Arngrímshellir (Gvendarhellir)
Tvö fjárskjól eru við Klofninga í Krýsuvíkurhrauni og það þriðja í Litlahrauni vestan þeirra.
Í austasta fjárskjólinu eru mikla hleðslur við innganginn og að því er virðist hlaðið „afhýsi“. Í miðfjárskjólinu, sem jafnan hefur verið nefnt Arngrímshellir eftir sögunni eða Gvendarhellir eftir Krýsuvíkur-Gvendi er á að hafa haldið þar fé um 1830. Þar eru tóftir húss við aðalmunnann og fyrirhleðslur, auk hlaðinna króa og flórað gólf að hluta. Vestasta fjárskjólið er í nálægð við gamla tóft auk þess sem hlaðið aðhald er þar við. Ekki er gott að segja til um með vissu hvert þessara fjárskjóla er hvað eða hvort Arngrímshellir og Gvendarhellir er sitthvor hellirinn eða einn og hinn sami.
Sagan segir að Arngrímur hafi um aldarmótin 1700 haft fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni. Við hellisopið byggði hann lítið fallegt hús úr rekavið. Fénu var beitt í Klofningana sem og í fjöruna, sem þó er all stórbrotin neðan þeirra. Arngrímur hélt 99 kindur og eina að auki frá systur sinni. Sú kind var grákollótt og nefnd Grákolla. Um jólaleytið gerði mikið óveður á þessum slóðum og hraktist féð fram af berginu. Arngrímur gafst upp á að reyna að bjarga fénu. Grákolla barðist þó gegn óveðri og reyndi Arngrímur þrívegis að kasta henni fram af bjarginu eftir hinu fénu. Jafnoft tókst henni að krafla sig upp aftur í snjónum og ákvað Arngrímur að láta þar við sitja. Komust þau bæði við illan leik í hellinn. Síðan er sagt að allt fé Krýsuvíkurbænda hafi verið af nefndri Grákollu komið.
Eftir aldarmótin var Arngrímur við sölvatöku í berginu undan Klofningum er jarðskjálfti reið yfir Suðurland. Féll bjarg á hann og lét hann lífið. Annar maður, sem með honum var, varð til frásagnar. Sá stökk undan fellunni í sjóinn og gat bjargað sér.
Hellirinn á að vera sínum stað ef sagan reynist sönn.
Gengið var niður í Klofninga og þess freistað að finna helli Arngríms. Hellirinn hefur einnig gengið undir nafninu Gvendarhellir því 130 árum eftir Arngrím mun Krýsuvíkur-Gvendur hafa haldið fé sínu þar til haga. Segir og sagan að hann hafi jafnvel falið það þar er koma átti að fjárniðurskurði í sveitinni vegna fjárpestar.
Í ýtarlegri lýsingu Jóns Vestmanns af Gvendarhelli (Krýsuvíkur-Gvendi) frá 1840 segir: “ . . . en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan-við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200 eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki.“ Í þessari frásögn er fjáreignin áætluð um 200 fullorðið en samkvæmt tíundareikningum þess tíma átti hann 111 sauði og ær (lömb ekki meðtalin) þegar best lét í Krýsuvík.
Komið var inn á gamla götu um miðja Klofninga. Henni var fylgt inn í hraunið og brátt mátti greina tóttir hússins við hellisopið sem og hleðslur inni í hellinum. Hluti gólfsins er flórað, hlaðið aðhald er inni í hellinum gegnt opinu með tóftinni framan við og fyrirhleðslur eru fyrir endum og umhverfis op miðsvæðis að sunnanverðu. Hellirinn er bæði bjartur og rúmgóður. Annar hellir skammt sunnar hefur einnig verið notaður í tengslum við aðhaldið. Í honum fannst rekaviður og fleira viðarkyns.
Engar sagnir eru til af Bálkahelli aðrar en þær að hann er nefndur nafni sínu í sögunni um Grákollu. Þá er hans getið í örnefnaslýsingu Þorsteins Bjarnason frá Háholti fyrir Krýsuvík. Þar segir: „Í Klofningum eru Gvendarhellir og Bálkahellir. Gvendarhellir ber nafn sitt af Guðmundi Bjarnasyni, er þar lifði einlífi yfir sauðfé sínu um 1840.“
Op Bálkahellis fannst þegar einn FERLIRsfélaga segja má datt niður um á kafi í snjó að vetrarlagi. Niðri reyndist vera um 250 metra langur hellir, vel manngengur, tvískiptur og dulúðlegur. Dropasteinar á gólfum og hraunstrá í loftum. Hraunbálkar eru með veggjum innan við efsta og stærsta opið. Hellirinn, fullkannaður, er í heild um 450 metra langur.