Utanvegaakstur
Eftirfarandi erindi kom frá fulltrúa mótorhólamanna (2005), sem aka utan vega á hjólum sínum, en vilja halda slíkum akstri innan ákveðinna marka.
“Ég er viðriðinn hagsmunamál mótorhjólamanna og núna stöndum við í smá stappi við fulltrúa sýslumannsins á Reykjanesi. Forsaga málsins er sú að Bæjarstjórn Grindavíkur gaf mótorhjólamönnum bráðabirgðaleyfi til æfinga við norðurenda Kleifarvatns með þeim skilyrðum að gengið yrði frá svæðinu 1. júní og það ekki notað meira í sumar. Þetta var gert í ljós þeirrar reynslu sem fékkst í fyrrasumar þegar lögreglan á Reykjanessvæðinu eltu uppi þá sem voru að reyna að æfa sig og hrökktu þá upp til fjalla og inn í afskekkta dali.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Afleiðingin varð hreint út sagt skelfileg, því á þessum tíma árs er Kleifarvatnssvæðið og Reykjanesið eini staðurinn sem hægt er að hjóla á. Í staðinn fyrir að hafa eitt svæði til að hjóla á voru litlar brautir lagðar ólöglega um allt Reykjanes og miklar landskemmdir unnar.
Nú hefur bæjarstjórn Grindavíkur verið gert að afturkalla þetta bráðabirgðaleyfi á þeim forsendum að sýslumaður þurfi að gefa leyfi, nema fyrir liggi leyfi frá landeiganda, Reykjanesfólkvangi og einhverjum fleiri aðilum. Það er því ljóst að ætlunin er að kæfa þetta mál í pappírshrúgum kerfisins og þannig draga málið fram á sumar, en þá verður engin þörf á þessu bráðabirgðaleyfi. Það eina sem þetta hefur í för með sér er að ágangur á Reykjanesið mun halda áfram að aukast og skemmdir af völdum mótorhjóla ekki minnka.
Ég geri mér grein fyrir að enginn vill sjá mótorhjólaför um alla koppagrundir. Ein af þeim leiðum sem okkur hefur dottið í hug til að verja Reykjanesið fyrir landskemmdum er að vekja athygli á þessu máli og gera þeim sem stjórna grein fyrir þeim miklu andstæðum sem þarna eru í gangi. Það er nefnilega ekki bæði hægt að vernda náttúruna og loka æfingarsvæðum.”Í lögum um Náttúruvernd er fjallað um akstur utan vega. Þar segir m.a. að “bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin. Umhverfisráðherra kveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar í reglugerð á um aðrar undanþágur frá banninu, m.a. vegna starfa manna við landbúnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir.” Jafnframt að “ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu.” Þar segir að “hver sá sem veldur á ólögmætan hátt spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur er af gáleysi eða ásetningi, skal sæta refsingu.”
Utanvegaakstur

Í Umferðarlögum (1987 nr. 50 30. mars) er fjallað um akstur utan vega, en einungis í þéttbýli. Þar er einungis kveðið á um að ökumenn skulu aka eftir akbrautum. Í lögunum eru ákvæði um akstursíþróttir og aksturskeppni. Þar segir að ráðherra geti sett reglur um akstursíþróttir á sérstökum afmörkuðum svæðum utan vega. “Eigi má efna til aksturskeppni, nema með leyfi lögreglustjóra.” “Ráðherra setur nánari reglur um aksturskeppni.”
Í Umferðarlögunum eru sérstök og reyndar svolítið skondið ákvæði um tofærutæki, því skv. því má í rauninni hvorki aka þeim utan vegar, en þó jafnframt “skemmstu leið eftir vegi eða yfir veg, sem ekki er einkavegur.” Reyndar er átt við akstur þegar snjór þekur jörð, þótt það komi ekki beinlíns fram í ákvæðinu.
Í reglugerð um akstur í óbyggðum segir m.a. að “öllum er skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll á náttúru landsins, sem framin eru með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.” Jafnframt að “allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta af hlotist er bannaður.” Með náttúruspjöllum er meðal annars átt við spjöll á gróðri, jarðvegi og jarðmyndunum, myndun nýrra slóða, hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu og skiptir ekki máli hvort líkur eru á varanlegum skaða eða tímabundnum. Á friðlýstum svæðum gilda auk þess sérákvæði um akstur, sbr. friðlýsingarákvæði.

Hraunssel

Utanvegakastur milli Hraunssels og Sandfells.

