Álfsnes – Glóra – Niðurkot – Urðarkot – Háheiði – Víðines – Þerney
Á Álfsnesi á Kjalarnesi eru tóftir þriggja bæja, Álfsness, Glóru og Niðurkots. Lítið er til af heimildum um þessi gömlu kot, en talsverðar leifar sjást enn eftir búsetu á Nesinu.
Bæði Glóra og Niðurkot eru í raun ágæt dæmi um heilstæðar
búsetuminjar, annars vegar frá 19. öld og hins vegar frá 17. öld. Flestar eldri minjar við bæinn Álfsnes eru horfnar undir núverandi íbúðar- og útihús, en þessar minjar hafa fengið að vera svo til óraskaðar allt fram á þennan dag.
SORPA er með urðunarstað á Álfsnesi, en ekki er að sjá að þar hafi verið hróflað við minjum. Þær minjar, sem næst standa, eru 19. aldar fjárhústóft frá Álfsnesi. Háir moldarbakkar eru fast við tóftina, en hún hefur fengið að standa vestan í Háheiðarmýrinni, austan við Álfsnesbæjarins.
Nýr Vesturlandsvegur; Sundabrautin svonefnda, á að liggja um þetta svæði. Við það mun verða verulegt rask og ef ekki verður að gætt munu minjar framangreindra bæja (hjáleiga), hverfa eins og aðrar slíkar á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Segja má að minjar nær allra bæja, sem núverandi byggð stendur á, hafi verið þurrkaðar út (að Árbæ undanskyldum). Dýrmætustu minjasvæðin, sem eftir eru næst höfðuborgarsvæðinu, eru Þorbjarnarstaðir í Hraunum, sunnan Hafnarfjarðar, og þessir bæir, sem hér er fjallað um. Stundum þarf einungis örlitla hugsun og frumkvæði til að koma í veg fyrir varanlegan skaða. Ágætt dæmi voru framkvæmdirnar við Tjarnargötu í Reykjavík á fimmta áratug síðustu aldar. Ef einungis einn maður hefði staðið keikur gegn byggingaráformum Hjálræðishersins og húss Happdrættis Háskólans; og sagt sem svo: „Færum okkur 50 metra ofar í landið“ þá ættu landsmenn nú elstu minjar búsetu hér á landi (talið er víst að bær Ingólfs hafi verið þar sem fyrrnefnd hús standa nú).
Oft munar ekki meiru milli feigs og framtíðar þegar minjarnar eru annars vegar. Allt og oft hafa misvitrir forsvarsmenn skipulagsmála fengið að ráða ferðinni. Þeir hinir sömu virðast, af dæmum að meta, hvorki hafa þekkingu né áhuga á fortíðinni og hafa því, hingað til a.m.k., komist upp með að eyðileggja ómetanlega sögulega verðmætasköpun framtíðarinnar.
Þegar FERLIR kom á svæðið var dagsbirtan u.þ.b. að sigra næturmyrkrið á einum dimmasta degi ársins. Við blöstu urðunarhaugarnir og lyktin var eftir því. Loftmyndir af svæðinu voru dregnar fram og líkleg mannvirki áætluð.
Minjasvæðin virtust aðallega tvö; Glóra og Niðurkot. Ofarlega á túnum Víðinsess vitist móta fyrir tóftum. Annars er það kapítuli út af fyrir sig hversu erfitt það getur verið fyrir áhugasama einstaklinga að nálgast upplýsingar og fróðleik hjá annars kostnaðarsömum ríkisfyrirtækjum. Að vísu er Örnefnastofun Íslands (Svavar og Jónína) alger undantekning þar frá, en aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki virðast „gleypa“ allar upplýsingar og leggja sig fram við að torvelda öðrum aðgengi að þeim. Rándýrar fornleifaskráningar eru sumar hverjar ekki aðgengilegar nema gegn gjaldi og ef fá á eina loftljósmynd frá Landmælingum Íslands þá kostar hún þúsundir króna.
Að vísu hefur þetta ekki bitnað svo mjög á FERLIR því á þeim bænum hafa þeir einkaðailar, sem leitað hefur verið til, verið einkar hjálpsamir, auk þess sem þátttakendur hafa jafnan verið sjálfum sér nægir, þ.e. þeir hafa leitað og lesið úr torveldum landfræðilegum upplýsingum líkt og aðrir lesa texta í bókum. Aukinheldur hafa þeir sýnt frábæran árangur, bæði í starfi og námi. Einn nemanna fékk t.a.m. 10.0 í fornleifaskráningu við HÍ. Hinar fjölmörgu lýsingar á vefsíðunni eru ágætt dæmi um þetta. Í dag er svo komið að fornleifafræðingar nota vefsíðuna við störf sín og vita til hennar, bæði í myndum og texta.
