Þorgarður (Sviðsholtsdraugurinn)
„Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs.
Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður.
Þuríður hjet systir Bjarna í Sviðholti og sótti Þorgarður einna mest að henni. Loksins skrifaði Bjarni eftir Sigmundi, fóstursyni Latínu-Bjarna, sem var ramgöldróttur, en hann kom að vestan og dvaldist hjá Bjarna um hríð. Við það ljetti ásókn Þorgarðs. Sigmundur bjóst við góðum launum hjá Bjarna, en minna varð úr en hann hafði ætlað. Þegar þeir Bjarni skildu spurði hann mund hvort sjer mundi vera óhætt. Sigmundur svaraði að svo yrði að vera, en enn mundi sumum af ættmönnum hans verða klaksárt, enda er sagt, að aðsóknin yrði Þuríði ]oksins að bana og alls dæi fjórir menn í ættinni, þar á meðal Þórður stúdent sonur Bjarna. Þetta var alt kent Þorgarði.
Það er mælt að Björn Gunnlaugsson hafi haft mestu skömm á Þorgarði, en sjeð hann oft. Björn þjeraði alla. En einu sinni er hann mætti Þorgarði á hann að hafa sagt: „Ekki held jeg að jeg fari nú að þjera yður“.
Þorgarður fylgdi Bjarna rektor, syni Jóns adjunkts og Ragnheiðar. En það var merkilegt um Þorgarð. að hann var svo sjóhræddur (líklega af því að hann hafði drukknað), að Bjarni rektor þurfti ekki annað en fara yfir Skerjafjörð eða út í Viðey til að losna við hann. Eftir lát Bjarna fara engar sögur af Þorgarði.“
Sagan í „Þjóðsögur og munnmæli í samantekt Jóns Þorkelssonar, 1899, bls. 16-17, er svona: „Þorgarður drepur Þórð í Sviðholti; fer á kjól og stígvél; frá Birni og Þorgarði. [Eptir bréfi Guðmundar Jónssonar, Salomonssonar, úr skóla, til Friðriks prófasts Jónssonar á Stað 2. marts 1835].
Stúdent Þórður Bjarnason (Sviðholti dó af skrítilegum atvikum, að sögn manna. Óbótamaður hafði einu sinn átt að biðja einhvern forföður Þórðar Bjarnasonar að kaupa sig út frá lílsstraffi; ætlaði maðurinn reyndar að gera þetta, en varð ekki af vegna mótmæla konu hans (í Þjóðsögum Jóns Árnasonar I, 388 er sagt, að þessi hjón hafi verið Jón bóndi á Seli við Reykjavík og Guðrún kona hans. Aðrir segja, að það hafi verið Bjarni Bergsteinsson á Seli og í Skildinganesi (d. 1759) og kona hans, er neitaði Þorgarði um féð, en Bjarni var faðir Halldórs, föður Bjarna, föður Þórðar í Sviðholti.) Sá seki hafði þá átt að boða manninum, að hann skyldi ekki kippa sér upp við það, þótt ókennilegir sjúkdómar vildu til í ættinni eptir þetta. Síðan brá svo við, eptir að sá seki var af tekinn, að kona þessa manns varð brjáluð. Síðan hefir ætíð einhver í ættinni verið veikur af sinnis- og hjartveiki. Þessi déskoti segja menn að einlægt hafi ásótt madame Gunnlögsen meðan Johnsen sálugi lifði. Þá hann sigldi og fórst segja menn, að hann, nefnilega Johnsen, hafi verið svo máttugur að láta hann koma með sér. Síðan hefir karlinn, að sögn manna, ætíð birzt á kjól og stígvélum.
Í haust fór Bjarnesen inn í Reykjavík til lækninga, svo hann gæti verið nær doktornum. Fór hann þá stundum að gamni upp á Klupp (klúbb). Sóru sig þá margir, bæði danskir og íslenzkir, upp á það, að þeir hefðu þá séð þénarann“.
Þorgarður var sá eini, sem komst af og ekki drukknaði af póstskipinu undir Svörtuloptum 1817. Kom hann sjóhrakinn af skipbrotinu á bæ undir Jökli um kvöldið og bað að lofa sér að vera, en var farinn um morguninn, þegar fólk kom á fætur, og hafði þá áður drepið þrjár kýr í fjósinu í þóknun fyrir næturgreiðann. Eptir það er sagt, að hann hafi um hríð öðru hverju haldið sig að konu Björns Gunnlaugssonar, ekkju Jóns skólakennara og systur Þórðar í Sviðholti. Er sagt Þorgarði hafi þó heldur staðið geigur af Birni, og hefir hann líklega verið hræddur um, að hann mundi reikna sig í rot með tölvísi. Lagði Björn og litla virðing á Þorgarð. Björn þéraði alla, en þegar Þorgarður varð á vegi hans, er haft eptir honum: „Já, ekki held eg fari ekki að þéra yður“ og „farið þér nú út um norðurdyrnar“.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 1946, bls. 344.
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson, 1899, bls. 16-17.