Grænhóll

 Ætlunin var að leita að svonefndu Grænhólsskjóli á mörkum Lónakots og Hvassahrauns. FERLIR hafði áður reynt að finna skjólið, en tókst það ekki í það sinnið. Í þeirri lýsingu sagði m.a.:

Grænhóll

Grænhóll – merki Landmælinga Íslands.

“Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h.”

Eins og þekkt er orðið er FERLIR ekki á því að gefast upp þótt fara þurfi stundum nokkrar ferðir til að leita nafnkenndum mannvistarleifum.
Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun segir m.a.: “Þá tekur við stórt svæði, klettar og berg niður með sjó og við sjó. Þetta heitir einu nafni Hvalbása, þar rak hval. Upp af því er svo nafnlaus hraunfláki alla leið upp að Skyggni, nema Selningaklöpp er smáköpp niður og austur frá Skyggni. Grýlholt er brunabelti þar austur frá og Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól og þar upp af Grýlhólum upp að vegi er hraunhólabelti sem heitir Krapphólar.”

Grænhólsskúti

Í örnefnalýsingu fyrir fyrir Lónakot segir auk þess (Ari Gíslason): “Vestast í landi jarðarinnar er jaðarinn á Hraunsnesi, en það er tangi, sem gengur frá hrauninu fram í sjó og er á hreppamerkjum. Þar nokkuð ofar er í hrauninu hæð, sem heitir Skógarhóll, og enn ofar er Grænhóll. Er þá komið með merkin upp að vegi.”
Gísli Sigurðsson bætti um betur: “Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól.”
Í framangreindum lýsingum á Grænhólsskúti að vera suðaustur eða austur af Grænhól. Þar hafði verið leitað áður svo ákveðið var að leita á svæði innan tiltekins radíus frá Grænhól. Við þá leit fannst skjólið; innan við eitthundrað metra suðaustur af hólnum – í skjóli fyrir austanáttinni, Lónakotsmeginn við markagirðinguna. Skjólið er austast í grunnu grónu ílöngu jarðfalli. Hlaðið hefur verið skútann til hálfs og dyr að vestanverðu. Grjót hefur fallið í dyrnar. Inni er sæmilega slétt gólf, þakið tófugrasi.
Frábært veður. Leitin tók 22 mín.
Útsýni frá Grænhólsskúta að Grænhól