Áður en lagt hafði verið af stað var leitað til Bjarka Bjarnasonar, höfundar Sögu Mosfellsbæjar. Hann er auk þess sá aðili er hvað best gjörþekkir sögu og minjar bæjarlandsins. Reyndar tilheyrir svæðið nú sameinuðu Kjalarneshreppi og Reykjavík (frá árinu 1998).
Bjarki Bjarnason svaraðir fyrirspurninni eftirfarandi: „Ég kannast við bæjarnafnið Glóru en hins vegar er hvorki Glóra né Niðurkot nefnt í Jarðabókinni [1703] og hafa væntanlega ekki verið í byggð þá. Aftur á móti eru tvær hjáleigur nefndar í jarðabókinni, annars vegar Landakot, sem þá var nýfarið í eyði, og hins vegar Sundakot. Þessi kot virðast hafa verið hjáleigur frá Þerney“.
Þegar lengra er haldið virðist ljóst að Landakot var hjáleiga Þerneyjar í eyjunni sjálfri. Sundakot virðist að öllum líkindum hafa verið umrætt Niðurkot enda benda tóftirnar til þess að þar hafi verið byggð áður en Jarðábókin var skrifuð (sjá uppdrátt).
Í Jarðabókinni 1703 er getið um Landakot, Sundakot, Vidernes, Alsnes (Alfsnes), Urðarkot (Hallsneshjáleiga/Glóra) og Háheide, auk Þerneyjar. Um síðastnefndu jörðina segir m.a.: „…Hestlán eitt til alþingiss. Dagslættir tveir til Viðeyjar hvort sem á býr einn eður fleiri, og fæðir bóndinn sig sjálfur síðan í tíð Jóhanns Klein; alt þángað til var þar matur gefinn þrímælt, en nú alleina lítilsháttar af mjólk, tveimur eður þrem, sem lítt mætti einum nægja í senn. Hrísshestar tveir og kann bóndinn þeirra ekki að afla nær en suður í Almenningum, og kostar það þriggja daga tíma.
Móhestar oftast tveir, skjaldan einn. Móskurður til eldiviðar, síðan aflögðust skipaferðir í Heidemanns tíð; skal bóndinn skera tíu fóta breiða gröf og þrjátíu fóta lánga… Torfrista og stúnga er eydd í eyjunni að mestu og því sókt á fastaland, og liggur þar annar helmingur þessarar jarðar… Heimræði er árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en verstaða hefur hjer aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk… Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett… Kirkjuvegur lángur og erfiður.“
Um Landakot segir: „Hjáleiga, nú í auðn og hefur so verið í 3 ár. Hún var bygð að nýju, þar sem ei hafði fyr býli verið fyrir vel þrjáríi árum… Kvaðir voru mannslán ár um kring og dagsláttur einn, hvortveggja til heimabónda. Item að styrkja til móskurðar á Bessastöðum bóndans vegna… Þessi hjáleiga stendur á eyjunni.“
Um Sundakot segir: „Önnur hjáleiga á fastalandi… Ábúandinn Magnús Hákonarson… Kvaðir eru mannslán árið um kring utan sláttar. einn dagsláttur. Hvortveggja til heimabóndans… Sjávarhlunnindi hefur hjáleigan engin. Átroðningur er mikill. Þessi hjáleiga er eldri en menn til minnast.“
Um Vidernes (Víðines) segir: „Heimræði árið um kring þegar fiskur gekk til sunda, en skipgata löng.“ Víðines er á sunnanverðu Álfsnesi. Bendir þetta til þess að gert hafi verið út frá Þerney þó svo að lending sé víða góð við vestanvert Álfsnes. enda voru kvaðir á jörðinni sbr.: „Kvaðir eru mannslán um vertíð og hálfur skiphlutur utan vertíðar, ella mannslán árið um kring utan sláttar…“
Um Alsnes (Alfsnes/Álfsnes) segir: „Tún og engi meinþýft… Landþröng eru mikil og því er þessari jörð til beitar og annara nytja forn eyðijörð hjer nær, sem kallast Háheiði, segja menn, að þá hafi hjer landskuld aukin verið til helminga fyrir þessarar eyðijarðar brúkun. Stórviðri skaðar stundum hús og hey. Kirkjuvegur er lángur og erfiður. Vatnsból er slæmt en skortir þó ekki fyrir pening. Neysluvatn þarf annarstaðar að sækja.“
Um hjáleiguna Urðarkot (Glóru) segir: „Jarðardýrleiki reiknast með heimajörðinni… Vatnsból er á heimajörðinni. (Í Jarðabókinni er á lausu blaði brjef um Urðarkot og hljóðar svo:
Landskuld í Hallsnesshjáleigu, sem kölluð er Urðarkot eður Glóra, betalast með fiski ef til er eður peningum uppá fiskatal).
