Þinghóll
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um. Á gamla þingstaðnum er friðlýst þinghústótt og skammt frá henni er minningarsteinn um erfðahyllinguna, reistur 1962.
Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei.
Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir.
Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi. Jarðneskar leifar Sigurðar og Steinunnar fundust þarna skammt frá er brúin yfir Kópavogslækinn var byggð.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Erfðahyllingareiðurinn – Skjalið er varðveitt Þjóðskjalasafni í skjalasafni Öxarárþings, Alþingisbók frá Bjarna Þorsteinssyni.
Texti erfðahyllingareiðsins er ekki til í frumriti en hér er hann tekinn eftir alþingisbók í Þjóðskjalasafni.
Efni skjalsins er á þá leið að á Kópavogsfundinum 1662 hafi Íslendingar gengið undir einveldi Danakonungs en það hafði hann þegar fengið í Danmörku tveimur árum fyrr. Ætlast var til að gengið yrði frá málum á alþingi en höfuðsmaðurinn, Henrik Bjelke, kom ekki til landsins í tæka tíð.
Ýmist er talað um erfðahyllingareið eða einveldisskuldbindinguna. Textinn er til í nokkrum afritum. Hér er eiðurinn í alþingisbók, sem óvíst er hver ritað hefur, og má benda á síðustu orðin á blaðsíðunni „O tempora! o mores!“ (Ó tímar, ó siðir!) sem bera vitni um dapurt hugarástand skrifarans.
Á Kópavogsfundi viðurkenndu Íslendingar einveldi Danakonungs og höfðu Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup og Árni Oddsson lögmaður forystu fyrir landsmönnum þar. Með tímanum komst allt ríkisvald (löggjafarvald, framkvæmdavald og æðsta dómsvald) í hendur konungs og embættismanna hans. Í raun var kóngur þó farinn að ráða því sem hann kærði sig um á Íslandi löngu fyrr og viðurkenning einveldisins var fremur formsatriði en breyting.
Forsaga málsins er sú að ári áður hafði Danakonungur ákveðið að svipta aðalinn öllum völdum og stofna konungseinveldi í ríki sínu í samstarfi við borgara Kaupmannahafnar. Íslendingar samþykktu hið sama á Kópavogsfundi með því skilyrði að þeir fengju að halda fornum lögum sínum, frelsi og rétti. Það virðist einkennileg krafa þegar þess er gætt að allt átti þetta að hverfa með einveldisskuldbindingunni.
Kópavogsfundurinn hlaut óvænta athygli löngu síðar þegar Jón Sigurðsson sjálfstæðishetja dró fram í dagsljósið tvo bréfmiða sem Árni Magnússon handritasafnari hafði skrifað nokkrum áratugum eftir fundinn. Þar segir að Brynjólfur biskup og Árni Oddsson hafi verið neyddir til að skrifa undir skuldbindinguna með vopnavaldi, Árni hafi streist á móti heilan dag en loks látið undan og undirritað skjalið grátandi. Þótti 19. aldar mönnum þetta talandi dæmi um svívirðilega framkomu Dana gagnvart Íslendingum í gegnum tíðina.
(Byggt á riti Gunnars Karlssonar, Kóngsins menn. Reykjavík 1990, Mál og menning).
Heimildir: Einar Laxness. Íslandssaga a-ö, II. bindi. Reykjavík 1995. Vaka – Helgafell – og Árni Daníel Júlíusson, Helgi Skúli Kjartansson og Jón Ólafur Ísberg (ritstj.). Íslenskur söguatlas I. Reykjavík 1989. Almenna bókafélagið.