Álafosskvos – skilti
Í Álafosskvos í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:
„Árið 1896 hófst ullarævintýrið á Álafossi en þá lét Björn Þorláksson (1854-1904) bóndi og hreppstjóri á Varmá reisa ullarvinnsluhús hér á árbakkanum og nýtti vatnsaflið til að knýja tóvinnuvélarnar. Fyrsta húsið sem reist var á staðnum stendur enn en hverfur inn í húsaþyrpinguna í brekkunni hér fyrir handan.
Smám saman myndaðist húsahverfi í kringum verksmiðjureksturinn sem efldist jafnt og þétt, ekki síst í tíð Sigurjóns Péturssonar (1888-1955) en hann rak Álafossverksmiðjuna frá 1919 til dauðadags. Hér ofar í brekkunni getur að líta brjóstmynd af Sigurjóni.
Húsin í Álafosskvos eru frá ýmsum tímaskeiðum. Á árbakkanum stendur gamla sundlaugarbyggingin, ein sú elsta á landinu, vígð árið 1933 og eina sundlaugin í Mosfellssveit um áratugaskeið. Sundlaugarhúsið hefur fengið nýtt hlutverk eins og önnur hús hér í kvosinni. Enginn ullariðnaður er stundaður lengur í Álafosskvos en hér er þó ullarafurðasala þannig að gamli ullarandinn svífur enn yfir vötnunum.“