Hér virðist Urðarkot, Hallsneshjáleiga og Glóra vera ein og sama bújörðin, auk þess sem Niðurkot og Sundakot virðast vera þær sömu. Af landamerkjavörðum að dæma er að sjá að Niðurkot hafi tilheyrt Þerney sem og Gunnunes. Þá er ljóst að Víðines hafi verið þess megin fyrrum.
Allt eru þetta hinar merkilegustu upplýsingar í ljósi þeirra minja, sem enn má finna á vestanverðu Álfsnesinu.
Við Glóru má sjá bæði tvöfalda fjárhústóft með miðjugörðum, sauðakofa, matjurtargarða o.fl. Af ummerkjum að dæma virðist Glóra hafa verið byggð upp úr eldri hjáleigu (Urðarkoti og Hallsneshjáleigu), en öll núverandi ummerki benda til 19. aldar býlis (reglulaga með fjórum stöfnum mót vestri), auk þess sem túngarðurinn er enn „reisulegur“ á köflum. Hlaðið er um brunnstæðið norðaustan bæjarins og matjurtargarður gefa góða vísbendingu um síðaldur bæjarins.
Niðurkot (Sundakot) er augljóst dæmi um 17. aldar bæ, sem fyrr segir. Hann er ekki óreglulegur, en ekki heldur reglurlegur. Fjós er norðan í húsaþyrpingunni, sem er af einfaldri gerð. Baðstofa og búr eru mót vestri, þótt dyr baðsofunnar snúi að Þerney. Lendingin er og var neðan bæjarins, sem bendir til þýðingu hjáleigunnar sbr. Jarðabókina 1703. Haðinn garður og gerði eru vestan, sunnan og austan bæjarins. Tóft, sennilega sauðakofi, er skammt suðaustar (innan túngarðs), og einfalt fjárhús sunnar. Það virðist byggt eftir seinni tíma forskrift og hefur því væntanlega tilheyrt Niðurkoti frekar en Sundakoti. Norðvestar virðist vera hleðsla af fiskgeymsluhúsi og mun vestar er hlaðin rétt í gróningum ofan við ströndina. Vörin og aðallending Þerneyjar er neðan við bæinn, malarfjara, sem enn er notuð til flutnings fólks út í Þerney. Bæjarstæðið þar „kallar“ á lendinguna, enda hefur bæði þörfin og mikilvægið augljóslega verið mikið fyrrum.
Í Þerney var kirkja á 13. öld. Á 18. öld var leiguliði bóndans verðlaunaður með konungsúrskurði fyrir haglega gerða garðhleðslu.
Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum, hefur m.a. skrifað um „Uppruna íslensku kýrinnar og innflutning á lifandi nautgripum og erfðaefni“. Þar segir kemur Þerney við sögu sbr.: „Um landnám mun svipaður nautgripastofn hafa verið á öllum Norðurlöndunum. Samkvæmt tiltækum upplýsingum, sem greint er frá hér á eftir, virðist íslenska kúakynið vera af norskum uppruna. Það er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.
Í Íslandslýsingu sinni frá því um 1590 getur Oddur Einarsson biskup þess, að flestir nautgripir á Íslandi séu hyrndir en kollótt naut komi þó fyrir. Nautgripir frá Danmörku voru nokkrum sinnum fluttir til landsins á 19. öld. Áhrif þess innflutnings eru talin mjög lítil. Norskur fræðimaður, O. Bæröe, sem ferðaðist um Ísland árið 1902, taldi íslenska nautgripi líkjast mest nautgripum á Þelamörk og í Austurdal í Noregi. Umfangsmiklar blóðrannsóknir voru gerðar á íslensku nautgripunum árið 1962 og samanburður gerður við nautgripakyn í Noregi. Niðurstaðan var sú að íslenskir nautgripir höfðu mjög svipaða blóðflokkagerð og gömlu landkynin í Noregi, þ.e. Þelamerkur-, Dala- og Þrændakýr.
