Gufuskálar

“Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar eru nefndir í fornum rekaskrám Rosmhvalaness, svo og Miðskálaós og Útskálaós.
Miðskálar eru einnig nefndir Miðskálagarður, sem mun eiga að merkja heimajörð með Gufuskalar-222hjáleigum. Í óprentuðu riti eftir séra Sigurð B. Sívertsen á Útskálum hefi eg séð það, að bærinn á Miðskálum heiti nú í Vörum og Miðskálaós Varaós, en Útskálaós Króksós. Sr. S. B. S. getur þess til, að þessir þrennir »-skálar«, svo skamt hver frá öðrum, hafi í fyrstu verið eitt land með einu nafni (Gufuskálar), en skifzt fyrst í 3 jarðir, er allar hafi haldið nafninu, en hinar yngri verið aðgreindar með afstöðuorði framanvið nafnið (Mið-Gufuskálar, Út-Gufuskálar), en svo hafi nöfnin verið stytt í framburðinum er frá leið. Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því, að bygð á Gufuskálum hafi eigi lagzt niður, þó Ketill gufa færi þaðan, heldur hafi landeigandi þá sezt að í »skálum« hans, og er ekkert á móti því. Það gerir tilgátuna sennilegri, að samskonar tilfelli hefir átt sér stað með Arnarbæli undir Eyjafjöllum. Úr þeirri jörð hafa verið bygðar jarðirnar: Mið-Arnarbæli og Yzta-Arnarbæli, en nöfnin síðar orðið að: Miðbæli og Yztabæli. Fleiri dæmi lík þessu mun mega finna. Eg vil nú bæta þeirri tilgátu við, að Miðskálagarður hafi í fyrstu verið haft um Miðskála sem höf-ból, en smámsaman verið látið ná yfír alt það hverfi, sem þar myndaðist. Nafnið hafi svo í daglegu tali verið stytt og að eins nefnt: Garðurinn. Miðskálanafnið hafi síðan týnzt, en nafnið: »Garðurinn« haldist, og loks náð bæði yfir Miðskálahverfi (nú Inn-Garðinn) og Útskálahverfi (nú Út-Garðinn). — Rit séra Sigurðar er að mörgu fróðlegt, sem von er af slíkum fræðimanni. Ætti Landsbókasafnið að eignast það.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 35.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.