Í undanþáguákvæði reglugerðarinnar segir að “nauðsynlegum akstri utan vega í óbyggðum skal jafnan hagað svo að engin náttúruspjöll eða lýti á landi hljótist af. Með nauðsynlegum akstri utan vega er átt við akstur vegna rannsókna, björgunarstarfa og þess háttar.”
Í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni segir að “eigi má efna til aksturskeppni nema með leyfi lögreglustjóra. Án samþykkis vegamálastjóra má eigi heimila aksturskeppni á þjóðvegi. Keppni utan vega er eigi heimil án samþykkis sveitarstjórnar. Leyfi til aksturskeppni skal einungis veita skipulagsbundnum samtökum er hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni.”
Aldrei virðist nógu oft áréttað að allur akstur utan vega og merktra slóða er bannaður á Íslandi. Jaðvegur landsins er viðkvæmur og óratíma getur tekið fyrir hjólför að hverfa. Þá eru hjólför eftir bíla og önnur ökutæki oft upphafið að atburðaráðs rofs og uppblásturs sem valdið getur gríðarlegum skemmdum og landeyðingu. Einnig er margsannað að ein slóð kallar á aðra því sá sem á eftir kemur og sér slóð kann að álykta að þarna megi aka.
Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál á Íslandi. Falleg náttúra Íslands verður því miður oft fyrir óbætanlegum spjöllum vegna illrar umgengni ökumanna á vélknúnum ökutækjum. Jarðrask getur valdið varanlegu landrofi og ómældum skaða.
Dómur gekk í máli manns árið 2002, sem ók utan vegar og olli spjöllum á gróðri. Honum var gert að greiða 20.000 kr. sekt eða dúsa þrjá daga í fangelsi ella.

Utanvegaakstur

Utanvegaakstur.

Ljóst er að mikilvægt er að finna lausn á vanda þeim er bréfritari vekur athygli á. Það er mat FERLIRs að koma þurfi mótorhjólafólki sem og öðrum er stunda utanvegaakstur af viðkvæmum svæðum Reykjanesskagans, s.s. í Stóru-Sandvík, hlíðum Sveifluháls og Fagradalsfjalls, Skolahrauns og Djúpavatnssvæðinu svo einhver svæði séu nefnd er þegar liggja undir talsverðum skemmdum. Mótorhjólafólk hefur unað sér vel á vatnasvæði Lambhagatjarnarinnar norðan Kleifarvatns sem og á sandströndinni við vatnið sunnan Syðrihöfða. Ekki er að sjá að það hafi valdið spjöllum þar því vatnið virðist jafnan færa umhverfið í rétt horf á ný. Þá er hið ákjósanlegasta æfingasvæði í Folaldadölum í Sveifluhálsi. Með jákvæðu viðhorfi og í góðri samvinnu við mótorhjólafólk ættu yfirvöld samgöngu- og umhverfismála auðveldlega að geta náð samkomulagi um viðhlítandi aðstöðu á svæðinu, hugsanlega með einhverjar laga- og reglugerðarbreytingar að markmiði. Það er reyndar alveg ótækt að leyfa innflutning á slíkum tækjum, en gera á sama tíma ekki ráð fyrir að þeim verði ekið eins og “þau eiga kyn til”. Með góðri samvinnu væri hægt að laða fram hugarfarsbreytingu um skaðsemi utanvegaaksturs hjá a.m.k. þeim tiltekna hópi ökumanna, sem hér er um rætt. Það er til mikils að vinna og því nauðsynlegra að hugsa málið í lausnum en vandamálum.

Utanvegaakstur

Ekið utan vegar við Oddafell.

Það er reyndar grátbroslegt að sjá og heyra opinberar nefndir og ráð leggja fram lítt ígrundaðar tillögur um úrbætur og síðan innihaldslítil loforð embættismanna um framkvæmdir – án markvissar eftirfylgju. Á meðan svo er gerist fátt annað en utanvegaaksturinn heldur áfram með tilheyrandi varanlegum afleiðingum fyrir umhverfið.
Aðspurður á fundi ferðaþjónustuaðila um aðgerðir lögreglu til að spyrna gegn utanvegaakstri á Reykjanesskaganum svaraði sýslumaðurinn í Keflavík því til að slíkur akstur þekktist ekki á svæðinu og því væri ekki ástæða til sérstakra aðgerða. Í ljósi aðgerðarleysis liðinna ára eru sérstakar aðgerðir og eftirlit ríkislögreglustjórans með utanvegaakstri á landinu kærkomin viðleytni til að bregðast við aðsteðjandi vanda og sýnilegri eyðileggingu á dýrmætri náttúru landsins.

Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/Natturuvernd/aksturutanvega
-http://www.althingi.is
-http://www.landvernd.is/frettirpage.asp?ID=1348
-http://www.icetourist.is/displayer.asp?cat_id=343
-Umferðarlög.
-Lög um náttúrvernd.
-Reglugerð um akstur í óbyggðum.
-Reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni.

Utanvegaakstur

Utanvegaakstur.