Hallgrímshellan – heimildir og vangaveltur
SG tók eftirfarandi saman um „Hallgrímshelluna„, byggt á heimildum og umfjöllun um helluna. Þar kemur m.a. fram að HPS-steinninn, sem nú er í geymslu Þjms. þarf ekki endilega að vera Hallgrímshella sú, sem um er getið í heimildum. Nafnið gæti einnig átt við um bungulaga klapparhæð, en nafnið síðan hafa færst yfir á nálægan ártalsssteininn – eða öfugt. Aðrar heimildir kveða á um að ártalssteinninn hafi verið í vörðu á Hallgrímshellu (Prestaklöpp). Spurningin er því; hvort kom á undan, eggið eða hænan.
„Í Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og þar segir: „Milli Básenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamerki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangmarkið er HP; en ártalið er 1728.“
(Jón Dan á Stafnesi segir 2005: “Hallgrímshellan” var í vörðubroti á Prestsklöpp.“ Flest það sem Brynjúlfur safnaði á Reykjanesi fékk hann frá heimafólki. Allflest skoðaði hann sjálfur með eigin augum og skráði. Mest af því sem hann skráði virðist hafa verið rétt staðsett sem og rétt skráð. Brynjúlfur vandaði sig mjög, en hann skráði m.a. þjóðsögur fyrir Jón Árnason, auk þess sem hann skráði til birtingar sögur, sem hann heyrði er hann dvaldi t.d. á vertíð hjá bóndanum í Klöpp í Grindavík (Guðmundi Jónssyni) fyrir aldamótin 1900. Hvernig hann fékk ártalið 17 hundruð er ekki gott að segja. Það gæti bent til þess að hann hafi ekki séð steininn sjálfur).
Eftirfarandi er í endurriti frá Örnefnastofnun Íslands. Ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.árið 1902 og varð ca 95 ára gamall: „Annars var slóði hér suður með sjónum, og það er hérna á leiðinni, skammt fyrir utan Þórshöfn, hérna nær. Það er svona klapparbunga, sem er kölluð Hallgrímshella, og þar liggur vegaslóði, sem að hefur verið farinn einhverntíma, en hann er kominn undir sjó. Sjórinn gengur bara orðið yfir hann núna, en það sést fyrir því. Þegar farið er niður af þessari klapparbungu, þá sést slóði, og þar er vörðubrot og það er auðséð, að þessi vegur sem var nú farinn hérna seinna sem ég man eftir, að hann liggur mikið ofar í hrauninu heldur en þetta er. Og við þetta vörðubrot sem þarna er, þegar farið er niður af þessari klapparbungu. Þar var steinn og á honum stóð H.P.S. 1628, En það er búið að taka þennan stein, en hvert hann er kominn, það get ég ekki vitað. Ég hef verið að halda spurnum fyrir um hann, en einskis orðið vís, meira að segja ekki hjá þjóðminjaverði. Hvort setuliðið hefur tekið hann?. Hann er búinn að vera þarna síðan þetta var sett á hann.“
(Í skráningu Þjóðminjasafnsins um “Hallgrímshelluna” segir m.a. „Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.“ Gripurinn hefur númerið 1974-120 í safninu.)
(Ljóst er að margir vegslóðar lágu jafnan næst ströndinni, en sjórinn braut þá jafnan undir sig. Nýir slóðar voru því gerðir ofan strandar jafnóðum. Klapparbungan “Hallgrímshella” hefur verið fyrir ofan gamlan vegslóða, en ofan hennar hefur annar myndast. Það passar við aðstæður nú því Guðmundur á Bala fór með FERLIRsfélögum að klapparbungu neðan núverandi “Gamlavegar” þegar hann var að leita að áletrunarsteininum. Þá sást enn móta fyrir hluta að gamalli götu neðan “hellunnar”.
Letursteinninn átti þá að vera á bungunni (væntanlega í vörðu). Það hafa því verið óljós nafnaskil milli bungunnar og vörðunnar (letursteinsins). Þess vegna gæti bungan alveg eins hafa dregið nafn sitt af letursteininum í vörðunni. Letursteinninn gæti einnig hafa verið í vörðu við gamla leið nær sjónum, en verið bjargað og færð ofar, yfir á holtið þar sem hún var 1974. Þá var hún ekki í neinni vörðu).
Næst kemur í sama viðtali við Guðmund:
„Ég var að halda að þetta gæti verið eftir Hallgrím Pétursson, því að hann átti nú leið þarna um þegar hann þjónaði Höfnunum, því að þessi Hallgrímshella hefur sennilega verið einhverskonar áningarstaður á leiðinni. Nú hann mynnist á hana hann Jón heitinn Thorarensen í bókinni Útnesjamenn.
