Arnarfellslabbi

Arnarfell

„Í Arnarfelli skammt frá Krýsuvík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur.
Var hann svo kallaður Arnarfell-23af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsuvíkurmýrar, en þar var almennur áfangastaður og lágu menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli.
Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsvíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsuvíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Arnarfell-25Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsuvík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar.
„Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,“ segir bóndi; „get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.“
„Rétt getur þú til,“ segir Björn, „sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.“
„Kaup vilda ég eiga við þig,“ segir bóndi; „vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.“
Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsuvík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.“

Heimild:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, bls. 593.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.