Aftaka Jóns biskups Arasonar – eftirmálar

Jón Arason

Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Loks hemrir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.

-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.

Jón Arason

Minnisvarði um Jón Arason og syni hans við Skálholt.