Ég veit nú ekkert meira um þetta, en ártalið passar víst ekki, því að hann hefði þá ekki átt að vera nema 14 ára. Hann var fæddur 1614. En ártalið var greinilegt á steininum 16Z8, fyrst kom 16, þá Z í staðinn fyrir 2, og svo 8. Þá erum við komnir suður í Þórshöfn, þar er ósköpin öll af allra handa nöfnum á klöppunum fyrir ofan Þórshöfn, alveg skelfing.“
Svo kemur aðeins meira um Hallgrímshelluna: „. . . Skarfurð byrjar þarna fyrir utan þessa klapparbungu sem ég sagði þér um Hallgrímshelluna, en Hallgrímshella er rétt fyrir sunnan og ofan, fyrir endann á Skarfurð þar sem hún endar, því þetta er langur kampur, Skarfurðin, hún nær alla leið undir Djúpuvík . . . “
(Þessi athugasemd um tölustafinn 2 á letursteininum á vel rétt á sér því hann líkist meira bókstafnum Z. Jón Thorarsensen gæti ruglað fólk í rýminu með skáldsögugerð sinni, en skáldsögu má aldrei taka til jafns við “skráðar heimildir” sbr. meðfylgjandi).
Í bókinni Útnesjamenn (skáldsögu) segir:„ Milli Grímvarar [Bárðarvarar, innsk.SG] og Útsala [Hvalsness, innsk. SG] er lág og hrjóstrug heiði, það er Tangaheiðin (Miðnesheiðin, innsk.SG). Hún er bungumynduð og ber hæst um miðbikið. Þar er á staðnum kúpt blágrýtishella, Hallgrímshellan. Við suðurenda hennar var djúpur, grasi gróinn bolli fyrrum, sem nú er löngu eyddur og uppblásinn.“ „ þegar þeir eru komnir að Hallgrímshellunni, heyrði sýslumaður til mannaferða nokkuð suður á heiðinni; …. “ Það var nokkuð áliðið dags, er hann lagði aftur af stað frá Útsölum. Hann fór aftur upp Tangaheiðina og stefndi til Hallgrímshellunnar. Þegar hann nálgaðist heiðarbunguna, blasti við honum mikið víðsýni. . .
Þegar Þorkell nálgaðist Hallgrímshelluna reikaði hugur hans til liðna tímans. Þar við helluna höfðu þau Ásdís bundizt heitum, og sameinuð sigruðu þau alla erfiðleika.“
(Ekki er víst að Jón Thorarensen hafi verið meðvitaður um letursteinininn og vörðuna. Einnig gæti varðan þá hafa verið fallin og letursteinninn legið einn og yfirgefinn eftir um skeið, án þess að nokkur gæfi honum gaum, umkomulaus (skáldsagnalegt)…).
Í Fornleifaskrá Miðnesheiðar eftir Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 segir á bls. 24-25: „S-181039-40-6…
Tegund og hlutverk: Fangamark…
Heiti: „Hallgrímshella“…
Lega: 21:42:29.75—- 63:57:12.76
..Staðhættir og lýsing: Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „ Milli Básenda ….. og Þórshafnar …. “ Sjá tilvitnun hér ofar í skrif séra Brynjúlfs.
Svo segir Ragnheiður Traustadóttir: „Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan. Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þufi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.
Hættumat: Hætta vegna veðrunar.“
(Skráningin er í heild tekin með fyrirvara.
Uppgefnir GPS-punktar passa ekki – eiga sennilega að vera: 63571276 – 22422975, þ.e. 1 breytist í 2 í 21422975 (J.G. og V.G) því þá passar staðsetningin við HP-áletrunina ofan við Þórshöfn. Hitt hnitið er í Heiðinni há. Þá hafa rústir Gamla-Kirkjuvogs færst austar, eða í Djúpavog, en þar eru einnig tóftir o.fl.)
Hér koma mínar niðurstöður (S.G.), við fyrstu sýn:
a) Brynjólfur frá M-Núpi virðist fyrstur setja á prent villu varðandi letursteininn í vörðubrotinu með því að sleppa ESS-inu í skrifum sínum og hann nefnir ekki Hallgrímshelluna einu orði! Brynjólfur virðist hafa fengið fræið um Hallgríms Péturssonarletursteininn frá heimamönnum. Engin vafi er á því í mínum huga eftir lestur þessara heimilda að Hallgrímshellan er nokkur klöpp en ekki letursteinn. Nafn hennar þarf alls ekki að tengjast HPSletursteininum sem á henni var í eða við vörðubrot og við elstu þjóðleiðina (3 þjóðleiðir misgamlar eru þarna hver ofan annarrar). Enda segir Guðmundur greinilega að vörðubrotið og letursteinninn sé NEÐAN (nær sjó) Hallgrímshellunnar.
