Alþingishátðin 1930

Á vefsíðu Seðlabankans kemur m.a. fram að gefnir hafi verið út sérstakir Alþingishátíðarpeningar í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 þar sem minnst var eitt þúsund ára afmæli Alþingis Íslendinga.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Listamennirnir Einar Jónsson, Baldvin Björnsson, Tryggvi Magnússon og Guðmundur Einarsson frá Miðdal hönnuðu útlit peninganna og þeir voru slegnir í Þýskalandi. Söluverðið var höggvið í röndina á þeim, 2 kr., 5 kr., og 10 kr. en þeir voru aldrei gerðir að gjaldgengri mynt. Þó var tekið sérstaklega fram í lögum um þessa minnispeninga að hægt væri að breyta þeim í lögeyri með konungsúrskurði. Þrátt fyrir að peningunum hafi verið ætlað tiltekið hlutverk á sínum tíma eru þeir sem listaverk öllu merkilegri.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Á 43. fundi Efri deildar Alþingis á 41. löggjafarþingi árið 1929 kemur fram í 123. máli Jóhannesar Jóhannessonarum ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930 að í fraumvarpi þingsins, I. lið, er gert ráð fyrir að “láta slá sjerstaka minnispeninga í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis, en til þess að minnispeningar þessir verði gjaldgeng mynt þarf lagaheimild”.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1962 er grein Kristjáns Eldjárns um “Alþingispeningana“.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Þar segir m.a.: “Að tilhlutan undirbúningsnefndar alþingishátíðarinnar 1930 voru gefnir út þrír minnispeningar, sem seldir voru á 10, 5 og 2 krónur.
Peningar þessir hafa ætíð verið kallaðir „minnispeningar” á íslenzku og ekkert annað. Í bréfaskiptum útlendra manna við undirbúningsnefndina nefnast þeir ýmsum nöfnum, t. d. „Jubileumsmonter”, „Erindringsmonter”, „jubileumspenge”, „minnepenge”, „erindringsmedaljer“, „commemorative coins“, „celebration coins“, „Jubiláumsmiinzen“, „Gedenkenmiinzen”, „Medaillen”. Georg Galster í Kaupmannhöfn, sem er heimsþekktur myntfræðingur, kallar þá „Erindringsmonter” í bréfi til alþingishátíðarnefndar 15. október 1930 og sömuleiðis í Numismatisk Forenings Medlemsblad, Bind XIII, janúar 1932, bls. 5, en bætir þó við að þeir hafi „Karaktær af Medailler“.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – framhlið.

Dæmi þessi sýna, að nokkur óvissa hefur frá upphafi ríkt um það, hvernig þá skyldi flokka. Og nú er svo komið, þegar minnispeningarnir eru orðnir þekktir og eftirsóttir af söfnum og söfnururn víða um heim, að nokkuð er á reiki, hvort þá skuli flokka með „myntum“ eða „medalíum“. Hjá Wayte Raymond, Coins of the world, twentieth century issues, 1901—1950, 4. útg., New York 1951, eru birtar myndir af öllum minnispeningunum og þeir taldir með íslenzkum myntum (coins).
Orðið ,,minnispeningur“ — og bókstaflegar þýðingar þess á erlend mál — getur átt nokkurn þátt í þeim ruglingi og misskilningi, sem hér er á orðinn. En „minnispeningur“ merkir (og á að merkja) nákvæmlega hið sama og nefnist „medalíur” á erlendum málum (Medailler, medaljer, Medaillen, medals). Á því er enginn vafi, að alþingishátíðarpeningarnir eru, „medalíur“, en ekki myntir, og eru því rangt flokkaðir í hinum amerísku ritum, sem til var vitnað.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – bakhlið.

Á fundi sameinaðs alþingis 14. maí 1926 var samþykkt að kjósa 6 manna nefnd til þess að gera tillögur um hátíðahöld 1930 í minningu um stofnun alþingis. Menn voru kosnir í nefndina á þessum sama fundi, og hélt hún fyrsta fund sinn hinn 15. október sama ár og starfaði síðan samfleytt þangað til 26. nóvember 1931, er síðasti fundurinn var haldinn.
Minnispeningamálið kom ekki til umræðu í alþingishátíðarnefndinni (að því er ráðið verður af gerðabók hennar) fyrr en á fundi 8. október 1928.2 Þá var framkvæmdastjóra hennar, Magnúsi Kjaran, falið að ræða við nokkra þekkta íslenzka listamenn um gerð minnispeninga og annarra minjagripa, og varð árangur þessara viðræðna sá, „að framkvæmdastjóra var heimilað á næsta fundi, 15. október, að láta gera uppdrætti að 5 og 10 kr. minnispeningum, er gefnir yrðu út 1930 sem íslenzk skiptimynt“.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – framhlið.

