Straumur

Húsið í Straumi var reist árið 1927, fyrir Björn Bjarnason barnaskólakennara og síðar skólastjóra Barnaskólans í Hafnarfirði, eftir teikningu Guðmundar Einarssonar trésmíðameistara og framkvæmdarstjóra í Dverg.

Straumur

Straumur – ljósmyndina tók Sigríður Erlendsdóttur um 1930.

Ber húsið keim af hönnun Guðmundar en álíka kvistur er á húsi hans, Hverfisgötu 3 sem hann teiknaði árið 1925. Björn Bjarnason hafði eignast Straum árið 1918 og stóðu þá þar eldri byggingar sem urðu eldi að bráð snemma árs 1927.
Í virðingagjörð sem gerð var árið 1928 er íbúðarhúsinu lýst þannig: „Íbúðarhús úr steinsteypu, byggt 1927. Vandað vel. Tvær íbúðarhæðir, steypt gólf og loft, hátt ris með geymslu og þurrklofti. Tvídyrað. Snoturt útlits.

Hverfisgata 3

Hverfisgata 3.

Skýli heilt með járnþaki við aðrar útidyrnar 3 x 2 ½ m. Stærð 8,6 x 8m. meðalhæð um 6,5m. Á neðri hæð eru 3 stofur, eldhús, búr og gangur (forstofa) á efri hæð: 4 herbergi og gangur. Geymsla á 3. lofti.

Útveggir steyptir: að innan lagðir pappa, korklagi og svo veggjapappi á sléttri súð. Milliloft steinsteypt. Dúkar (linoleum) á gólfum. 1 steinsteyptur reykháfur. 3 ofnar, 2 þeirra ósettir niður, 1 eldavél (glerhúðuð)“. Enginn kjallari en steypt breið stétt á 3 hliðar við íbúðarhúsið, sem stendur á klöpp. Virt á 16.700 kr.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason – Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930.

Útihúsin: „1. Heyhlaða (við húsgafl) tekur um 600h. Steyptir veggir, járnþak, tvíreist. 2. Fjós við, fyrir 13 gripi, steyptir veggir, járn og burðaþak, steypt gólf og áburðargryfjur, vatni dælt að hverjum grip (og í húsið). 3.Fjárhús, tekur 200 að 2 görðum. Steyptir veggir og gólf með baðþró og brunni (300 fjár baðað á kl.st.) járnþak, rimlar á gólfi. „ í virðingu frá 1927 þá af húsinu nýbyggðu eru steypt baðáhöld í fjárhúsinu og fjósið með 14 básum.
Bjarni Bjarnason var kennari og skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Til að drýgja tekjurnar vann hann við heyskap á sumrin þar sem færi gafst en árið 1918 keypti hann Straum og rak þar búskap í rúman tug ára en aldrei bjó hann í húsinu heldur hafði hann þar ráðsmann og leigði út herbergi. Straumur var fyrirmyndar bú, er haft eftir bónda úr Borgarfirði sem kvaðst „aldrei hafa séð 14 kýr í einu fjósi jafn glæsilegar“.

Straumur

Straumur 1935.