Hrakningar á Mosfellsheiði fyrir einni öld – Sunnudagsblaðið 1957

Mosfellsbær

Í Sunnudagsblaðinu árið 1957 er sagt frá „Hrakningum á Mosfellsheiði fyrir einni öld„:

„Fyrir réttum hundrað árum, eða 6. marz 1857, lögðu fjórtán menn upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum og Vatnskoti og ætluðu þeir til sjóróðra hér syðra. Þegar þeir höfðu skammt farið skall á stórhríð, og urðu sex af mönnum þessum úti, en hinir komust við illan leik til bæja, aðframkomnir af þreytu, kulda og vosbúð.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Frá atburði þessum er skýrt í Þjóðólfi 18. apríl 1857, og er þar birt skýrsla séra Magnúsar Grímssonar á Mosfelli um hrakninga mannanna. Fer hér á eftir skýrsla séra Magnúsar Grímssonar um þennan atburð, on hún ber yfirskriftina: „Skýrsla um hrakning og harðar farir hinna 14 sjóróðrarmanna er lögðu vestur á Mosfellsheiði 6. f.m.“ — í skýrslu þessari eru að vísu ekki nafngreindir nema 13 menn.
Laugardaginn 6. marzmán. lögðu upp frá Þingvöllum og Vatnskoti, suður á leið á Mosfellsheiði, þessir menn: Egill Jónsson, bóndi á Hiálmsstöðum, Ísak bóndi á Útey. Þiðrik Þórðarson, vinnumaður á Útey, Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum, Bjarni Bjarnason, vinnumaður úr Austurey, Gísli Jónsson, vinnumaður á Snorrastöðum, Jón Sigurðsson á Ketilvöllum — allir úr Miðdalssókn; úr Úthlíðarsókn: Einar Þórðarson, vinnumaður á Austurhlíð, Kristján Snorrason, vinnumaður á Anarholti, Sveinn Þorsteinsson, vinnumaður á Strillu; úr Haukadalssókn: Pétur Einarsson Jónsen og Guðmundur Jónsson vinnumenn á Múla; úr Torfastaðasókn Þorsteinn Guðmundsson, bóndason frá Kervatnsstöðum.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Lögðu allir þessir 14 menn saman á heiðina og fóru frá Kárastöðum í Þingvallasveit um dagmál, í logni og sokkabandsdjúpri lausamjöll. Héldu þeir síðan áfram og voru vissir um að vera óvilltir út að Þrívörðum. Úr því kom í Vilborgarkeldu, fengu þeir langan skafrenning vel ratljósan, en skall á með þreifandi bil á norðan, eða útnorðan, við Þrívörður. Ætluðu þeir þá að hitta sæluhúsið, en gátu ekki. Vissu þeir nú ekki hvar þeir voru, en héldu þó áfram nokkuð, Oft ætluðu sig komna suður undir Gullbringur. En af því þeir voru þá orðnir villtir og þreyttir, staðnæmdust þeir þar á flatri fönn, skjóllausri, og héldu þá vera um nón. Með ófærðinni tafði það ferð þeirra á heiðinni, að sumir fóru svo fljótt að gefast upp; Guðmundur Pálsson á Hjálmsstöðum gafst fyrst upp, þegar fyrir utan Moldbrekku, af máttleysi og fótakulda. Var þá enginn svo fær að geta borið bagga hins að neinum mun, nema Sveinn, sem bar hann mikið af leið. Hinir voru þá og að smá gefast upp: urðu við það biðir á og dvalir, sem mest olli því, að þeir týndu áttunum og villtust.

Þrívörður

Þrívörður – a.m.k. ein þeirra.

Þegar um kyrrt var sezt, stóðu þeir fyrst lengi, og væntu að lygna myndi veðrið og batna, en þegar það varð ekki, fóru flestir til og grófu sig niður í fönnna, og skýldu að sér með farangrinum. Um dagsetursbil um kvöldið héldu þeir að Þorsteinn frá Kvervatnsstöðum mundi hafa dáið í fönninni af kulda og þreytu. Flestir munu hafa sofnað; aldrei þó Guðmundur, og Pétur varla neitt. Að áliðinni nóttu var farið að reka þá á fætur, sem í fönninni lágu, og gekk Pétur bezt fram í því að grafa þá upp sem mest voru fenntir og dýpst lágu, og ekki voru sjálfbjarga. Kól hann þá og skemmdist á höndum, og allir þeir, sem að þessu voru með honum. Þegar allir voru komnir upp úr fönninni, nema Þorsteinn, gátu þeir staðið með veikan mátt sumir, og fóru þá að detta niður og urðu ekki reistir upp. Voru þeir frískari þá lengi að stumra yfir hinum, sem ekki gátu bjargað sér, þangað til loks að 9 tóku sig til að fara af stað og leita byggða, en vera ekki lengur yfir hinum 5, er þeir sáu þá ekkert lífsmark með. Þeir, sem hér urðu eftir við farangurinn, voru þeir: Þorsteinn, Egill, Ísak, Jón og Þiðrik.