Framkvæmdastjóri skrifaði nokkrum listamönnum og bað þá um tillögur eða fyrirmyndir að minnispeningunum, og varð niðurstaðan sú, að samþykkt var að greiða listamönnunum Einari Jónssyni, Baldvin Björnssyni, Tryggva Magnússyni og Guðmundi Einarssyni þóknun fyrir tillögur þeirra. Höfðu þeir að áliti dómnefndar orðið hlutskarpastir, enda voru peningarnir gerðir eftir tillögum þessara manna.
Hinn 10. apríl 1929 samþykkti nefndin „að biðja allsherjarnefnd efri deildar alþingis að flytja frumvarp til laga, er ritari hafði samið, um heimild fyrir ríkisstjórnina til nokkurra ráðstafana vegna alþingishátíðarinnar 1930“. Fyrsta atriðið var ,,um útgáfu minnispeninga og að þeir séu gjaldgeng mynt“. Nefndin virðist sem sagt hafa hugsað sér í upphafi, að minnispeningarnir yrðu þegar í stað lögleg, gjaldgeng skiptimynt. Hefðu þeir þá að öllu leyti orðið sambærilegir t. d. við 2 kr. minningarpeningana, sem Danir gáfu út á 25 ára ríkisstjórnarafmæli Kristjáns konungs tíunda (og fleiri slíkir peningar eru til).

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Í lagafrumvarpi því, er ritari samdi, er hins vegar ekki gert ráð fyrir þessu,, heldur aðeins að hægt sé með konungsúrskurði að gera minnispeningana að gjaldgengri mynt, og verður nú ekki séð, hvers vegna á þetta ráð var brugðið. Það atriði laganna, sem minnispeningana varðar, er svohljóðandi: „Ríkisstjórninni er heimilt: Að láta slá sérstaka minnispeninga í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis 1930. Má með konungsúrskurði ákveða, að peningar þessir skuli vera skiptimynt, er gjaldgeng sé hér á landi, og sé gildi þeirra 10 kr., 5 kr. og 2 kr.“

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – franska útgáfan (framhlið). Þessi minnispeningur var gefinn út af nefnd Íslandsvina í París í tilefni Alþingishátíðarinnar árið 1930. Peningurinn var sleginn í myntsláttu Frakka eftir mynd Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og gengur hann oft undir nafninu Ásmundarskjöldurinn. Peningurinn var afhendur konungi, ríkisstjórn, þingmönnum og fleirum ásamt því að vera seldur. Peningurinn var endursleginn um 1970.

Úr greinargerðinni: „I. liðurinn er um útgáfu minnispeninga. Er ætlazt til þess, að þeir verði úr silfri og verði gefnir út 10 þús. 10 kr. peningar, 10 þús. 5 kr. peningar og 20 þús. 2 kr. peningar, eða samtals að gildi 190 þús. kr. Gert er ráð fyrir, að helmingur upplagsins verði seldur erlendis.”

Árið 1954 spurðist sendiráð Íslands í París fyrir um minnispeninginn hjá myntsláttunni, og kom þá fram að hann hafði verið sleginn bæði í brons og silfur. Verðið var 5900 frankar fyrir silfurpening, en 970 fyrir bronspening. Þjóðminjavörður skrifaði sendiherra Íslands í París 1959 og bað hann enn grennslast fyrir um sögu peninganna, og einkum lék honum hugur á að fá vitneskju um upplag þeirra, hversu stórt hefði verið. Sendiherra brást vel við þessu, en forstjóri myntsláttunnar taldi, að ekki væri hægt að finna neinar upplýsingar um þessi efni í skjalasafni myntsláttunnar. En í bréfi til Vilhjálms Vilhjálmssonar, verzlunarmanns í Reykjavík, árið 1962, segir myntsláttan, að slegnir hafi verið 10 silfurpeningar, og eignaðist Þjóðminjasafnið einn þeirra það ár.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930 – franska útgáfan; bakhlið.

Lýsing peningsins: Minnispeningur úr bronsi (og silfri, samkvæmt áðursögðu). Framhlið: Almynd af manni, sem er nakinn að öðru en því að hann virðist hafa einhvers konar skikkju um hálsinn. Hægri hendi heldur hann sverði hátt á loft, en bendir hinni vinstri fram úr stílfærðu klettaskarði. Ofan við vinstri handlegg hans áletrun: ÍSLAND, og neðan við nafnið ártalið 1930. Neðst til hægri (framan við fætur mannsins) A. S., upphafsstafir listamannsins. Bakhlið: Skjaldarmerki Íslands með landvættunum fjórum, mjög stílfærðum. Neðan við nafnið ÍSLAND og þar undir ártalið 1930. Innhöggvið á röndina: BRONZE, en til er einnig að þar standi MONETA, og á silfurpeningunum stendur Í ARGENT. Þyngd: 139,5 grömm, en silfurpeningarnir 146 grömm. Þvermál: 68 mm.

Ásgrímur Jónsson

Ásgrímur Jónsson.

Samkvæmt heimild listamannsins, Ásmundar Sveinssonar, táknar framhliðin fund Þingvalla. Búið er um peningana í snotrum gulleitum pappaöskjum, sem klæddar eru með einhvers konar skinneftirlíkingu. Á lokinu stendur með gylltum stöfum: COMITÉ PARISIEN DU MILLENAIRE og sú áletrun er á eintaki Þjóðminjasafnsins af peningnum.
Forstjóri frönsku myntsláttunnar, herra André Dally, var gerður stórriddari fálkaorðunnar árið 1931 fyrir hugulsemi sína í þessu máli.”

Heimildir:
-https://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettasafn/frett/2016/12/06/Myntsafn-Sedlabanka-og-Thjodminjasafns-30-ara-i-dag/
-https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=41&rnr=1734
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1962, bls. 115-127.
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.