Reykjadalur – upplýsingaskilti

Reykjadalur

Þann 23. júní 2014 var afhjúpað upplýsingaskilti um náttúru Reykjadals sem sett var upp við Rjúpnabrekkur inn í Ölfusdal ofan við Hveragerði. Skiltið var unnið af Landvernd í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, Safe Travel, Hveragerðisbæ, Sveitarfélagið Ölfus, Ferðafélag Íslands, Eldhesta og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi.  Á upplýsingaskiltinu má lesa eftirfarandi fróðleik:

Jarðhiti

Reykjadalur

Reykjadalur – afhjúpun skiltisins 2014.

Jarðhiti í Reykjadal og Hveragerði er í rótum útkulnaðrar eldstöðvar sem var virk fyrir um 120.000 árum í rekbeltinu á svipuðum slóðum og Hengill er í dag. Eldstöðina hefur rekið til austurs frá miðju rekbeltisins og jöklar hafa sorfið hana niður. Eldstöðinni fylgir sprungu- og eldstöðvakerfi sem nær frá sjó í Selvogi, norðaustur um Hengilssvæðið um Nesjavelli til Þingvalla. Á stærstum hluta Hengilssvæðisins er að finna móberg og móbergsset frá ísöld en einnig basalthraun sem runnu eftir að henni lauk.

Reykjadalur

Reykjadalur – jarðhiti.

Jarðhiti á svæðinu einkennist af leirugum vatnshverum og kolsýruhverum og víða eru merki um aukna virkni í seinni tíð. Í Klambragili eru fjölmargir kolsýruhverir og laugar með miklu rennsli, sem gefa megnið af hita Reykjadalsár. Mörg þessara fyrirbæra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Náttúrufar

Reykjadalur

Reykjadalur – laug.

Jarðhitinn hefur víða áhrif á gróður svæðisins og felst sérkenni hveragróðurs einkum í gróskumiklum votlendissamfélögum við heita læki og laugar og moslendi þar sem þurrara er. Ýmsar hitakærar tegundir jurta vaxa á svæðinu og má þar nefna laugadeplu (Veronica anagallisaquatica) og naðurtungu (Ophioglossum azoricum). Báðar þessar jurtir eiga undir högg að sækja og eru því á válista háplantna. Ennfremur finnast ýmsar hitakærar tegundir mosa og smádýra, sumar hverjar á válista. Litríkar og fjölbreyttar hveraörverur setja svip sinn á svæðið. Þær flokkast sem bakteríur og fornbakteríur og eru margar afar fágætar.

Hverafuglar og aðrar sögur

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Reykjadalur hefur löngum verið nýttur til beitar og vegna jarðhitans gat fé gengið þar lengur að grænum gróðri en annarsstaðar.
Í þjóðsögum er getið um svokallaða „hverafugla“ í hverum á Ölkelduhálsi og Hagavíkurlaugum. Þeir voru sagðir litlir vexti, dökkleitir og taldir synda í bullandi hverum. Sagt var að ekki þýddi að sjóða þá en ef þeir væru látnir í kalt vatn bragðist þeir sem soðnir væru.
Þá segir í Landnámabók að Ingólfur Arnarson landnámsmaður hafi búið hin síðustu ár ævi sinnar á Reykjum í Ölfusi, þá blindur orðinn.

Verndum viðkvæma náttúru Reykjadals

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Reykjadalur er einn fjölsóttasti náttúrulegi baðstaður landsins í afar fögru og friðsælu umhverfi. Það einkennir Reykjadal, líkt og önnur jarðhitasvæði, hve viðkvæmt svæðið er fyrir átroðningi og umferð.
Setjum vernd svæðisins ávallt í fyrsta sæti, fylgjum merktum stígum og hverfum frá ef aðstæður, t.d. árstími eða tíðarfar, leyfa ekki umferð. Þannig getum við og komandi kynslóðir áfram notið þessa einstaka svæðis. Njótið svæðisins!
Reykjadalur

Reykjadalur – Upplýsingaskilti.