Ásbúð – örnefni
Gísli Sigurðsson skrifaði um örnefni Ásbúðar við Hafnarfjörð. Öll ummerki um bæinn eru nú horfin.
Ásbúð.
„Þegar kom vestur fyrir Flensborgarhús, var komið að Ásbúðarlæk, sem hér rann fram í Ásbúðarós, og hér lá yfir Ásbúðarvað. Heyrzt hefur, að lækur þessi væri kallaður Flensborgarlækur.
Sunnan lækjarins og inn með honum var Ásbúð. þar var löngum tvíbýli, þó þurrabúð væri. Hétu bæirnir Sigvaldabær og Halldórsbær. Ásbúðartún og Ásbúðar-Nýjatún lágu hér kringum bæina, girt Ásbúðartúngörðum. Sunnan túnsins var svo Ásbúðardý, vatnsból bæjanna. Um aldamótin byggðist Melshús og ræktaðist Melshústún. Hér upp brekkuna var vegur lagður, Suðurgatan. Sunnan vegarins var Mómýrin eða Raftamýrin, því raftamór kom upp þarna. Gíslatún nefndist hér, eftir að Gísli Gunnarsson ræktaði mýrina nær alla, en Ólafstún var hér ofar í holtinu.
Horft frá þar sem Ásbúð stóð að Flensborg og yfir fjörðinn. Í forgrunni má sjá garðahleðslur og hrunið hlaðið útihús svo þar sem Brandsbæjarlækur rann út í höfnina, þar var áður uppsátur skipa. Flensborgarskólinn þá skólahúsið nýja reist 1902. Hamarinn ber við himininn.
Niður við Ásbúðarlæk, sunnan Suðurgötu, var byggður bær, nefndist upphaflega Lækjamót, og fylgdi bænum Lækjamótalóð. Nafnið hélzt ekki við, en annað kom í staðinn, Mýrin eða _í Mýrinni“ og Mýrartún. Snemma á öldinni, sem leið, um 1835, var byggður bær hér ofan mýrar. Nefndist Melurinn. Þar var ræktað Melstún. Melsdý voru í mýrinni, litlar lindir, en rennsli frá þeim sameinaðist í Melslæknum. Neðan frá Flensborg, sunnan garða og upp með læknum, lá Melsstígur. Þar sem bærinn var byggður hafði áður verið þurrkvöllur fyrir mó úr mýrinni. Guðbrandur hét sá, er fyrstur bjó hér, því tók bærinn einnig nafn af honum, Brandsbær, Brandsbæjartún og Brandsbæjardý og Brandsbæjarlækur.“
Jófríðastaðasel – tóftir.
Í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð segir: „Ásbúð var upphaflega þurrabúð frá Ási. Þar var tvíbýli.“
Í Jarðabók inni 1703 segir: „Jörðin Ófriðarstaðir átti selstöðu … i heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður i Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi skipstöðu eignast í Ófriðarstaðalandi sem áður greinir.“
Ásbúð – loftmynd 1954.
Ás átti ekki land að sjó. Hins vegar er líklegt, eins og að framan greinir, að bærinn hafi fengið skipsuppsátur vestast í landi Ófriðarstaða í skiptum fyrir aðgengi að vatni neðan Ófriðarstaðasels norðan Hvaleyrarvatns, reist þar sjóbúð; Ásbúð, og nafnið færst yfir á nýja bæinn þar ofan búðarinnar um og í kringum aldarmótin 1900.
Á loftmynd af Ásbúð, sem tekin var árið 1954, má enn sjá uppistandandi íbúðarhúsið, en á myndinni má jafnframt sjá hversu mikið umhverfinu hefur verið raskað á skömmum tíma.
Heimildir:
-Örnefnaskráning fyrir Ófriðarstaði – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð, Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.
-Jarðabókin 1703.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902. Ásbúð er nr. 5.