Illaklif

Illaklif – hellisskjól.

Eftir að þeir höfðu lengi gengið eitthvað áfram í villunni, dó Guðmundur frá Múla í höndunum á þeim. Varð þá enn staða og töf, er þeir Pétur voru að stumra yfir honum og reyna að koma honum með sér áleiðis. Þá tóku sig 5 frá og komust við veikan mátt ofan að Gullbringum til Jóhannesar Jónssonar Lúnd. Var þá enginn þeirra svo fær, að geta staðið upp hjálparlaust, þegar þeir duttu. Jóhannes tók þeim, sem föng voru á. Þegar hann frétti hvað um var, hljóp hann þegar, er hann hafði hjálpað þessum 5 úr fötunum, móti þeim 3, sem eftir voru: Pétri, Einari og Gísla á Snorrastöðum. Gekk. hann þá í braut þessara 5 inn á Geldingatjarnarhæðir, og tafðist honum að finna mennina bæði sökum kafalds, og þess, að þeir voru komnir í aðra átt en hann vænti, eftir brautinni. Loks kom hann auga á þá niður með Geldingatjarnarlæk. Stefndu þeir þá suður beint um austurhalann á Grímsmannsfelli. — Voru þeir þá mjög af sér komnir, er Jóhannes kom til þeirra, og varð hann að ganga undir Pétri heim til sín.

Illaklif

Illaklif – varða.

Af þeim 8, sem til Jóhannesar komust var Pétur lakast á sig kominn, hann var rænulaus þegar í bæinn kom, og þekkti þá ekki lagsmenn sína. Hjálpaði Jóhannes nú þessum úr fötunum, og setti þá niður í vatn og snjó að þörfum, og veitti þeim allan beina, sem hann gat. Að því búnu fór hann þegar ofan til bæja að fá menn og hesta, sem þurfti.
Um eða undir hálfbirtu á sunnudagsmorguninn lögðu mennirnir af stað þaðan sem þeir lágu um nóttina. Kl. nálega 6 komust þeir 5 til Jóhannesar, en kl. hér um bil 10 hinir 3, sem hann sótti, að því er hann segir sjálfur, en um hádegið kom hann ofan að Mosfelli.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsið norðan við Þrívörður.

Allan þennan tíma, sem mennirnir voru á heiðinni, frá Þrívörðum, var hörku kafalsbilur með brunafrosti og ofsalegum vindi. Á laugardaginn sá lengi fram eftir öðru hverju til sólar, og til dags sást á sunnudagsmorguninn, þegar dagur var nokkuð hátt á loft kominn, en batnaði það, að ratljóst varð á heiðinni fram úr dagmálum. Síðan batnaði veðrið alltaf, og gjörði gott veður, nærri kafaldslaust og lygnt, fram úr hádeginu.
Undir miðmunda á sunnudag voru 8 manns neðan úr Mosfellsdalnum komnir með Jóhannesi upp í Gullbringur með 7 hesta, og þurr klæði til að sækja mennina, er þar voru. Voru þá þegar fluttir þaðan 6. Sveinn og Gísli voru langminnst kaldir; Sveinn varla neitt, Gísli helzt á kinn og eyra. Bjarni og Guðmundur þóttu ekki flutningsfærir og voru kyrrir um nóttina á Gullbringu. Á mánudaginn voru þeir fluttir til byggða.“

Gluggavarða

Gluggvarðan á gömlu leiðinni um Mosfellsheiðina.

Séra Magnús Grímsson skýrir því næst frá því í niðurlagi skýrslu sinnar að 3 Mosfellsdalsmenn hafi þegar á sunnudaginn verið sendir með duglega hesta frá Gullbringum til að finna hina látnu og farangurinn, að þeir hafi brátt „fundið lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála hinum eystri“, þar næst hafi þeir fundið Ísak nokkru norðar „með mjög litlu lífsmarki; fluttu þeir hann strax að Stardal, því þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður“; því næst sneru þeir 3 byggðarmanna aftur upp á heiðina og fundu þá „farangurinn og hina fjóra mennina sunnan til við Leiruvogsvatn í Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt í lækinn“. Jón frá Ketilsvöllum var þá enn með lífsmarki, og „fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó á leiðinni og var ekki lífgaður.“
— Séra M.G. skýrir loks frá hversu allar tilraunir hafi verið við hafðar eítir réttum lækna reglum til að meðhöndla líkin og reyna að kveikja aftur líf með með þeim — og frá greftrun þeirra.“

Heimild:
-Sunnudagsblaðið, 9. tbl. 03.03.1957, Hrakningar á Mosfellsheiði fyrir einni öld, bls. 129-130.

Bringur

Bringur – tóftir bæjarins.