Innnes og Suðurnes
Í bókinni „Litla skinnið“ eftir Jón Thorarensen frá Kotvogi, útg. 1982, skrifar hann m.a. um Innes og Suðurnes. Lýsingin er stutt, en fróðleg.
“Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi:
INNNES frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.
SUÐURNES frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.
Hluti af Suðurnesjum heitir Rosmhvalanes. Það er sá hluti Reykjanesskagans, sem liggur fyrir norðvestan línu þá sem hugsast dregin frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu nú eyðilögð austast á Keflavíkurflugvelli og úr Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík
Þannig eru því öll byggðahverfin frá Leiru og allt suður að Stafnesi á Rosmhvalanesi.“
Í þessari lýsingu Jóns, sem ritaði mikið um landshætti, líf fólks og atvinnuhætti á Suðurnesjum, er tekinn af allur vafi hvar skiptingin var, en hún skipti miklu máli í daglegu tali fyrrum er menn voru greindir í Innnesjamenn og Útnesjamenn. Einnig var það almenn málvenja að fara á Innnesin eða á Útnesin. Þá var betra að vita hvar mörkin voru. Og það er ekki síður mikilvægt fyrir nútímanninn að þekkja skilin er hann á annað borð þarf að lesa í heimildum um hugtök þau er hér er um fjallað. Samkvæmt lýsingu Jóns nær Suðurnes frá Hvaleyrarholti í norðri að Selatöngum í suðri, eða m.ö.o. eftir endilöngum (G)Núpshlíðarhálsinum.
Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1989.