggð vestan Öxarár þar sem hótelið stóð síðan allt til þess að það brann sumarið 2009. Á sama tíma og þessar framkvæmdir stóðu yfir íhugaði Jón að virkja Öxará enda var þá verið að reisa litlar vatnsaflsvirkjanir víða um land.
Í umræðum um friðun Þingvalla á alþingi 1928 kemur fram að þá hafði Jón farið fram á leyfi til virkjunar. Ljóst er af umræðunum að þingmönnum leist ekki á virkjun við Öxarárfoss og töldu að hún myndi spilla helgi staðarins og fegurð. Friðun Þingvalla var síðan samþykkt samhliða stofnun Þjóðgarðsins.
Ekki er ljóst hvort Jón á Brúsastöðum hafði virkjun við Öxarárfoss einhvern tíma í huga. Þegar hann hóf virkjunarframkvæmdir 1932 var þaðí hans eigin landi, ofan við Brúsastaði þar sem Öxará fellur í flúðum og strengjum niður á jafnlendið. Þarna byggði hann inntaksstíflu, lagði aðfærslupípur, reisti stöðvarhús, kom upp raflínu og brúaði meira að segja ána gegnt stöðvarhúsinu. Virkjuð fallhæð var 13 m og lengd pípu um 180 m. Rafallinn var 37 kw rakstraumsrafall frá ASEA í Svíþjóð en vatnshjólið var smíðað í Landssmiðjunni. Ekki hafa fundist nein mæligögn um rennsli árinnar frá þessum tíma en vafalítið hafa menn þó reynt að meta það þegar lagt var á ráðin um vélar og búnað. Þetta var rennslisvirkjun án miðlunar og hafði lítil sem engin áhrif á rennsli Öxarár. Rafmagnið var leitt til Brúsastaða, Hótel Valhallar og í Þingvallabæinn. Nokkru síðar bættust sumarbústaðir í grenndinni við og einnig lét Jón lýsa upp Þingvallakirkju og fékk hún rafmagnið endurgjaldslaust. Raflínan til Þingvalla var 2,6 km að lengd.
Þetta var mikil framkvæmd og dýr fyrir einstakling, kostaði 25.000 kr. á verðlagi ársins 1932. Margt var því af nokkrum vanefnum gert og reksturinn gekk brösótt til að byrja með. Línan gat ekki flutt nema takmarkaða orku og spennufall var oft óhóflegt vegna þess hve grönn línan var. Auk þess urðu ýmsar truflanir viðstífluna af völdum framburðar og kraps í ánni. Jón vann því stöðugt að endurbótum og hafði stækkun í huga.
Árið 1942 endurnýjaði hann stífluinntakið og lét setja gildari víra í línuna og varð það til mikilla bóta. Með vaxandi umsvifum á Þingvöllum dugði þetta rafmagn ekki og fyrir lýðveldishátíðina 1944 var sett dísilrafstöð við Valhöll og notuð samhliða vatnsaflsstöðinni á sumrin fram til 1946. Þá var rekstri virkjunarinnar hætt en rafmagnið alfarið framleitt með olíu á vegum hlutafélags sem annaðist rekstur Valhallar frá 1944 til 1964 þegar Þingvellir fengu loks rafmagn frá Sogsvirkjun. Mannvirki virkjunarinnar gömlu eru enn vel sýnileg við ána ofan Brúsastaða, stífla stöðvarhús og brúarstólpar.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2020, Öxará, Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson, bls. 13-14.