Arnarseturshraun – aldur
Ætlunin var að skoða hluta Arnarseturshrauns norðvestanvið Arnarsetur. Þar er hraunið nokkuðs létt og mikið um yfirborðsrási, auk þess sem þar eru þekktir hellar, s.s. Hnappur og Hestshellir.
Afstapahraun er frá sögulegum tíma þrátt fyrir að í Vallholtsannáll segi frá gosi þarna 1661. Við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því.
Í goshrinu um 1226 komu upp, auk Arnarseturshrauns, nokkur gos á Reykjanesi, s.s. Yngra Stampahraun, (Klofningahraun), Eldvarpahraun og Illahraun. Um þetta leyti félll svokallað Miðaldalag. Harðindi fylgdu í kjölfarið.
Arnarseturshraunsgosið var blandgos, en svo gos sem bæði mynda hraun og gjósku. Kvikan er þá seigari en í hraungosunum. Þegar gasið brýtur sér leið úr kvikunni veldur það kvikustrókavirkni og smásprengingum.
Gjall- og klepragígar geta ýmist verið á sívalri eða aflangri eldrás. Þeir myndast einkum í byrjun goss þegar kvikustrókar þeytast upp úr gígnum. Nái kvikusletturnar, sem þeytast upp úr gígnum, ekki að storkna áður en þær lenda á gígbarminum hleðst upp klepragígur úr seigfljótandi kvikuslettum. Storkni sletturnar hins vegar á flugi sínu úr gígskálinni lenda þær þyngstu sem gjall á gígbarminum og mynda gjallgíg umhverfis gosrásina. Kvikan frá blandgígum myndar yfirleitt apalhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið ugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum.
Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum.
Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.
Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu skýrslu um aldur Arnarseturshrauns áruð 1989. Náttúrufræðistofnun Íslands gaf hana út fjölritaða. Í ágripi skýrslunnar kemur m.a. fram að aldur hraunsins hefði verið fundinn með könnun öskulaga undir og ofan á því.
Þá segir m.a.: „Milli Vogastapa og Svartsengisfells liggur Grindavíkurvegur að mestu í unglegu hrauni. Jón Jónsson (1978) hefur lýst hrauninu og kallar það Arnarseturshraun, en einn einn hólanna við stærstu gígana sem mynduðu hraunið heitir Arnarsetur. Jón telur að hraunið hafi runnið á sögulegum tíma. Einnig birti hann meðaltal af þremur efnagreiningum.
Arnarseturshraun er að mestum hluta komið úr um 400 m langri gígaröð sem liggur um 500 m austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra-Skógfell. Í upphafi gossins hefur gíragörðin verið mun lengi eða a.m.k. um tveir km. Um einn km norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem virk var í gosbyrjun. Hún er um 500 m löng en slitrótt. Gígarnir eru litlir, 4-6 m háir. Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarainnar hafa færst í kaf nema áðurnefndir gígkoppar. Ekkert er vitað um framhald gossprungunnar til suðurs en þar er hraunið mjög þykkt og gígar horfnir ef einhverjir hafa verið. Í lok gossins var gosvirkni einkum í þremur eða fjórum gígum. Nyrst og syðst var einkum hraunrennsli en á miðju gígaraðarinnar hlóðust upp gjallgígar. Nyrsti hluti gígaraðarinnar stefnir um N50A en aðalgígarnir stefna N40A. Upphaflega gossprungan hefur ekki verið í einni línu, heldur hefur hún verið skástíg og hliðrast til hægri, sem sést af því að nyrðri gígarnir eru ekki í beinu framhaldi af aðalgígunum.
Aðalgígarnir eru nálægt suðausturjaðri hraunsins. þeir eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið tilnorðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunsflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp ogþar er hraunið mjög úfið. Eins og títt er um sprunguhraun á Reykjanesskaga er harunið að jafnði þeim mun úfnara og verra yfirferðar er fjær dregur gígunum, en nærri þeim er það afar blöðrótt og fraukennt og brotnar undan fæti.
Arnarseturshraun er yngsta hraunið á þessu svæði og liggja jaðrar þess alls staðar út yfir aðliggjandi hraunfláka. Suður- og suðausturjarðrar þess liggja út yfir hraun sem að mestu eru runnin frá unglegri gígaröð austan við Stóra-Skógfell og hefur hún verið kennd vuð Sundhnúk (Jón Jónsson 1973). Norðan til hefur Arnarseturshraun runnið út fyrir fornlegt og mikið sprungið dyngjuhraun, ættað frá stórri dyngju norðan undir Fagradalsfjalli og hefur hún af jarðfræðingum verið kölluð Þráinsskjöldur. Norðvesturjaðarinn liggur út yfir annað dyngjuhraun, ámóta fornlegt og sprungið. Það er komið frá dyngju sem kölluð hefurverið Sandfellshæð eftir dyngjuhvirflinum sem er um tvo km vestur af jarðhitasvæðinu í Eldvörpum. Hraun sem komin eru úr Eldvörpum og stórum stökum gíg skammt suður af Þórðarfelli hverfa inn undir suðvesturjaðar arnarsteurshrauns, en suðurjaðarinn liggur eins og austurjaðarinn út á Sundhnúkshraun.
Ekki hafa neinar sprungur fundist í Arnarseturshrauni svo vitað sé en augljóst er að berggrunnurinn undir því er mjög sprunginn. Gliðnun eða umbrot virðast því ekki hafa átt sér stað á svæðinu eftri að hraunið rann. Illahraun, sem komið er úr gígum um fjóra km suðvestur af Arnarsetursgígunum, er einnig ósprungið og því hugsanlega frá svipuðum tíma. Rétt er að benda á að ekki er ljóst hvernig gosbeltið hegðar sér á svæðinu frá Reykjanesi að Fagradalsfjalli, þ.e. hvort líta beri á það sem eina sprungurein eða fleiri. Af þessum sökum er aðeins hægt að draga ályktanir af arnarseturs- og Illahraunsgosinu um næsta nágrenni en ekki sprungureinina í heild.
Jón Jónsson (1978, 1983) telur flatarmál Arnarseturshrauns vera um 21.84 km2. Jón gerði ráð fyrir að norðurhluti gígaraðarinnar frá henni væri sérstök gosmyndun og er það því ekki meðtalið.
Jón Jónsson telur Arnarseturshraun eldra en Sundhnúkahraun, en því mun vera öfugt farið skv. jarðvegssniði. Ljóst er að Arnarseturshraunið hefur runnið skömmu eftir að Miðaldalagið féll, sem að líkindum var árið 1226 (Haukur Jóhannesson og Simundur Einarsson 1988b). Þetta er raunar sama niðurstaða og fékkst fyrir Illahraun. Ekki er hægt að segja til um aldursafstöðu þessara tveggja hrauna þars em jaðrar þeirra liggja hvergi saman. sennilegt er að þau hafi runnð í sömu goshrinu eða jafnvel samtímis. Ef Miðaldalagið hefur fallið árið 1226 þá hefur Arnarseturshrauni runnið í fyrsta lagi árið 1227 því einn vetur a.m.k. hefur liðið frá því að öskulagið féll uns hraunið rann.“
þegar gengið er um grágambramosað Arnarseturshraun má víða sjá í því grunnar litskrúðugar yfirborðsrásir, en einnig dýpri og stærri hella, s.s. Hnapp, Hestshelli og Kubb.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.:
-Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson – Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga – 1989.