Hrauntúnsbærinn
Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði um Hrauntún á Þingvöllum í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984. Þar lýsir hún m.a. Hrauntúnsbænum.
„Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum.
Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var meðþrísettum glugga og klædd bárujárni.
Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn. Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.
Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. desember 1984, bls. 40 – Sigurveig Guðmundsdóttir.