Að og frá Keili – einkennisfjalli Reykjaness

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.