(Reyndar nefndir Brynjúlfur bæði stein og vörðu, áletrun og ártal. Hann hefur varla komist hjá því því steinninn mun hafa verið þarna frá því um fyrri hlutar 17. aldar og því vel kunnur heimafólki. Brynjúlfur sleppir hins vegar ESS-inu, en hann hefur varla talið ástæðu til að gefa hellunni nafn, enda hefur hún (í vörðu) varla haft sérstakt nafn á þessum tíma (aldamótin 1900). Hann setur það sem hann telur réttast á prent, væntanlegast til að varðveitast.
Elsta þjóðleiðin er ekki til þegar Brynjúlfur er þarna, ekki heldur sú næstelsta. Sjórinn er búinn að margtaka til sín gamlar þjóðleiðir, enda má með réttu fullyrða að hann taki þarna til sín u.þ.b. 50 metra af landi á einni mannsævi (skv. upplýsingum heimamanna). Einungis frá því að elstu núlifandi menn voru ungir á þessu svæði hefur ströndin gjörbreyst, sbr. viðtöl við þá).
b) Séra Jón Thorarensen styður þetta með klöppina Hallgrímshellu margsinnis í bók sinni en nefnir ekki letursteininn.
(Séra Jón styður í rauninni ekki neitt með skáldsögu sinni því skáldsaga er eitt og nákvæm heimildarskráning annað. “Heimild” skáldsögunnar segir því í rauninni ekki neitt um sögulegar staðreyndir. Hún lýsir einungis frásagnalist og efnisumfjöllun höfundar, stundum þó með vísan til ónákvæmra staðhátta).
Ágætt dæmi um sambærilega tilfærslu á heitum er Hunangshellan. Þjóðsagan segir hana slétta grágrýtisklöpp fyrir Ósabotnum, en saga, sem um hana fjallar og landamerkjalýsing nefna vörðuna á hellunni „Hunangshellu“. Um er að ræða markavörðu, en mörk Sandgerðis (nú) og Hafna (nú) liggja einmitt um Hunangshelluna. Á henni (klöppinni) er einmitt fallin varða. Milli Hunangshellu og Hallgrímshellu eru Litla- og Stóra-Selhella, sléttir tangar við Djúpavog.
c) Árið 1986 styður Guðm. á Bala þetta um að letursteinninn á Hallgrímshellunni, þ.e. að hann tengist séra Hallgrími og ósköp skiljanlegt því Brynjúlfur setur þetta á prent árið 1903 í virtu tímariti. Guðmundur heldur því alls ekki fram að Hallgrímshellan sé letursteinn!
(Brynjúlfur setur þetta fram með bestu vitund. Guðmundur á Bala hefur væntanlega orðið efins því búið var að fjarlægja letursteininn 12 árum fyrir viðtalið (1974)).
d) Ragnheiður Traustadóttir „finnur “ og staðsetur Hallgrímshelluna með fangamarkinu HP og nefnir að: „Ritaðar heimildir geti ekki um heitið “Hallgrímshella“.
(Ragnheiður er einungis að vitna í Brynjúlf – aðrar heimildir virðist hún ekki hafa. Hún veit ekki að leita beri frekari heimilda í gagnasafni (viðtalasafni) Örnefnastofnunar, enda byggir hún einungis á skráðum heimildum og hafði bæði lítinn tíma til verksins og lítið fjármagn (að eigin sögn). Heimildir virðast mjög af skornum skammti á þessu svæði, sbr. framangreint, sem og reyndar heimildir um annað gamalt á Suðurnesjum. Hér á Ragnheiður sennilega við „Hallgrímshelluna við Þórshöfn, en hnitið hennar (lagfært) gefur vísbendingu um staðsetningu áletrunarinnar til kynna).
(Í rauninni segir ekkert um það að “Hallgrímshellan” og letursteinninn séu ekki eitt og hið sama. Sumar ritaðar heimildir styðja sagnir um „letursteinn í vörðu”, á klapparholti (Prestaklöpp), aðrar að „Hallgrímshellan“ hafi verið klapparbunga. Hvort kom á undan; hænan eða eggið? Það er spurningin?
Þess má geta að Jón Ben á Stafnesi sagði nýlega, sem fyrr sagði, í eftirfarandi viðtali um „Hallgrímshelluna“: „Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var í vörðu á Prestaklöpp þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið.“
Heimildir m.a.:
-Árbók hins Ísl. Fornleifafélags árið 1903 er grein e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi.
-Endurrit frá Örnefnastofnun Íslands, ritað eftir segulbandsupptöku, sem Guðleifur Sigurjónsson tók upp á heimili Guðm. Guðm. bónda (eldri) á Bala 24. nóv. 1986, en Guðmundur var fæddur 30. okt.á rið 1902.
-Fornleifaskrá Miðnesheiðar e. Ragnheiði Traustadóttur árið 2000 .
-Viðtal við Jón Ben á Stafnesi 2005.