Í „Lýsingu Íslands“, sem út kom árið 1919, getur Þorvaldur Thoroddsen þess að lengi hafi verið talað um nauðsyn þess að bæta kúakynið, en ekki hafi orðið af framkvæmdum nema það að menn fengu sér við og við útlendar kýr á 18. og 19. öld. Innflutningur á 19. öld, sem Þorvaldur nefnir er þessi: 1816 fékk Magnús Stephensen frá konungsbúum Sjálandi rauða kvígu og bola. 1819. Fékk hann veturgamlar 2 kvígur frá Holtsetalandi (óvíst um innfl. M.Steph. 1831).
Magnús gerði tilraunir með dönsku nautgripina í Viðey. Fyrir 1840 voru danskar kýr fluttar til nokkurra staða á Íslandi skv. sóknarlýsingum. 1933 komu til landsins frá Skotlandi 5 nautgripir af 4 mismunandi holdakynjum. Sagt er frá þessum innflutningi í bókinni „Þættir um innflutning búfjár og Karakúlsjúkdóma“, sem út kom 1947. Gripirnir komu með Brúarfossi til Reykjavíkur hinn 4. júlí 1933 og voru fluttir samdægurs í einangrun til Þerneyjar, en þá var þar bóndi, Hafliði að nafni, með fjölskyldu sína og hafði búið þar m.a. við nautgripi og sauðfé.
Dýralæknirinn í Reykjavík var fjarverandi vegna framboðs til Alþingis, þegar gripirnir komu og var aðstoðarmaður hans Guðmundur Andrésson (ekki dýralæknislærður) fenginn til að skoða nautgripina áður en þeir voru teknir úr skipinu. Taldi hann þá heilbrigða, en ekkert vottorð var gefið út um það. Hinn 10. júlí sama ár voru fluttar til Þerneyjar 20 Karakúlkindur frá Þýskalandi. Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir í Borgarnesi var fenginn til að gera læknisskoðun á fénu og framkvæmdi hann skoðunina þegar kindurnar voru teknar í land í Þerney og síðan skoðaði hann tarfana, sem þangað voru komnir áður, en kvíguna náðist ekki í til skoðunar. Ásgeir taldi tarfana heilbrigða og hina prýðilegustu að útliti. Samkvæmt skýrslu Hannesar Jónssonar dýralæknis fóru að koma hrúðraðir hárlausir blettir á eitt nautið u.þ.b. einni viku eftir að gripirnir komu til Þerneyjar og fylgdi því mikill kláði.
Eftir 3-4 vikur voru allir gripirnir komnir með útbrot. Hannes taldi sjúkdóminn vera Hringorm (Hringskyrfi, Herpes tonsurans) og var sú sjúkdómsgreining seinna staðfest á Rannsóknarstofu Háskólans. Eftir að upplýsingar höfðu fengist erlendis frá og talsverðar vangaveltur var ákveðið að lóga gripunum. Heimanautgripir í Þerney smituðust einnig og voru felldir vorið eftir. Fólk í Þerney smitaðist einnig af hringskyrfi en hvorki sauðfé né hross, sem þar voru. Lógað var öllum innfluttu gripunum 5 að tölu og var það gert hinn 9. janúar 1934, en kálfur undan Gallowaykúnni þá tæplega vikugamall hafði verið tekinn úr karinu og fluttur inn í eldhús. Galloway-kálfurinn í Þerney var fluttur samkvæmt leyfi stjórnvalda í land hinn 16. febrúar 1934. Hann var hafður í einangrun í kjallara á bænum Blikastöðum til 27. apríl sama ár. Hann sýktist ekki og hringskyrfi var upprætt í Þerney.
Glóra (Urðarkot) fór í eyði 1896, tíu árum á eftir Niðurkoti (Sundakoti).
Gengið var um Gunnunes og til baka. Í bakaleiðinni voru m.a. ígrunduð landamerki Þerneyjar o.fl. (3:03).
Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, bls. 329-335.
-Sigurður Sigurðarson dýralæknir, Keldum.
-Bjarki Bjarnason.
-Kjalnesingar, 1989.